Alþýðusamband Íslands gerir athugasemdir við áform ríkisstjórnarinnar um niðurskurð eins og hann birtist í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í ítarlegri umsögn ASÍ um fjárlagafrumvarpið.
Niðurskurður
Vakin er í umsögninni athygli á boðuðum „hagræðingaraðgerðum“ samkvæmt fjárlagafrumvarpinu.
• Framlag til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða verður afnumið.
• Bótatímabil atvinnuleysistrygginga verður stytt um 12 mánuði og reglur um ávinnslu þrengdar.
• Fjárhæðir í barnabótakerfinu haldast óbreyttar og stuðningur við barnafjölskyldur rýrnar að raungildi.
• Fjárhæðir í húsnæðis- og vaxtabótakerfinu haldast óbreyttar og stuðningur vegna húsaleigu og vaxtakostnaðar rýrnar að raungildi.
• Sérstakar aðhaldsráðstafanir upp á 3,8 milljarða í heilbrigðiskerfinu og kostnaðarþáttaka sjúklinga verður aukin.
• Lækkun á framlögum til framhaldsfræðslu og íslenskukennslu
Í umsögninni koma fram áhyggjur af horfum í efnahagsþróun og viðsnúningi í efnahagslífinu. Með stöðugleikasamningunum árið 2024 hafi meginmarkmiðið verið að stuðla að verðstöðugleika og leggja grunn að lækkun vaxta. Þó verðbólga hafi gengið nokkuð niður frá gerð kjarasamninga sé verðbólga og raunvaxtastig enn óásættanlega hátt. Enn séu það aðstæður á húsnæðismarkaði sem eru megindrifkraftur verðbólgu, hér þurfi stjórnvöld að grípa til aðgerða.
Þar segir:
„Stjórnvöld bera ríka ábyrgð á að stuðla að verðstöðugleika hvort sem er með opinberum fjármálum, hófsemi Í gjaldskrárhækkunum eða tryggja að kerfislægir þættir verði ekki til þess að ýta undir verðbólgu. Þar má nefna miklar hækkanir á raforkuverði til bæði heimila og fyrirtækja. Jafnframt er tilefni til að gagnrýna sveitarfélög fyrir að standa ekki við gefin loforð við gerð kjarasamninga um að halda gjaldskrárhækkunum Í hófi og tryggja framboð byggingarhæfra lóða.“
Skattahækkanir
Fram kemur að umfang lögfestra og ólögfestra skattbreytinga nemi 27,9 milljörðum á árinu 2026. Þar vegi þyngst breyting á veiðigjöldum, breyting á kílómetragjaldi og breyting á heimild til samnýtingar skattþrepa.
Alþýðusambandið hefur áður veitt umsögn og gert margvíslegar athugasemdir um kílómetragjaldið á fyrra löggjafarþingi. ASÍ telur ástæðu til að óttast að kílómetragjaldið ýti undir verðbólgu:
„Stjórnvöld ganga út frá því að olíufélög lækki verð til samræmis við afnám gjalda. Slíkt er ekki fast í hendi, og virðast stjórnvöld ekki hafa nein áform um að fylgja eftir eða vakta hvort það raungerist. Alþýðusambandið hefur að undanförnu fjallað um verðþróun á eldsneyti og bent á að styrking gengis krónunnar og hagfelldara heimsmarkaðsverð hafi ekki komið fram að fullu í lægra smásöluverði á eldsneyti. Í nýlegri greiningu Alþýðusambands Íslands er afnám eldsneytisgjalda sett í samhengi við stöðu samkeppni á eldsneytismarkaði. Í greininni er bent á að heildarkostnaður neytenda geti við breytingarnar hækkað þar sem samkeppni sé ekki að fullu virk á eldsneytismarkaði.“
Sparað með breyttum atvinnuleysistyggingum
Í umsögninni er einnig að finna gagnrýni vegna samráðsleysis í tengslum við breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar. Þar segir:
„Alþýðusambandið tekur undir mikilvægi þess að atvinnuleysistryggingakerfið stuðli að virkni atvinnuleitenda og endurkomu á vinnumarkað en bendir á að Vinnumálastofnun hefur ríkar heimildir til þess að beita virkum vinnumarkaðsaðgerðum, starfrækja vinnumiðlun og stuðla að virkni atvinnuleitenda. Að mati ASÍ hefur of litlum fjármunum verið varið í slík úrræði og of lágt hlutfall atvinnuleitenda að jafnaði staðið til boða þátttaka í úrræðum. Samhliða breytingunum er ekki áformað að auka fjármagn til vinnumarkaðsúrræða, er því um að ræða hreina sparnaðartillögu.“
Umsögn ASÍ í heild má nálgast hér.