Atvinnuleysi á Íslandi – niðurstöður vinnumarkaðsskýrslu  

Höfundur

Steinunn Bragadóttir

Í nýrri skýrslu ASÍ, Íslenskur vinnumarkaður 2025, er fjallað ítarlega um þróun atvinnuþátttöku, atvinnuleysis og samsetningu þess, auk þeirra kerfa sem skipta mestu máli fyrir afkomu og öryggi launafólks. Niðurstöðurnar sýna að íslenskur vinnumarkaður stendur sterkur í alþjóðlegum samanburði: atvinnuþátttaka er með því mesta sem þekkist innan OECD, atvinnuleysi er lágt og langtímaatvinnuleysi með minnsta móti. Sérstaðan felst m.a. í því að atvinnuþátttaka er mikil meðal allra hópa, kvenna, ungs fólks, eldra fólks og innflytjenda og samsetning langtímaatvinnulausra endurspeglar samsetningu atvinnulausra almennt, án þess að einn hópur skeri sig úr. 

Ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur hefur nú boðað grundvallarbreytingar á atvinnuleysistryggingakerfinu. Í umsögn ASÍ um málið er bent á að ekki sé að sjá út frá þessu að knýjandi þörf sé á breytingum á atvinnuleysistryggingakerfinu sem skerða afkomutryggingu launafólks. Markmið breytinganna er sagt að stuðla að aukinni virkni en með öllu er óljóst hvernig ná skuli því markmiði með því einu að skerða réttindi og afkomuöryggi launafólks.  Áform stjórnvalda eru kynnt án greininga á áhrifum þeirra eða samspili við önnur kerfi. Þannig sé óljóst hvort breytingarnar muni ná markmiðum sínum, en líklegt að skert réttindi leiði frekar til aukins álags á önnur afkomutryggingakerfi og rjúfi tengsl fólks við vinnumarkaðinn. 

Í framhaldinu verða hér dregnar fram helstu niðurstöður skýrslu ASÍ um atvinnuleysi og langtímaatvinnuleysi. 

Atvinnuleysi á Íslandi 

Þróun atvinnuleysis á Íslandi hefur sögulega verið nátengt hagsveiflunni. Í kjölfar bankahrunsins árið 2008 náði atvinnuleysi sögulegu hámarki og var rúmlega 8% árin 2009 og 2010. Þegar efnahagslífið tók við sér á ný lækkaði atvinnuleysi fram til ársins 2018. Hagfelldar aðstæður á vinnumarkaði breyttust í kjölfar gjaldþrots WOW air en áttu eftir að versna til muna við heimsfaraldur þegar atvinnuleysi jókst í 8%. 

Mynd 1 Árlegt atvinnuleysi, 2000-2024 

Heimild: Vinnumálastofnun 

Vinnumarkaður náði sér fljótt á strik eftir afléttingu ferðatakmarkana og atvinnuleysi lækkaði hratt árin 2021 og 2022. Árið 2024 mældist það að jafnaði 3,5% og hefur síðustu þrjú ár verið á bilinu 3–4%. Til samanburðar var atvinnuleysi að meðaltali um 6% í Evrópusambandsríkjum og 5% í ríkjum OECD árið 2024. Þessar tölur sýna að atvinnuleysi á Íslandi er lágt í alþjóðlegum samanburði, þótt sveiflurnar hafi verið miklar síðustu ár. 

Mynd 2 Atvinnuleysi í OECD, 2024. 

Heimild: OECD 

Langtímaatvinnuleysi með minnsta móti 

Langtímaatvinnuleysi, þegar fólk hefur verið án vinnu í tólf mánuði eða lengur, er lítið á Íslandi í alþjóðlegum samanburði. Ísland er þar í hópi með Norðurlöndunum og Hollandi, þar sem hlutfall langtímaatvinnulausra er með því lægsta sem þekkist í Evrópu.  

Samkvæmt gögnum Vinnumálastofnunar höfðu um fimmtungur þeirra sem þiggja atvinnuleysisbætur verið án vinnu í meira en tólf mánuði. Undir 10% höfðu verið atvinnulausir lengur en átján mánuði og aðeins 2–3% lengur en tvö ár. Þetta sýnir að þótt langtímaatvinnuleysi sé til staðar er það takmarkað í umfangi. 

