Samráðshópur Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins um lífeyrismál efndi til kynningarfundar síðastliðinn föstudag, 6.desember. Fundurinn var haldinn í Herðubreið, Húsi fagfélaganna, við Stórhöfða í Reykjavík. Honum var jafnframt streymt um internet.
Fundarefnið var Sérrit Seðlabankans um umsvif lífeyrissjóða á fjármálamarkaði og æskilegar umbætur á löggjöf um lífeyrissjóði sem gefið var út í októbermánuði.
Gestir fundarins voru Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri og nokkrir sérfræðingar bankans sem komu að gerð skýrslunnar.
Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands, gerði grein fyrir afstöðu verkalýðshreyfingarinnar í stuttu upphafsávarpi. Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri, fjallaði um sýn Samtaka atvinulífsins til lífeyriskerfisins.
Í máli beggja komu fram verulegar efasemdir um þær ábendingar og hugmyndir um breytingar á lögum og starfsháttum lífeyrissjóða.
Af hálfu Seðlabankans var lögð áhersla á að sérritið væri fyrst og fremst hugsað til þess að skapa umræðu um kerfið og að ekki stæði til að þröngva breytingum á því upp á Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins.
Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri sótti fundinn ásamt sérfræðingum.
Ávarp forseta ASÍ
Í upphafsávarpi sínu sagði Finnbjörn A. Hermannsson:
„Ég býð ykkur öll velkomin hér í dag á fund samráðshóps ASÍ og SA um lífeyrismál, þar sem bakhjarlar lífeyrissjóðanna á almennum vinnumarkaði, stjórnarfólk, stjórnendur og fulltrúar heildarsamtakanna, koma saman til þess að ræða þau málefni lífeyriskerfisins sem eru í deiglunni hverju sinni, og bera saman bækur sínar.
Það er mikilvægt fyrir okkur sem stöndum að baki kjarasamningi ASÍ og SA um lífeyrismál að eiga þetta samtal um þróun kerfisins, ekki einungis við kjarasamningsborðið, heldur einnig við þau ykkar sem hafið fengið umboð félaga ykkar og samtaka til þess stýra og hafa eftirlit með starfsemi sjóðanna og standa vörð um lífeyrisréttindi sjóðfélaga. Að sama skapi er mikilvægt fyrir okkur öll að eiga virkt samtal við stjórnvöld og opinbera eftirlitsaðila um framgang og nauðsynlegar umbætur á hverjum tíma þannig að tryggt sé að þær séu í takt við grunngildi kjarasamningsins og hagsmunir sjóðfélag í nútíð og framtíð séu ávallt í fyrirrúmi.
Málefni lífeyrissjóðanna vekja nú líkt og svo oft áður heitar umræður og skoðanir eru skiptar um hlutverk og skipulag þeirra. Þetta sáum við nú síðast í aðdraganda kosninga þar sem settar voru fram hugmyndir um skattlagningu iðgjalda til lífeyrissjóðanna við inngreiðslu í stað þess að greiða skatt af lífeyrir þegar hann kemur til útgreiðslu. Slíkar hugmyndir vega að undirstöðum lífeyriskerfisins, flytja þunga skattbyrði á framtíðarkynslóðir og rýra kjör lífeyrisþega. Hlutverk okkar sem hér erum í dag er að standa gegn slíkri aðför og verja þau grundvallargildi sjálfbærni, sjóðssöfnunar og samtryggingar sem kerfið okkar byggir á. Það gleymist oft í umræðunni hverjir eiga lífeyrinn sem lífeyrissjóðirnir geyma og ávaxta. Það eru félagsmenn okkar, því þetta eru laun sem við leggjum til hliðar og nýtum okkur þegar aldurinn færist yfir, eða við heltumst úr lestinni á leið til starfsloka.
Kjarasamningur ASÍ og SA um lífeyrismál er grundvöllur stofnunar og starfsemi sjóðanna á samningssviðinu. Sögulega hefur samningurinn verið leiðandi fyrir lífeyrikerfið allt þar sem breytingum á kjarasamningnum hafa að jafnaði fylgt samsvarandi breytingar á lögum og regluverki. Þannig hefur löggjafinn staðfest þýðingu kjarasamningsins og ábyrgð aðilanna á málaflokknum. Í þessu felst ábyrgð sem gerir þá kröfu á okkur samningsaðilana að vera stöðugt vakandi fyrir breytingum í samfélaginu og starfsumhverfi sjóðanna sem kalla á rýni og endurbætur.
Hilmar Harðarson, formaður FIT, skiptist á skoðunum við fulltrúa Seðlabankans.
Frá því fyrsti samningurinn var gerður um stofnun og iðgjald til lífeyrissjóða á almennum vinnumarkaði árið 1969 hafa reglulega verið gerðar viðbætur og uppfærslur á samningnum í takt við nýja tíma. Síðasta stóra breytingin var gerð árið 2018 en þá var sá kafli samningsins sem fjallar um stjórnkerfi lífeyrissjóðanna uppfærður í heild sinni. Í þeim breytingum var meðal annars stofnanauppbygging sjóðanna áréttuð, skerpt á hlutverki og skipan fulltrúaráða, sem og umgjörðin um hlutverk, skipan og hæfi stjórnarmanna styrkt.
Stefán Ólafsson, prófessor emeritus og sérfræðingur Eflingar, tók til máls á fundinum.
