Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Evrópsk verkalýðsfélög krefjast tímabundins uppsagnabanns

Milljónir starfa hafa tapast – Varað við samfélagslegum hörmungum – Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins heitir aðgerðum

Evrópusamband verkalýðsfélaga (ETUC) krefst þess að lagt verði tímabundið bann við uppsögnum til að koma í veg fyrir að meiriháttar samfélagslegar hörmungar ríði yfir í álfunni.

Evrópsk verkalýðsfélög komu saman í Brussel í þessari viku til fundar á vettvangi framkvæmdastjórnar ETUC. Helst umræðuefnið var hvernig verja megi og skapa gæðastörf. Á fundinum tóku til máls Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB), og Antonio Costa, forseti Evrópuráðsins.

Milljónir starfa tapast

Krafa um uppsagnabann kemur í kjölfar bylgju uppsagna í mörgum lykilgeirum atvinnulífsins allt frá bílaiðnaði til bankaþjónustu. Milli 2008 og 2023 fækkaði störfum í framleiðslu um 2,3 milljónir í ríkjum ESB. Þar af hvarf nær ein milljón starfa frá 2019 til 2023.

Skammtímasamningar og stytting vinnutíma gera að verkum að umfang kreppunnar er mun meira en þessar tölur gefa til kynna. Vera kann að allt að 4,3 milljónir starfa hafi tapast.

ETUC telur ástandið til marks um brýna þörf fyrir evrópska atvinnustefnu með tilheyrandi fjárfestingum og tilskipun frá Evrópusambandinu sem tryggi réttlát umskipti fyrir starfsmenn vegna umbreytingar í grænt og stafrænt hagkerfi.

FyrirtækiLandFjöldi starfa í hættu
ThyssenkruppÞýskaland11.000
VolkswagenÞýskaland10.000
MileeFrakkland10.000
ArcelorMittalBelgía5.600
Siemens GamesaEvrópa4.100
FordEvrópa4.000
AudiBelgía3.000
Auchan verslunFrakkland2.400
KlarnaSvíþjóð & Bretland2.000
NorthvoltSvíþjóð1.600
Vauxhall (Stellantis)Bretland1.100

Framkvæmdastjórin heitir aðgerðum

Ný framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lofað að leggja fram atvinnustefnu á fyrstu 100 starfsdögum sínum og Ursula von der Leyen, hefur heitið því að auka fjárfestingar.  Í hoinum pólitísku viðmiðum framkvæmdastjórnarinnar er að finna skuldbindingu þess efnis að tryggð verði „réttlát umskipti fyrir alla“.

Þrátt fyrir þessi loforð eru uppi efasemdir um að fjárfestingar hins opinbera og einkageirans í ríkjum ESB muni nægja sem viðbrögð við þeim áskorunum sem verkafólk í álfunni stendur frammi fyrir.

Því telur ETUC nauðsynlegt að sett verði tímabundið bann við uppsögnum til að tryggja að Evrópa komist út úr þessu kreppuástandi án þess að gæði vinnuaflsins og framleiðslugeta fyrirtækja verði fyrir þungum höggum.

Vísað er til aðgerða sem gripið var til á meðan COVID-19 heimsfaraldurinn geisaði. Þýskaland, Frakkland og Ítalía voru þá á meðal þeirra evrópsku ríkja sem lögðu tímabundið bann við uppsögnum.

Enginn verði skilinn eftir

Framkvæmdastjóri ETUC, Esther Lynch, sagði af þessu tilefni:

„Evrópu er nú að blæða út hvað gæðastörf varðar vegna þess að við höfum ekki gripið til nauðsynlegra ráðstafana til að styðja fyrirtækin okkar og starfsfólk þannig að þau verði áfram samkeppnishæf.

Þetta er ekki óumflýjanlegt. Vel mótuð atvinnustefna, studd auknum fjárfestingum, getur aflétt þessari kreppu og tilskipun um réttlát umskipti myndi tryggja að enginn starfsmaður verði skilinn eftir.

Framkvæmdastjórnin hefur skuldbundið sig til að hrinda þessum aðgerðum í framkvæmd og stjórnendur fyrirtækja ættu að bíða þar til þær liggja fyrir áður en þeir taka ákvarðanir til framtíðar.“

Author

Tengdar fréttir