Forsvarsfólk aðildarfélaga ASÍ og Samtaka atvinnulífsins hittust á fundi á dögunum þar sem staða kjarasamninga og efnahagsmála í landinu voru rædd. Í kjölfar fundarins var rituð sameiginleg yfirlýsing sem má lesa hér fyrir neðan:
Yfirlýsing Alþýðusambands Íslands og Samtak atvinnulífsins
Samtök atvinnulífsins og aðildarfélög Alþýðusambands Íslands tóku höndum saman fyrr á árinu þegar gerðir voru langtímakjarasamningar, samningar sem auka fyrirsjáanleika og stöðugleika í efnahagslífinu.
Samningsaðilar voru sammála um að meginmarkmið samninganna væru að ná niður mikilli verðbólgu og háu vaxtastigi sem komið hefur hart niður á bæði heimilum og fyrirtækjum.
Ársverðbólga fyrir ári síðan mældist 7,7% og án húsnæðisliðarins 7,6% – í síðustu mælingu Hagstofu Íslands mældist ársverðbólgan 6,3% og án húsnæðisliðarins 4,2%.
Mikilvægum árangri hefur verið náð en báðir aðilar árétta að allir aðilar vinnumarkaðarins, fyrirtæki landsins, ríki og sveitafélög þurfi áfram að leggjast á eitt til þess að ná áðurnefndum markmiðum.
Um þessar mundir eru augljós merki í atvinnulífinu um að hagkerfið sé að kólna og útlit er fyrir að hagvöxtur verði undir 1% á árinu. Háir raunvextir eru að sliga skuldsett heimili í landinu og standa fjárfestingu í framtíðar verðmætasköpun fyrir þrifum og draga úr þrótti á íslenskum hlutabréfamarkaði. Það er því mikilvægt að Seðlabankinn sé framsýnn í sínum ákvörðunum þegar kemur að ákvörðun um stýrivexti.
Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands leggja auk þess áherslu á mikilvægi þess að sveitarfélög tryggi nægt framboð af fjölbreyttum og hagkvæmum lóðum, svo tryggt verði að framboð á húsnæðismarkaði sé í takt við eftirspurn. Jafnvægi á húsnæðismarkaði er forsenda efnahagslegs stöðugleika.
Mikið átak þurfti til að tryggja fjögurra ára kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í því augnamiði að stuðla að stöðugleika og fyrirsjáanleika fyrir fyrirtæki og heimili. Í ljósi þess að loforð yfirvalda um aðgerðir í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði eru hluti forsenduákvæða samninganna leggja samningsaðilar áherslu á að staðið sé við gefin loforð.