Grunntímakaup verkafólks í Eflingu og félögum SGS hækkaði mest

Höfundur

Ritstjórn

Grunntímakaup hjá verkafólki sem eru félagsmenn í Eflingu og aðildarfélögum SGS hækkaði um 5,9% frá febrúar til júlímánaðar. Hækkunin var talsvert umfram hækkun grunntímakaups á vinnumarkaðinum öllum. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu Kjaratölfræðinefndar sem kynnt var í dag, miðvikudaginn 13. nóvember.

Frá febrúar til júlí 2024 hækkaði grunntímakaup í heildina um 4,3% á vinnumarkaðnum öllum. Grunntímakaup hjá verslunar- og skrifstofufólki (VR/LÍV) hækkaði um 4,8% og hjá iðn- og tæknifólki um 5,2% en kjarasamningar þessara hópa kváðu á um 3,25% – 3,5% almennar launahækkanir en þó að lágmarki 23.750 kr.

Í skýrslunni segir að launahækkun verkafólks í Eflingu og aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins endurspegli áherslu kjarasamninga sem gerðir voru í febrúar í ár á hækkun lægstu launa.  Áhersla á krónutöluhækkanir í kjarasamningum á undanförnum árum hafi skilað hlutfallslega mestri hækkun lægstu launa og leitt til þess að munur á hæstu og lægstu launum á vinnumarkaðnum hefur dregist saman.  Tíundastuðull sem eru hlutfall milli launa við efstu og neðstu tíundamörkin hafi lækkað markvert á almennum og enn meira á opinberum vinnumarkaði á undanförnum fimm árum.

Samið við 80-90% launafólks

Fram kemur að langtímakjarasamningar hafi verið undirritaðir fyrir 80-90% launafólks á vinnumarkaði í þessari samningalotu sem hófst í febrúar á þessu ári. Samningum sé lokið fyrir allflest launafólk á almennum markaði. Á opinbera markaðnum er samningum lokið við flest félög innan Alþýðusambands Íslands og BSRB og hluta félagsmanna BHM.

Ósamið er við ríflega helming launafólks innan BHM, öll aðildarfélög Kennarasambands Íslands sem og lækna og hjúkrunarfræðinga sem standa utan heildarsamtaka. Áætla má að í heildina sé ósamið við um 40% opinbera markaðarins eða um 24 þúsund manns

Miðgildi launa hæst hjá ríkinu

Samkvæmt skýrslu Kjaratölfræðinefndar voru regluleg laun allra fullvinnandi á vinnumarkaði að meðaltali 821.000 kr. í maí 2024. Meðallaun voru hæst á almenna vinnumarkaðnum hvort sem litið er til grunnlauna, reglulegra launa eða reglulegra heildarlauna. Miðgildi reglulegra launa allra á vinnumarkaði var 735.000 kr. í maí 2024 en miðgildi launa var hæst hjá ríkinu á alla fyrrgreinda mælikvarða.

Fullt starf 36 tíma vinnuvika

Í skýrslunni er einnig fjallað um styttingu vinnuviku í kjarasamningum á opinberum markaði. Á samningstímanum, frá 2020 til 2023, hafi farið fram mikil vinna við að innleiða og fylgja eftir styttingu vinnuviku.  Í aðdraganda nýrrar samningalotu í upphafi þessa árs hafi verið samið um að gera breytingarnar varanlegar með breytingum á kjarasamningum frá 1. nóvember 2024 og sé því vinnuvika starfsfólks í fullu starfi á opinberum vinnumarkaði nú 36 virkar vinnustundir, í stað 40 stunda áður.

Ekki er í skýrslunni fjallað um styttingu vinnuviku á hinum almenna vinnumarkaði.


 

Tengdar fréttir

  • Umtalsverð lækkun verðbólgu frá gerð kjarasamninga 

    Verðbólga mældist 3,8% í mars en vísitala neysluverðs hækkaði um…

    Ritstjórn

    28. mar 2025

  • Kauptaxtaauki tekur gildi 1. apríl

    Forsendunefnd kjarasamninga hefur úrskurðað að kauptaxtaauki virkjast frá og með…

    Ritstjórn

    21. mar 2025

  • Óásættanleg framkoma í garð trúnaðarmanna í ræstingum

    Í tilefni af sláandi viðtali við trúnaðarmann Eflingar stéttarfélags hjá…

    Ritstjórn

    21. feb 2025