Frumvarp um atvinnuleysistryggingar illa ígrundað, gallað og gerræðislegt

Höfundur

Ritstjórn

Alþýðusamband Íslands telur að frumvarp um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar sé svo illa ígrundað,  gallað og gerræðislegt að ekki sé um annað að ræða en að stjórnvöld dragi það til baka. Að auki sé óboðlegt með öllu að ríkisstjórnin hyggist ná fram sex milljarða króna sparnaði með því að skerða afkomutryggingu launafólks sem missir atvinnuna.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í ítarlegri umsögn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um vinnumarkaðsaðgerðir. Frumvarpið kveður á um að bótatímabil verði stytti úr 30 mánuðum í 18 mánuði og að ávinnslutími réttinda lengist úr þremur mánuðum í 12 mánuði.

Líkur á þveröfugri niðurstöðu

Í umsögninni vekur ASÍ athygli á að þessum áformum ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur  fylgi engar greiningarsem rökstyðji breytingarnar eða mat á áhrifum þeirra á önnur kerfi. Því sé með öllu óljóst hverjar afleiðingar breytinganna verði og hvort þær leiði í reynd til þeirrar hagræðingar sem að sé stefnt. Þvert á móti séu líkur á að skert réttindi í atvinnuleysistryggingakerfinu leiði til þess að fólk færist yfir í önnur afkomutryggingakerfi t.a.m. fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og örorkulífeyriskerfið með tilheyrandi rofi á tengslum við vinnumarkaðinn og vinnumarkaðsúrræði Vinnumálastofunnar.

Lenging á ávinnslutíma tryggingarverndar í 12 mánuði muni einkum bitna á hópum sem starfi í sveiflukenndum atvinnugreinum, ungu fólki sem sé að fóta sig á vinnumarkaði og þeim sem útsettir séu fyrir brotum á vinnumarkaði sem muni síður geta losað sig úr óviðunandi aðstæðum vegna skorts á afkomutryggingu.

Lítill stuðningur, illa fjármagnaðar aðgerðir

Vikið er að vinnumarkaðsaðgerðum hér á landi sem sagðar eru illa fjármagnaðar og fela í sér lítinn stuðning við atvinnuleitendur. Í frumvarpsdrögunum sé að finna heldur vandræðalegar og samhengislausar tilraunir til að rökstyðja þau áform stjórnvalda að draga úr kostnaði með því að skerða einhliða réttindi launafólks.  Þetta sé gert með illa ígrunduðum samanburði við bótatímabil atvinnuleitenda hjá nágrannaþjóðum Íslendinga. Heildstæður samanburður á réttindum og afkomuöryggi launafólks á Norðurlöndunum leiði alls ekki til þess að réttlæta megi niðurskurðaráform ríkisstjórnarinnar með tilliti til þeirra kerfa sem viðgangist þar.

Í umsögninni segir:

 „Alþýðusamband Íslands leggst eindregið gegn fyrirhuguðum breytingum. Verði þær að lögum munu þær veikja tryggingavernd við atvinnumissi, vinna gegn virkni á vinnumarkaði og auka líkur á að brothættir hópar falli brott af vinnumarkaði. Áformin verða enn áleitnari í ljósi þess að blikur eru nú á lofti í efnahagslífi og horfur á versnandi atvinnuástandi.“

Óásættanleg framganga félagsmálaráðherra

Ítarlega er fjallað um aðdraganda málsins og þau vinnubrögð sem viðhöfð hafi verið við gerð þess. Alþýðusambandið segir framgöngu félagsmálaráðherra með öllu óásættanlega þar sem höfð sé að engu áratuga venja á íslenskum vinnumarkaði um þríhliða samtal aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda í málum er varða vinnumarkaðinn og réttindi launafólks. Málið sé verulega vanreifað og engar greiningar liggi fyrir sem styðji nauðsyn þeirra eða leggi mat á áhrif breytinganna á einstaklinga, einstaka atvinnugreinar, önnur afkomutryggingakerfi eða efnahagslífið í heild til skemmri og lengri tíma.

Rifjað er upp að árið 2021 hafi þáverandi  félagsmálaráðherra skipað starfshóp sem fengið hafi það hlutverk að endurskoða lög um atvinnuleysisbætur. Fulltrúar launafólks, atvinnurekenda og stjórnvalda hafi tekið þátt í þeirri vinnu. Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hafi nú ákveðið að hafa það starf að engu með einhliða og gerræðislegum ákvörðunum. 

Frumvarpið verði dregið til baka

Þá segir í umsögn ASÍ:

„Krafa ASÍ er einföld. Að frumvarp þetta verði dregið til baka og nefnd stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um heildarendurskoðun atvinnuleysistrygginga verði kölluð saman að nýju. Nefndinni verði falið að ljúka verki sínu og leggja fram heildstæðar tillögur um breytingar á atvinuleysistryggingakerfinu sem geti orðið grundvöllur lagabreytinga. Þannig sýni stjórnvöld í verki að þau haldi í heiðri leikreglur vinnumarkaðarins um þríhliða samstarf aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda í málefnum sem varða grundvallarréttindi launafólks.“

Umsögnina ASÍ í heild sinni má lesa hér

Tengdar fréttir

  • ASÍ telur líkur á auknu atvinnuleysi

    Vinnumarkaður sýnir merki um kólnun og líkur eru á auknu…

    Ritstjórn

    31. okt 2025

  • Hagspá ASÍ 2025 komin út

    Hagspá Alþýðusambands Íslands 2025 hefur nú verið birt. Spáin nær…

    Arnaldur Grétarsson

    30. okt 2025

  • Íslenskur vinnumarkaður 2025

    Íslenskur vinnumarkaður 2025 - skýrsla Alþýðusambands Íslands um vinnumarkaðsmál er…

    Ritstjórn

    21. okt 2025