Starfsdagar eftirlitsfulltrúa Alþýðusambands Íslands og stéttarfélaganna fóru fram í Helsinki dagana 21.–23. október 2025. Markmið ferðarinnar var efla þekkingu og hæfni í vinnustaðaeftirliti og jafnframt að kynnast eftirlitskerfinu þar í landi og læra af reynslu nágrannalanda.
Alls tóku 19 eftirlitsfulltrúar frá 12 félögum þátt í starfsdögunum. Dagskráin var fjölbreytt og samanstóð af kynningum, fræðslu og vettvangsferðum. Meðal viðkomustaða voru SAK, systursamtök ASÍ í Finnlandi, HEUNI – Evrópska rannsóknarstofnunin um forvarnir gegn glæpum, vinnueftirlit Finnlands (AVI) og þjónustumiðstöðin RIKU, sem styður þolendur mansals og misneytingar. Í heimsóknum og fyrirlestrum var fjallað um eftirlit sem mikilvægt tól í baráttunni gegn kjarabrotum og aðferðir til að greina og bregðast við misneytingu á vinnumarkaði. Þátttakendur fengu jafnframt þjálfun í viðtalstækni og aðferðum til að byggja upp traust og öryggi í samskiptum við launafólk í erfiðum aðstæðum.
Ferðin leiddi í ljós að eftirlitskerfið í Finnlandi er að mörgu leyti sambærilegt því íslenska að undanskilinni sérstöðu Íslands sem felst í því að verkalýðshreyfingin hefur eftirlitsheimildir. Finnska kerfið byggir jafnframt á meiri sérhæfingu og nánara samstarfi milli stofnana, sérstaklega í mansals- og misneytingarmálum sem unnin eru með samþættri nálgun, þar sem lögð er áhersla á velferð einstaklinga og skilvirkt samspil lögreglu, eftirlits og félagslegra úrræða.





