Alþýðusamband Íslands og Jafningjafræðslan hafa gert með sér samkomulag um samstarf í sumar. Samvinna ASÍ og Jafningjafræðslunnar hófst árið 2009 og hefur það tekist afar vel. Leiðbeinendur Jafningjafræðslunnar munu í sumar uppfræða krakka í Vinnuskóla Reykjavíkur, Vinnuskóla Kópavogs og Vinnuskóla Seltjarnarness og víðar um landið um verkalýðshreyfinguna og helstu réttindamál á vinnumarkaði. Auk þess styrkir ASÍ starf Jafningjafræðslunnar fjárhagslega. Alþýðusambandinu er heiður að því að koma að því góða starfi sem Jafningjafræðslan ynnir af hendi.
Jafningjafræðslan er forvarnarstarf unnið af ungu fólki þar sem fræðslan byggist á að bæta sjálfsmynd unga fólksins. Rætt er um vinnuréttindi, vímuefni, átraskanir, kynlíf, kynferðisofbeldi, samkynhneigð, einelti, fordóma og fleira forvarnartengt. Jafningjafræðslan nær til 3-4000 ungmenna á aldrinum 15-17 ára á hverju ári.
Mynd: Drífa Snædal, forseti ASÍ ásamt Boga Guðbrandi Hallgrímssyni frá Jafningjafræðslunni eftir undirskrift samstarfssamningsins