Verðbólga mun reynast þrálát og vera yfir markmiði Seðlabankans út árið 2027. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri hagspá Alþýðusambands Íslands (ASÍ).
Grunnspá ASÍ gerir ráð fyrir 4,2% verðbólgu á þessu ári og 4% á því næsta ári. Líklegt er að þróunar í átt að markmiði Seðlabanka Íslands, 2,5%, taki að gæta á árinu 2027. Því er spáð að verðbólga verði að jafnaði 3,7% árið 2027.
Fram kemur að verðbólguþrýstingur hafi reynst töluverður í ár, einkum vegna innlendra hækkana og mikillar spennu á leigumarkaði. Innlendar hækkanir eiga einkum við um húsnæði, hita og rafmagn auk þess sem matur, drykkjarvörur og þjónusta vega þungt.
Opinberar hækkanir æsa verðbólguna
Aðgerðir stjórnvalda munu, samkvæmt spánni, leiða til aukinnar verðbólgu. Í spá ASÍ segir:
„Til viðbótar má vænta þess að hækkanir á opinberri þjónustu, bæði ríkis og sveitarfélaga, muni koma til framkvæmda á næsta ári, m.a. vegna hækkana á krónutölugjöldum í fjárlögum, breytinga á vörugjöldum bifreiða, breytinga á leikskólagjöldum og vegna fyrirhugaðra breytinga á gjaldtöku eldsneytis samhliða upptöku kílómetragjalds. Í nýlegri greiningu Alþýðusambands Íslands er afnám eldsneytisgjalda sett í samhengi við stöðu samkeppni á eldsneytismarkaði. Í greininni er bent á að heildarkostnaður neytenda geti við breytingarnar hækkað þar sem samkeppni sé ekki að fullu virk á eldsneytismarkaði.“