Svipað hlutfall langtímaatvinnulausra meðal erlendra ríkisborgara og Íslendinga 

Hlutfall erlendra ríkisborgara meðal atvinnulausra hefur aukist á síðustu árum. Í ágúst 2025 voru 56% atvinnulausra með erlent ríkisfang. Vinnumálastofnun áætlar að atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara hafi verið 7,4%, en aðeins 2% meðal Íslendinga. Ef samsetning langtímaatvinnulausra er skoðuð nánar kemur þó í ljós að tíðni langtímaatvinnuleysis er svipuð hjá báðum hópum. Af atvinnulausum Íslendingum hafði 18,6% verið án vinnu í meira en ár, en 20,8% hjá erlendum ríkisborgurum. Munurinn er einnig lítill þegar horft er til þeirra sem hafa verið atvinnulausir í meira en tvö ár.  

Mynd 5 Hlutfall langtímaatvinnulausra eftir bakgrunni, ágúst 2025 

Heimild: Vinnumálastofnun 

Langtímaatvinnulausir endurspegla samsetningu atvinnulausra almennt 

Í skýrslu ASÍ frá árinu 2021 var bent á að hlutur háskólamenntaðra á atvinnuleysisskrá hefði aukist áratuginn á undan, úr 15% árið 2010 í 26% árið 2020. Sama þróun sást meðal langtímaatvinnulausra. Þetta endurspeglar bæði aukið menntunarstig þjóðarinnar og að færni fólks samræmist ekki alltaf eftirspurn vinnumarkaðarins. 

Í nýjustu tölum hefur samsetning atvinnulausra eftir menntun haldist svipuð. Hlutfall háskólamenntaðra er enn stærst, á meðan iðnmenntaðir eru hlutfallslega fæstir á atvinnuleysisskrá. Ekki er marktækur munur á samsetningu atvinnulausra og langtímaatvinnulausra eftir menntun, sem bendir til þess að menntunarstig eitt og sér hafi ekki úrslitaáhrif á hversu lengi fólk er án vinnu. 

Mynd 6 Samsetning atvinnulausra eftir menntun, ágúst 2025 

Heimild: Vinnumálastofnun 

Niðurstöður skýrslunnar sýna að atvinnuleysi á Íslandi er lágt í alþjóðlegum samanburði og langtímaatvinnuleysi með minnsta móti. Sveiflur hafa þó verið á undanförnum árum, einkum í kjölfar efnahagshruns og heimsfaraldurs. Þegar litið er til menntunar sést að háskólamenntaðir eru stærsti hópur atvinnulausra. Hlutfall erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá hefur vaxið, en samsetning langtímaatvinnulausra er í meginatriðum svipuð og hjá atvinnulausum almennt. 

Atvinnuleysistryggingum var upphaflega komið á fyrir baráttu verkalýðshreyfingarinnar og þróast með hliðsjón af breytingum á vinnumarkaði og í nánu samráði við aðila hans. Því er mikilvægt að slíkt samráð og greining haldi áfram að vera grunnur að öllum breytingum á kerfinu. Til framtíðar þarf að efla atvinnuleysistryggingakerfið svo það geti áfram tryggt launafólki fjárhagsöryggi við tímabundin atvinnumissi og stutt endurkomu þess til vinnu með virkum vinnumarkaðsúrræðum. 

Tengdar fréttir

  • ASÍ telur líkur á auknu atvinnuleysi

    Vinnumarkaður sýnir merki um kólnun og líkur eru á auknu…

    Ritstjórn

    31. okt 2025

  • Frumvarp um atvinnuleysistryggingar illa ígrundað, gallað og gerræðislegt

    Alþýðusamband Íslands telur að frumvarp um breytingar á lögum um…

    Ritstjórn

    30. okt 2025

  • Hagspá ASÍ 2025 komin út

    Hagspá Alþýðusambands Íslands 2025 hefur nú verið birt. Spáin nær…

    Arnaldur Grétarsson

    30. okt 2025