Gallað frumvarp um breytt raforkulög  

Höfundur

Ritstjórn

Frumvarp til laga um um breytingar á raforkulögum og lögum um stjórn vatnamála (flýtimeðferð og breyting á vatnshloti) gengur lengra en þörf er á til að ná þeim markmiðum sem því er ætlað. Að auki hafa vinnubrögð í tengslum við framlagningu frumvarpsins hvorki verið vönduð né lýðræðisleg auk þess sem áformaðar breytingar styðja ekki við faglegt mat á virkjanakostum.  

Þetta eru helstu niðurstöður umsagnar Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um ofangreint frumvarp. 

Í umsögninni segir að ljóst sé að stjórnvöld þurfi að bregðast við þeim aðstæðum sem komið hafa upp í kjölfar nýlegs dóms þar sem framkvæmdaleyfi Hvammsvirkjunar var fellt úr gildi. Alþýðusamband Íslands telji mikilvægt að orkuöflun og nýting þjóni almannahagsmunum, styðji við raforkuöryggi, verðmæta- og atvinnusköpun, velferð og bætt kjör almennings.  

Varhugaverð breyting 

Það sé mat Alþýðusambandsins að bregðast þurfi við því ef formgalli á lögum kemur í veg fyrir að hægt sé að gera breytingar á vatnshloti vegna virkjana. ASÍ telji  þó varhugavert að ráðast eigi í jafn umfangsmiklar og almennar breytingar á lagaumgjörð um ákvarðanatöku, greiningu og mat á hvaða hagsmunir vega þyngst fyrir almannaheill við nýtingu á orkuauðlindum allra landsmanna, án undangengins samráðs og samfélagslegrar umræðu. 

„Alþýðusamband Íslands leggur áherslu á að ákvarðanir um virkjanir og orkunýtingu séu byggðar á faglegu á faglegu mati og að sjálfbær þróun og hagsmunir komandi kynslóða liggi til grundvallar við nýtingu auðlinda. Breytingar á löggjöf sem varða það ferli sem mat og ákvarðanataka um orku- og auðlindanýtingu byggir á, þurfa að vera gerðar að undangengnu samráði og opinni umræðu byggðri á vísindalegum staðreyndum og faglegu mati þar sem gagnsæi ríkir um þær forsendur sem liggja að baki.  

Að mati Alþýðusambands Íslands uppfyllir framlagning þessa frumvarps, eða efni þess, ekki þessi skilyrði, “ segir m.a. í umsögninni.  

Umsagnarfrestur aðeins ein vika 

Alþýðusambandið  gagnrýnir einnig að umsagnarfrestur sé styttur úr fjórum vikum niður í eina. Með því sé gengið á möguleika almennings til þátttöku í ákvarðanatöku um umhverfismál og aðgang að réttlátri málsmeðferð. Ljóst sé að með því að stytta umsagnarrétt, sem fyrir var ekki langur, verði aðstöðumunur þeirra sem vilja láta sig málin varða aukinn verulega. Þannig muni halla enn frekar á almenning þegar kemur að lýðræðislegri þátttöku, sem standi nú þegar höllum fæti, samanborið við aðra aðila sem hafi meiri styrk og bolmagn til að hafa áhrif á ákvarðanatöku. 

Gjaldfelldir „almannahagsmunir” 

Í umsögninni er einnig gagnrýnd notkun á hugtakinu „almannahagsmunir” í frumvarpinu og því haldið fram að óhóflega rúm skilgreining fái ekki staðist og feli í sér „gjaldfellingu” þess.  Þá feli frumvarpið í sér eðlisbreytingu á ferli rammaáætlunar og Alþýðusambandið fái ekki séð að boðaðar breytingar séu fallnar til að styðja við það faglega ferli sem nauðsynlegt sé til að tryggja almannahagsmuni við vernd og orkunýtingu. 

Umsögnina í heild má nálgast hér.  

Tengdar fréttir

  • Norska alþýðusambandið kemur Úkraínu og Palestínu til hjálpar

    Norska Alþýðusambandið (LO) hefur tekið við því starfi að styðja…

    Ritstjórn

    8. apr 2025

  • Vilji til að rjúfa kyrrstöðu í húsnæðiskreppunni

    Fyrir verkalýðshreyfinguna sem sterkasta afl breytinga og framfara í landinu…

    Finnbjörn A. Hermannsson Hermannsson

    28. mar 2025

  • Engar tryggingar í frumvarpi um verð á raforku til almennings

    Stjórnvöld taki ekki tillit til sérstöðu raforkumála á Íslandi Alþýðusamband…

    Ritstjórn

    26. mar 2025