Ályktun miðstjórnar ASÍ um tillögu um einkavæðingu Landsvirkjunar 

Höfundur

Ritstjórn

Ályktun miðstjórnar ASÍ um tillögu um einkavæðingu Landsvirkjunar 

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) hvetur almenning til að halda vöku sinni gagnvart tilraunum fjármálaaflanna til að sölsa undir sig opinberar eigur. Reynslan kennir að slíkar jaðarskoðanir geta fengið framgang á Íslandi með tilheyrandi skaða fyrir samfélagið ef almenningur heldur ekki vöku sinni.  

Nýjasta dæmi um tilraun í þessa veru er að finna í viðtali við forstjóra Kauphallarinnar í þættinum Dagmál á vef Morgunblaðsins, mbl.is. Þar fjallaði forstjórinn um ýmsar „jákvæðar afleiðingar” þess að 20% hlutur í Landsvirkjun yrði seldur. Á meðal þeirra þjóðþrifa-áhrifa sem sá gjörningur myndi hafa nefndi forstjórinn að erlendir fjárfestar myndu „laðast að” fyrirtækinu sökum stærðar þess og sérstöðu í orkuöflun. Að auki taldi forstjórinn að sala á 20% hlut gæti „farið langt með að koma íslenska markaðnum upp um flokk í MSCI-vísitölufyrirtækinu og það myndi aftur framkalla jákvæð áhrif í gegnum fjármagnsinnflæði.”  

Miðstjórn telur þennan málflutning fráleitan og til marks um þá firringu sem víða ríkir í íslensku fjármálalífi og stjórnmálum. Reynsla Íslendinga af einkavæðingu opinberra fyrirtækja og innviða hrun fjármálakerfisins haustið 2008 og nú síðast þau lögbrot sem framin voru við sölu á hluta Íslandsbanka ætti að vera okkur öllum í fersku minni 

Málflutningur eins og sá sem forstjóri Kauphallarinnar hefur uppi sýnir að brýn þörf er á varðstöðu um lykilfyrirtæki í opinberri eigu á borð við Landsvirkjun, um opinbera innviði og auðlindir í þjóðareign. Þess er ekki að vænta að fjármálaöflin láti af ásælni sinni í eigur fólksins í landinu. Mikilvægt er að því sé komið til skila til almennings, ekki síst til þeirra sem yngri eru, hver reynsla þjóðarinnar er af einkavæðingu innviðafyrirtækja í opinberri eigu og hvílíkum skaða það getur valdið þegar stjórnmálamenn gerast handbendi fjármálaflanna í stað þess að standa vörð um hagsmuni og eigur almennings.  

Tengdar fréttir

  • ASÍ styrkir Samhjálp um páska

    ASÍ styrkir Samhjálp um 400 þúsund krónur nú í aðdraganda…

    Arnaldur Grétarsson

    15. apr 2025

    Kaffistofa Samhjálpar og merki Samhjálpar
  • Opið fyrir umsóknir í Minningarsjóð Eðvarðs Sigurðssonar 2025

    Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar auglýsir eftir umsóknum. Sjóðurinn veitir styrki til…

    Arnaldur Grétarsson

    8. apr 2025

    Eðvarð Sigurðsson
  • Engar tryggingar í frumvarpi um verð á raforku til almennings

    Stjórnvöld taki ekki tillit til sérstöðu raforkumála á Íslandi Alþýðusamband…

    Ritstjórn

    26. mar 2025