Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Atvinnuleysi jókst í febrúar

Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands voru um 10 þúsund manns atvinnulausir í febrúar eða 5%. Undanfarið ár hafa að jafnaði mælst 7500 atvinnulausir sem er 3,6% atvinnuleysi. Aukningin í febrúar er nokkur, bæði borið saman við árið á undan og milli mánaða en atvinnuleysi í janúar mældist í ársmeðaltalinu 3,6%. Á síðasta ári fór atvinnuleysi hæst í 6,1% í maí. Tvennt kom til – áföll höfðu dunið á ferðaþjónustu, WOW varð gjaldþrota með tilheyrandi dómínóáhrifum ásamt því að hápunktur árstíðasveiflu atvinnuleysis er í maí, þegar skólaárinu lýkur.

Þó atvinnuleysi hafi aukist í febrúar, áður en efnahagslegra áhrifa Covid-19 fór að gæta, er ljóst að gríðarleg fjölgun verður í hópi atvinnulausra á næstu vikum og mánuðum. Sérstaklega í ferðaþjónustu. Atvinnuleysisaukningin mun þá mælast fyrr en ella þar sem ríkið hefur hlaupið undir bagga með vinnumarkaðsúrræði í formi hlutabóta. Er það gert til að draga úr högginu á rekstur fyrirtækja þar sem innkoma er nú víða mjög takmörkuð, jafnvel engin. Strax í mars mun því verða mikil aukning í skráðu atvinnuleysi Vinnumálastofnunnar, en úrræðið er afturvirkt til 15. mars.

Atvinnuleysi mun vaxa hratt á þessu ári
Seðlabankinn hefur birt sviðsmyndir um mögulega þróun efnahagslífsins í kjölfar útbreiðslu kórónaveirunnar. Sú mildari byggir á þriðjungs fækkun ferðamanna og sú dekkri gerir ráð fyrir helmings fækkun ferðamanna. Áhrif á aðra undirliði birtast m.a. í minni einkaneyslu, sem fellur um 1% í mildari sviðsmynd og 4% í þeirri dekkri. Raungerist spá Seðlabankans verður samdráttur á bilinu 2,5-5% á þessu ári. Mat Seðlabankans er að atvinnuleysi geti orðið á bilinu 5,7-7% á ársgrundvelli eftir því hvor sviðsmyndin sé skoðuð.

Vinnumálastofnun gaf einnig út spá um atvinnuleysi á þessu ári og telur stofnunin að atvinnuleysi geti orðið 10-11% strax í vor. Er í spánni gert ráð fyrir að 19 þúsund sæki um atvinnuleysisbætur vegna minnkaðs starfshlutfalls. Raungerist spá Vinnumálastofnunar er útlit fyrir að atvinnuleysi verði að jafnaði 7,4% á þessu ári.

Author

Tengdar fréttir