Ályktun um efnahags- og kjaramál

Höfundur

Ritstjórn

Formannafundur ASÍ 2025 gagnrýnir harðlega niðurskurðarstefnu og samráðsleysi stjórnvalda og árásir ríkisstjórnarinnar á réttindi og kjör launafólks.

Formannafundur lýsir yfir vaxandi áhyggjum af stöðu efnahags- og kjaramála. Skýr merki eru um kólnun í hagkerfinu, atvinnuleysi fer vaxandi, verðbólga og stýrivextir eru enn óásættanlega háir og ekkert lát virðist vera á hávaxtastefnunni. Helsti drifkraftur verðbólgunnar er enn úrræðaleysi stjórnvalda í húsnæðismálum sem bitnar verst á ungu fólki og tekjulægri heimilum, en einnig gróðasókn fyrirtækja sem hafa ekki haldið aftur af verðhækkunum. Með undirritun stöðugleikasamninganna á vinnumarkaði vorið 2024 axlaði launafólk ríka ábyrgð á því að  stuðla að hjöðnun verðbólgu og lækkun vaxta. Ábyrgðin á verðstöðugleikanum verður ekki sett eingöngu á herðar launafólks. Nú er komið að því að stjórnvöld og fyrirtæki axli sína ábyrgð.

Formannafundur hafnar þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur boðað til að ná markmiðum í ríkisfjármálum en með þeim eru þyngstu byrðarnar lagðar á atvinnulausa, barnafólk, ellilífeyrisþega og heimilin í landinu. Verði fjárlagafrumvarpið samþykkt óbreytt mun það þýða skerðingar á lífeyrisréttindum verkafólks, rýrnun barnabóta og húsnæðisstuðnings, lækkun á framlögum til íslenskukennslu, hærri gjaldtöku í heilbrigðisþjónustunni og veikari atvinnuleysistryggingar nú þegar atvinnuleysi fer vaxandi.

Jafnframt ítrekar fundurinn ákall sitt til ríkisstjórnarinnar um að endurskoða áform sín um niðurfellingu framlags til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða þar til um annað fyrirkomulag hefur verið samið, til að jafna örorkubyrði lífeyrissjóðanna með fullnægjandi hætti. Verkalýðshreyfingin mun aldrei fallast á að verka- og láglaunafólk verði eitt látið bera byrðarnar af misskiptri örorkubyrði með frekari lækkun á lífeyrisréttindum sínum.

Tengdar fréttir

  • Forseti ASÍ segir niðurskurð ríkisstjórnar bitna á láglaunafólki

    Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands, (ASÍ) gagnrýndi niðurskurðaráform ríkisstjórnarinnar í ræðu…

    Ritstjórn

    21. okt 2025

  • Vel heppnað þing ASÍ-UNG

    ASÍ-UNG hélt sitt 11. þing föstudaginn 17. október og var…

    Ritstjórn

    20. okt 2025

  • Þungar áhyggjur af atvinnuástandi á Húsavík

    Miðstjórn Alþýðusambands Íslands samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum miðvikudaginn…

    Ritstjórn

    16. okt 2025