Stjórnskipan lífeyrissjóðanna er því vel skilgreind sem og hæfiskröfur til þeirra fulltrúa launafólks og atvinnurekenda sem skipaðir eru í stjórnir sjóðanna. Hið virka fulltrúalýðræði sem stjórnskipanin grundvallast á er einnig áréttað í samningnum. Fulltrúar stéttarfélaga og atvinnurekenda starfrækja hvor um sig uppstillinganefndir sem fjalla um hæfi þeirra sem gefa kost á sér til stjórnarsetu. Formlegt samráð tilnefningaraðila á sér svo stað til að tryggja að stjórnin sem heild búi yfir nægilegri þekkingu og reynslu og kynjahlutföll séu jöfn.
Ferlið miðar því allt að því að tryggja að baklandið eigi sína sjálfstæðu fulltrúa í stjórnum sjóðanna, stjórnarmenn séu hæfir til starfans og stjórnin sem heild geti rækt hlutverk sitt. Reynslan af þessu fyrirkomulagi er góð og mikilvægt að hugmyndir sem settar eru fram um breytingar á stjórnskipan sjóðanna séu ávallt skoðaðar með hliðsjón af því kjarasamningsbundna fyrirkomulagi sem sátt er um og hlutverki aðila vinnumarkaðarins við að varsla og varðveita kerfið.
Í allri umræðu um lífeyriskerfið, kosti þess og galla, megum við aldrei villast af leið og gleyma því sem öllu máli skiptir, sem er árangur kerfisins við að tryggja sjóðfélögum mannsæmandi afkomu við lok starfsævinnar eða ef áföll verða á lífsleiðinni. Reglulega koma fram ýmsar hugmyndir sem ganga gegn þessu grundvallar hlutverki. Eina þá afdrifaríkustu nefndi ég hér í upphafi um skattlagningu iðgjalda sem berjast þarf gegn með öllu afli. En það er sótt á kerfið úr fleiri áttum.
Fundurinn var fjölsóttur og að auki fylgdust margir með streymi um netið.
Á síðustu árum hefur dregið úr fyrirsjáanleika og framtíðarréttindi verið rýrð með tímabundnum heimildum til að ganga á viðbótarlífeyrissparnað. Lífeyrissjóðir eru samtryggingasjóðir og sem slíkir bera þeir mismikla örorkubyrði eftir eðli starfa sjóðsfélaga sem til þeirra greiða. Samkomulag náðist á sínum tíma við ríkisvaldið um að jafna þá örorkubyrði með greiðslum úr sameiginlegum sjóði okkar landsmanna. Það samkomulag hefur nú verið rofið einhliða af þeirri ríkisstjórn sem nú er að fara frá og mun það koma verst niður á sjóðum verkafólks á samningssviðinu. Það er verkefni okkar aðila vinnumarkaðarins að endurnýja slíkt samkomulag og koma í veg fyrir að skerða þurfi lífeyrisréttindi. Þá er iðuleg bryddað upp á hugmyndum um að nýta sjóði lífeyriskerfisins í ýmis þjóðþrifamál án nokkurs tillits til þess hver áhrifin eru á lífeyrisgreiðslur í nútíð og framtíð. Reglulega kemur upp gamalkunn umræða um að afnema kjarasamningsbundna skylduaðild og markaðsvæða lífeyriskerfið. Og nú er lífeyriskerfinu meira að segja ætlað hlutverk við að stuðla að jafnvægi í efnahags- og gjaldmiðlamálum.
Allar slíkar hugmyndir brýna okkur í því mikilvæga hlutverki að standa fyrst og fremst vörð um eignir og hagsmuni sjóðfélaga á grundvelli samtryggingar og samstöðu líkt og aðilar vinnumarkaðarins hafa nú gert í nær sex áratugi. Höfum hugfast að lífeyrissjóðirnir eru fyrst og fremst félagslegt afkomutryggingakerfi en ekki fjármálastofnanir.
Kjarasamningur ASÍ og SA um lífeyrismál var síðast endurnýjaður í heild árið 1995 og byggt á honum, var fyrsta heildstæða löggjöfin um starfsemi sjóðanna sett á árinu 1997. Á næsta ári eru því liðin 30 ára frá þessum tímamótum. Margt hefur breyst síðan og þó ýmsar viðbætur hafi verið gerðar við samninginn á liðnum árum þá tel ég ljóst að tími sé komin til þess að endurskoða samninginn í heild sinni að nýju. Ef við fáum uppstyttu frá öðrum kjarasamningum eigum við að nota tímann framundan og fara í slíka heildarendurskoðun á samningnum. Góðan samning má alltaf bæta.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í pontu á fundinum.
Enn og aftur býð ég ykkur velkomin í húsakynni iðnaðarmanna. Fundarstjóri í dag verður Þórir Gunnarsson en til að spara honum fyrstu sporin ætla ég að kynna inn fyrsta dagskrárlið.
Til fundarins hingað í dag höfum við fengið Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóra og fleiri fulltrúa bankans til að ræða ýmsar hugmyndir og vangaveltur sem settar eru fram í umræðuskýrslu um lífeyrismál sem bankinn gaf út nýverið. Það er mikilvægt að fram fari opin og hreinskiptin umræða um þau sjónarmið sem bankinn setur þar fram og að breytingar sem gerðar eru á regluverki um lífeyrissjóðina séu ávallt undirbúnar í sátt og samræmi við hlutverk og markmið aðila vinnumarkaðarins.
Ég hlakka til samtalsins hér í dag og treysti á að fram fari líflegar umræður og skoðanaskipti meðal fundarmanna.”