Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Áform um uppsagnir lýsa virðingarleysi stjórnvalda

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) gagnrýnir harðlega áform stjórnvalda um uppsögn starfsfólks í tengslum við sameiningu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins (NSA) og Kríu, sprota- og nýsköpunarsjóðs. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í umsögn ASÍ um frumvarp til laga um Nýsköpunarsjóðinn Kríu. 

Í umsögninni kemur fram að ASÍ er í grundvallaratriðum ekki andvígt sameiningu NSA og Kríu en þar segir jafnframt að ekki verði hjá því komist að gera alvarlegar athugasemdir við bráðabirgðaákvæði frumvarpsins sem feli í sér að stjórnvöld hyggist „skauta léttilega framhjá réttindum starfsfólks við breytingar sem eru fyrst og fremst stjórnsýslulegs eðlis en breyta í reynd störfum og verkefnum einstaklinga lítið sem ekkert.”  

Vafasamar lagatúlkanir 

Telja verði „verulegt áhyggjuefni” að stjórnvöld hér á landi telji sig svo lítt bundin gagnvart starfsfólki sínu að þau séu reiðubúin að leggjast í „ vafasamar túlkanir á lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, til að losa um ráðningarsambönd með tilheyrandi óþægindum fyrir starfsfólk sjóðanna.” 

ASÍ telur aðgerðir þessar trauðla standast gagnvart meðalhófs- og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. „Furðu sætir að engin tilraun sé gerð til að rökstyðja svo íþyngjandi ákvarðanir með sérstökum hætti í frumvarpinu,” segir í umsögninni. Nýfundið „ virðingar- og ábyrgðarleysi gagnvart vinnandi fólki í landinu” hljóti að vera mikið áhyggjuefni.  

Fleiri athugasemdir eru gerðar við frumvarpið og má nálgast umsögnina hér.  

Author

Tengdar fréttir