Grá svæði sem eru alls ekki svo grá

Höfundur

Guðrún Margrét Guðmundsdóttir

Vinnustofa Söru Hassan um valdníðslu og kynbundna áreitni

Um miðjan maí sl. stóðu heildarsamtök launafólks; Alþýðusamband Íslands, BSRB, BHM og KÍ, í samstarfi við VIRK starfsendurhæfingarsjóð, fyrir öflugri og fjölmennri vinnustofu á Hilton Reykjavík Nordica fyrir starfsmenn sína. Vinnustofunni stjórnaði Sara Hassan, rithöfundur, fyrirlesari og sérfræðingur í valdníðslu og kynbundinni áreitni og einn höfunda handbókarinnar It’s Not That Grey. Handbókin snýr að því að afbyggja hin svokölluðu „gráu svæði“ valdníðslu og kynbundinnar áreitni í vinnutengdu samhengi þar sem vandinn er í raun kerfislægur og auðgreinanlegur ef fólk fær réttu tólin í hendurnar. 

Meginverkfæri handbókarinnar kallast The Red flag system sem er gagnlegt greiningartæki sem kennir þátttakendum að bera kennsl á fyrstu merki valdníðslu og kynbundinnar  áreitni, bæði sem þolendur og vitni. Flöggin geta falist í því sem virðist smávægilegt í fyrstu: síendurtekið hrós, skýr mismunun, óljós mörk eða einangrun. En þegar þessi hegðun birtist í samhengi við vald, ósjálfráð samþykki eða ójafnvægi í aðstæðum, verður hún að skýrum viðvörunum, m.ö.o. hið ósýnilega afhjúpast! 

Á vinnustofunni var kafað djúpt í hvernig vafasöm hegðun þrífst innan vinnustaða og í samfélaginu almennt. Sara útskýrði hvernig fjórar víddir spila saman: aðferðir gerenda, eitrað umhverfi sem gerir áreitnina mögulega, viðbrögð vitna og sjálfsefi þolenda. Þessar víddir skapa oft þann rugling sem kallað er „gráu svæðin“ – en er í raun skýr birtingarmynd ójafnra valdatengsla. 

Í fyrirlestrinum um gráu svæðin var einnig fjallað um hvernig samfélagslegar hugmyndir og rangfærslur, sbr. það að áreitni sé misskilin daðurshegðun, hindra okkur í að viðurkenna og bregðast við áreitni. Starfsmenn verkalýðshreyfingarinnar og VIRK fengu tækifæri til að greina raunveruleg dæmi, æfa sig í að þekkja viðvörunarmerki og ræða úrræði í hópum. Látið var afar vel af vinnustofunni og fjörugar umræður sköpuðust.  

Markmið vinnustofunnar var að styrkja starfsmenn heildarsamtakanna og VIRK að nema rauðu flöggin snemma, af yfirvegun og ábyrgð, áður en ástandið versnar. Með aukinni þekkingu og þjálfun á rauðu flöggunum geta þeir sinnt og leiðbeint betur félagsmönnum og skjólstæðingum sínum sem lent hafa í valdníðslu eða kynbundinni áreitni í vinnutengdu samhengi. Stefnt er að því að fá Söru Hassan aftur til landsins á næsta ári til að halda framhaldsnámskeið, þjálfa enn betur starfsmennina og gera vinnumarkaðinn að öruggum stað fyrir alla.  

Fyrir áhugasama 

Hér má hlusta á upphafsfyrirlestur Söru Hassan, þar sem hún fer yfir nýstárlega nálgun til að greina merki valdníðslu á vinnustöðum:

Tengdar fréttir

  • Laun kvenna og karla í ASÍ og BSRB árið 2024

    Á Kvennaári 2025 hafa á sjötta tug samtaka sameinast um…

    Steinunn Bragadóttir

    30. jún 2025

  • KVENNAVAKA – Stórtónleikar Kvennaárs 2025

    Kvennaár býður konum og kvárum til Kvennavöku í Hljómskálagarði að…

    Ritstjórn

    18. jún 2025

    Kvennavaka 2025
  • 19. júní 2025 á Selfossi

    Báran, stéttarfélag og Foss, stéttarfélag í almannaþjónustu bjóða í bíó…

    Ritstjórn

    18. jún 2025