Alþýðusambandið og BSRB taka í meginatriðum undir markmið og framtíðarsýn atvinnustefnu stjórnvalda eins og henni er lýst í framkomnum drögum. Samtökin gera þó margvíslegar athugasemdir við inntak og áherslur stjórnvalda í þessum málaflokki.
Þetta kemur fram í sameiginlegri umsögn ASÍ og BSRB um svonefnd „Drög að atvinnustefnu Íslands, vaxtarplan til 2035“ sem ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hefur lagt fram og óskað eftir umsögnum um. Áður kynntu stjórnvöld áform um atvinnustefnu þessa og sameinuðust þá BSRB og ASÍ jafnframt inn umsögn.
Hagvöxtur og bætt lífskjör
Í umsögninni ítreka samtökin fyrri sjónarmið sín þess efnis að hagvöxtur einn og sér sé ekki trygging fyrir bættum hag almennings. Grunnforsenda þess að framleiðnivöxtur og ábati aukinnar samkeppnishæfni leiði til bættra lífskjara almennings sé skipulagður og heilbrigður vinnumarkaður. Það tryggi að ábata verðmætasköpunar sé deilt í gegnum frjálsa kjarasamninga, með sterkri verkalýðshreyfingu og almennri stéttarfélagsaðild, sem stutt sé með traustu regluverki og stofnunum sem standi vörð um réttindi launafólk.
Síðan segir: „Samtökin lýsa vonbrigðum með að áherslur um jöfnuð og sanngjarnan vinnumarkað séu ekki ávarpaðar í stefnunni og telja að jöfnuður þurfi að vera einn af mælikvörðum á afrakstur stefnunnar.“
Félagslegir innviðir hundsaðir
ASÍ og BSRB telja einnig gagnrýnivert að ekki sé að finna áherslur sem lúti að félagslegum innviðum í „vaxtarplani“ þessu. Nefnt er að ekki sé nóg að huga að samkeppnishæfni atvinnulífs heldur þurfi einnig að huga að samkeppnishæfum búsetuskilyrðum hér á landi. Sé ætlunin að Ísland haldi í og laði að sér vinnuafl í störf um land allt verði að huga að lífskjörum, búsetuskilyrðum og samfélagsþjónustu um land allt. Þar skipti höfuðmáli að tryggja húsnæði á viðráðanlegu verði, góðar samgöngur og aðgengi að nauðsynlegri þjónustu um land allt eins og dagvistun og heilbrigðisþjónustu.
Opinbert forræði innviða
Í umfjöllun um innviði leggja ASÍ og BSRB áherslu á að frumforsenda þess að ráðist sé í einkaframkvæmd á opinberum innviðum að eignarhald á fjárfestingunni færist alltaf yfir til hins opinbera eftir skilgreindan tíma, að hið opinbera hafi forræði yfir nýtingu innviða, að ráðist sé í arðbær verkefni, forgangsröðun verkefna taki mið af ábatagreiningum og skýrt sé að samstarf við einkaaðila skili ábata umfram hefðbundna opinbera fjárfestingu.
Enginn áhugi á menntun fullorðinna
Í umfjöllum um menntamál vekja samtökin athygli á að í drögum þessum sé hvergi að finna umfjöllun um sí – og endurmenntun. Gagnrýnt er hversu lítinn áhuga stjórnvöld sýni menntun fullorðinna og er í því viðfangi vakin athygli á að litlar upplýsingar séu til um stöðu þess hóps þar sem Ísland hafi ekki verið þátttakandi í PIAAC rannsókn OECD sem mælir færni fullorðinna á vinnumarkaði. Til áréttingar þessu er í umsögninni nefnt að flest Evrópuríki leggi aukna áherslu á færni þeirra sem fyrir séu á vinnumarkaði í þeim tilgangi að stuðla að aukinni framleiðni og verðmætasköpun. Stjórnvöld eru hvött til þess að taka færni fullorðinna á vinnumarkaði fyrir í stefnunni og í boðaðri aðgerðaáætlun sem henni mun fylgja.
Einföldun regluverks ekki sjálfstætt markmið.
Varað er við því að boðuð „einföldun regluverks“ sé talin markmið í sjálfri sér. Vissulega geti tækifæri leynst í því að fjarlægja óþarfa hindranir, gera ferli skilvirkari og efla rafræna innviði. Hins vegar sé umfjöllun um þetta atriði í meira lagi óljós í „vaxtarplani“ ríkisstjórnarinnar og lögð er áhersla á að einföldun megi ekki vera á kostnað þess að vernda almenning, launafólk og tryggja jafnræði.
Umsögn ASÍ og BSRB má nálgast hér.





