Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Endurtekin aðför sjálfstæðismanna

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hefur á ný veitt umsögn um frumvarp þingmanna Sjálfstæðisflokksins til laga um félagafrelsi á vinnumarkaði. Í umsögninni er ítrekuð sú afstaða Alþýðusambandsins að frumvarpið feli í sér aðför að íslenska vinnumarkaðslíkaninu og þar með að samtakamætti og stöðu verkalýðsfélaga í þeim tilgangi að styrkja stöðu atvinnurekenda á kostnað launafólks. Þá er vakin athygli á að þingmál þetta geti spillt fyrir komandi kjarasamningum.

Umsögnin sem er mjög ítarleg er efnislega óbreytt frá þeirri sem ASÍ sendi frá sér er þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðu málið fyrst fram á síðasta þingi. Í inngangi nýju umsagnarinnar er þingmálið hins vegar sett í samhengi þeirra aðstæðna sem nú ríkja í íslensku efnahagslífi og endurnýjunar nánast allra kjarasamninga á næstu mánuðum.

Andstæð stjórnarskrá og sáttmálum

Í umsögninni segir að frumvarpið varði kjarnann í íslenska vinnumarkaðslíkaninu og sé fallið til að skerða grundvallarréttindi launafólks og verkalýðshreyfingarinnar í landinu. Tilgangurinn sé enda sá að veikja samtakamátt og stöðu verkalýðsfélaga og verkfallsréttinn. Frumvarpið feli einnig í sér veruleg inngrip í gildandi kjarasamninga. „Slík inngrip eru andstæð stjórnarskrárvörðum rétti frjálsra stéttarfélaga og eru andstæð alþjóðlegum mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur verið stoltur aðili að um áratugaskeið,“ segir í umsögninni.

Íslenska vinnumarkaðslíkanið hafi þróast í sátt til þess að henta því litla samfélagi sem Ísland er, dreifðum byggðum landsins og íslensku hagkerfi. Árangur þess og virkni sé óumdeild, ekki síst við efnahagslegar aðstæður eins og nú ríkja í aðdraganda endurnýjunar kjarasamninga.

Án samráðs og kynningar

Allt frá setningu laga um stéttarfélög og vinnudeilur árið 1938 hafi verið leitast við að tryggja einlægt samráð við alla hagsmunaaðila. Setning laganna hafi verið mikið gæfuspor fyrir íslenska alþýðu og vinnumarkað. Við breytingar á lögunum hafi jafnan verið mikið samráð og áhrif hagsmunaaðila verið tryggð.

Nú bregði svo við að ákveðið hafi verið annað verklag í skjóli ríkisstjórnar Íslands. Málinu sé hleypt á dagskrá Alþingis,  örfáum dögum áður en kjarasamningar á almennum vinnumarkaði renna út, eftir að viðræður eru hafnar um framlengingu þeirra og án samráðs, kynningar eða viðvörunar.

Skertur trúverðugleiki stjórnvalda

„Vegna efnis frumvarpsins, tímasetningar og málshraða verður ekki litið öðru vísi á, en að taka þess til efnismeðferðar á Alþingi sé gerð með fullu samþykki allra ríkisstjórnarflokkanna, hver svo sem afstaða einstakra þingmanna kann að vera til efnis þess. Það gefur því augaleið að þingmál þetta mun geta haft veruleg áhrif á viðræður samningsaðila, tefja niðurstöður, stuðla að harðari vinnudeilum og skerða alvarlega trúverðugleika stjórnvalda í aðkomu þeirra að þríhliða viðræðum þeirra, verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda,“ segir í umsögninni.

Umsögn um frumvarp þingmanna Sjálfstæðisflokksins má nálgast hér.

Author

Tengdar fréttir