Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Bjarg íbúðafélag búið að afhenda 500 íbúðir á tveimur árum

Bjarg íbúðafélag afhenti þann 28. september fimmhundruðustu íbúð félagsins við hátíðlega athöfn.

Bjarg er leigufélag að danskri fyrirmynd sem stofnað var árið 2016 af ASÍ og BSRB og hefur það markmið að tryggja öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði. Félagið var byggt upp frá grunni og sumarið 2019 var fyrsta íbúð Bjargs afhent. Nú tveimur árum síðan er félagið að afhenda til leigu fimmhundruðustu íbúð félagsins sem er að Gæfutjörn í Úlfarsárdal.

Öll verkefni á kostnaðaráætlun og réttum tíma
Drífa Snædal, forseti ASÍ segir einstaklega ánægjulegt að ná þessum árangri á skömmum tíma. „Bjarg hefur haft áhrif á húsnæðisöryggi og húsnæðismarkaðinn í heild sinni og vinnu við uppbyggingu góðs húsnæðis á viðráðanlegum kjörum er hvergi nærri lokið heldur rétt að hefjast,“ segir Drífa.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segist gríðarlega stoltur af kraftinum í Bjargi og það að sjá drauminn um endurreisn verkamannabústaða vera að rætast. „Öruggt leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði er ekki aðeins frábært fyrir íbúa Bjargs heldur hefur góð áhrif á allan húsnæðismarkaðinn. Fimmhundruð íbúðir eru frábær áfangi og engin tilviljun að langstærstur hluti þeirra er í Reykjavík. Ég vonast til að þetta sé aðeins upphafið af áframhaldandi og stórhuga uppbyggingu í góðu samstarfi Bjargs, verkalýðshreyfingarinnar og borgarinnar. Bjarg íbúðafélag hefur farið fram úr okkar björtustu vonum, því öryggi á leigumarkaðnum hefur skort. Margir bíði eftir að komast í öruggt húsnæði í borginni og því er ég stoltur yfir því að fjögur hundruð íbúðir af þessum fimm hundruð sem afhentar hafa verið eru í Reykjavík, og þetta framboð hafi minnkað biðlista eftir húsnæði um helming,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgastjóri Reykjavíkur.

Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs íbúðafélags, segir markmið félagsins að smíða vandaðar og eftirsóknarverðar íbúðir sem eru leigðar á hagstæðu verði. ,,Sett eru skýr markmið um kostnað og gæði íbúða og framleiðsla þeirra unnið samkvæmt aðferðafræði sem felur í sér nána samvinnu Bjargs, hönnuða og verktaka sem saman leita leiða til að lækka kostnað og stytta verktíma. Ekki er lagt af stað í framkvæmdir nema búið sé að gera fastverðssamning við verktaka og með samvinnu aðila hefur tekist að halda öllum verkefnum á kostnaðaráætlun og íbúðir verið afhentar leigutökum á réttum tíma,“ segir hann.

Óhagnaðardrifið leigufélag
,,Bjarg íbúðarfélag starfar án hagnaðarsjónamiða þar sem leiguverð endurspeglar raunkostnað við rekstur fasteigna. Breytingar á rekstrarkostnaði, opinberum gjöldum og fjármagnskostnaði hafa bein áhrif á leiguverð sem tekur breytingum í samræmi við þróun kostnaðar. Bjarg hefur nú þegar lækkað leigu í kjölfar endurfjármögnunar sl. sumar og er dæmigert leiguverð fyrir 3ja herbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu um 155þúsund og í Þorlákshöfn er sambærileg íbúð á um 125 þúsund,“ segir Björn.

Mikil eftirspurn er eftir íbúðum félagsins og stefnir félagið að áframhaldandi uppbyggingu þar til jafnvægi næst að sögn Björns. ,,Til þess að af því verði þarf áframhaldandi stuðning við almenna íbúðakerfið ásamt stöðugu lóðaframboði.“

Íbúðir Bjargs í leigu, í byggingu eða á hönnunarstigi eru staðsettar í Grafarvogi, Kirkjusandi, Árbæ, Vogahverfi, Úlfarsárdal, Bryggjuhverfi, Selási, Skerjafirði, Breiðholti og Háaleitisbraut í Reykjavík. Þá er félagið einnig með íbúðir í Hamranesi í Hafnarfirði, Urriðaholti í Garðabæ, á Akureyri, Selfossi, Akranesi, Þorlákshöfn, Hveragerði, Grindavík og Suðurnesjabæ.

Myndatexti:
Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs íbúðafélags, afhenti Hjördísi Björk Þrastardóttur, lyklana að fimmhundruðustu íbúð Bjargs að Gæfutjörn í Úlfarsárdal í dag. Með þeim á myndinni eru Sonja Þorbergsdóttir, formaður BSRB og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri

Author

Tengdar fréttir