Fyrirtæki axli ábyrgð á verðstöðugleika

Höfundur

Ritstjórn

Meginmarkmiðið með ábyrgum kjarasamningum verkafólks og verslunarmanna er að hækka lægstu laun og skapa forsendur fyrir lágri verðbólgu og lækkun vaxta, fyrirtækjum og heimilum til hagsbóta. Það voru því mikil vonbrigði þegar stórfyrirtæki eins og Ísam tilkynnti á dögunum að til stæði að hækka verð á vörum fyrirtækisins í kjölfar undirritunar kjarasamninga. Með slíkum yfirlýsingum sýna forsvarsmenn fyrirtækisins mikið ábyrgðarleysi og vinna markvisst gegn markmiðum samninganna. Við það verður ekki unað.

Launafólk og atvinnulíf eiga mikið undir því að forsendur samninga um aukin kaupmátt og lækkun vaxta á komandi misserum gangi eftir. Launafólk hefur axlað ábyrgð á stöðugleikanum og samþykkt nýgerða kjarasamninga. Nú er komið að atvinnulífinu að leggja sitt að mörkum til þess að forsendur samninganna gangi eftir.

Til að fylgja því eftir mun verðlagseftirlit ASÍ fylgjast náið með verðbreytingum á markaði og upplýsa neytendur um þær. Verðlagseftirlitið hvetur fyrirtæki og opinbera aðila til að axla ábyrgð, halda aftur af verðhækkunum og treysta þannig forsendur fyrir lágri verðbólgu og vaxtalækkun. Verðlagseftirlitið skorar einnig á þau fyrirtæki sem hafa þegar ákveðið að hækka verð að draga þær hækkanir til baka. Þá eru neytendur hvattir til að vera á varðbergi gagnvart verðbreytingum og taka upplýstar og ábyrgar ákvarðanir um innkaup sín.

Allar ábendingar og upplýsingar hjálpa okkur að veita gott aðhald og upplýsa neytendur. Neytendur geta sent ábendingar um verðhækkanir inn á Facebooksíðu Verðlagseftirlitsins eða á netfangið verdlagseftirlit@asi.is

Tengdar fréttir

  • ASÍ styrkir Samhjálp um jólin 2025

    Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ, afhenti Samhjálp styrk upp á…

    Ritstjórn

    12. des 2025

  • Útgáfufundur Kjaratölfræðinefndar 27. nóv

    Nýjasta skýrsla Kjaratölfræðinefndar verður kynnt í húsakynnum ríkissáttasemjara fimmtudaginn 27. nóvember…

    Ritstjórn

    27. nóv 2025

  • Eftirlitsfulltrúar í námsferð til Helsinki

    Starfsdagar eftirlitsfulltrúa Alþýðusambands Íslands og stéttarfélaganna fóru fram í Helsinki…

    Kristjana Fenger

    7. nóv 2025