Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Hagsmunavarsla í þágu almennings – setningarræða Finnbjörns A. Hermannssonar, forseta ASÍ

Góðir  þingfulltrúar, ágætu gestir.

Ég býð ykkur velkomin á 46. þing Alþýðusambands Íslands.

Það er mér sönn ánægja að bjóða svo marga gesti velkomna en í ár erum við með breytt fyrirkomulag í upphafi þings.

Við höfum kallað til liðs við okkur mikið af kunnáttufólki í þeim málaflokkum sem við ætlum að fjalla sérstaklega um á þinginu. Við væntum mikils af þeim við að kryfja málaflokkana til mergjar og víkka þannig sjóndeildarhring þingfulltrúa og vonandi allra sem á hlýða. 

Við erum að opna þingið fyrir almenningi og við ætlum að ræða  mál sem ráðandi öfl vilja helst ekki að við ræðum.

Við komum hér saman á miklum óvissutímum.

Í Úkraínu og Mið-Austurlöndum geisa hryllileg stríð sem eru ógn við heimsfriðinn og um framhaldið þar getur enginn sagt.

Verkalýðshreyfingin hefur búið við mikla óvissu síðustu misserin einkum í efnahagsmálunum með tilliti til gerðra kjarasamninga.

Nú þegar loksins hillti undir að verðbólga væri á niðurleið og ferli vaxtalækkana að hefjast gefast ráðandi pólitísk öfl upp á verkefninu, slíta stjórnarsamstarfinu og bjóða þjóðinni upp á enn aukna óvissu og í raun allsherjar ringulreið.

Hér hafa ráðamenn eina ferðina enn tekið hagsmuni sína og flokka fram yfir almannahagsmuni með því að hlaupa frá borði í stað þess að sinna þeim verkefnum sem þeim höfðu verið falin.

Þetta var þá „stöðugleikinn“ sem þetta fólk taldi að aldrei yrði tryggður án stjórnvisku þess.

Þetta er ekki ábyrg framkoma gagnvart fólkinu í landinu.

Verkalýðshreyfingin hlýtur að lýsa yfir þungum áhyggjum af forsendum kjarasamninga og hagstjórninni almennt.

Þessi furðulega atburðarás eykur enn mikilvægi þings okkar því hér ræðum við nokkur stærstu úrlausnarefni samfélagsins með tilliti til almannahagsmuna.

Ég legg áherslu á „almannahagsmuni“ sem jafnan eru efst á baugi innan verkalýðshreyfingarinnar.

Sterk hreyfing forsenda framfara

Yfirskrift þingsins er að þessu sinni Sterk hreyfing – sterkt samfélag.

Hvað merkja þessi orð?

Þau vísa til innri styrks verkalýðshreyfingarinnar og þess mikilvæga hlutverks sem hún hefur gegnt við mótun þessa samfélags.

Verkalýðshreyfingin byggir á sterkum grunni undangenginna kynslóða.

Verkalýðsfélögin eru sterkt og áhrifamikið afl framfara í sínum heimabyggðum.

Saman mynda aðildarfélögin sterk landssambönd sem mynda sterkt Alþýðusamband.  

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um öll þau réttindi og kjarabætur sem hreyfingin hefur unnið á undangengnum áratugum.

Engar kjarabætur hafa fengist ókeypis. Ekki lífeyrissjóðir, ekki reglur um vinnutíma, ekki aðbúnaðarlöggjöf og ekki fæðingarorlof.

Og við skulum ekki gleyma sjúkrasjóðum, orlofssjóðum og öllu því menningarstarfi sem verkalýðshreyfingin stendur fyrir. 

Við megum heldur ekki gleyma því að þessi árangur og réttindi geta tapast mun hraðar en tók að ávinna sér þau.  

Innri styrkur hreyfingarinnar hefur mótað samfélagsrammann og er forsenda þess árangurs sem náðst hefur.

Sagan sýnir að verkalýðshreyfingin hefur verið áhrifamesta afl framfara, breytinga og félagslegs réttlætis í sögu þessarar þjóðar.

Þannig hefur innri styrkur og samheldni hugsjónafólks verið kjarninn í uppbyggingu þess velferðarsamfélags sem Íslendingar hafa mótað á undan liðnum áratugum. 

Sterk hreyfing hefur getið af sér sterkt samfélag.

Við megum aldrei missa sjónar á þessu hlutverki hreyfingar okkar. Við megum vera stolt af afrekum hennar og að tilheyra henni.

Um leið og við virðum og gleðjumst yfir þeim árangri sem náðst hefur er mikilvægt að við slökum hvergi á í varðstöðu okkar um þá almannahagsmuni sem liggja siðuðu samfélagi til grundvallar.

Því verkefni lýkur aldrei og við munum einmitt hér á þessu þingi taka til ítarlegrar meðferðar stórmál sem varða sjálfa framtíð þjóðarinnar – hvorki meira né minna. 

Samfélag á krossgötum

Mér sýnast sífellt fleiri gera sér ljóst að samfélag okkar stendur á krossgötum.

Takist almenningi ekki að hrinda sókn sérhagsmuna og fjármagnsafla gegn sjálfri samfélagsgerðinni og megnum við ekki að verjast ásælni þessara sömu afla í þjóðarauðinn munu ríða hér yfir afdrifaríkustu samfélagsbreytingar frá stofnun lýðveldisins.

Já, þrátt fyrir að við búum í landi þar sem náttúruöflin eiga það til að breyta forsendum okkar og áætlunum eru það fyrst og fremst mannanna verk sem við þurfum að hræðast.

Nánar tiltekið verk pólitískra leiðtoga og hagsmunavarða.

Hugleiðum hrun fjármálakerfisins fyrir 16 árum þegar græðgi, siðblinda, vanhæfni og ábyrgðarleysi fór nærri því að kalla efnahagslega gjöreyðingu yfir þjóðina og svipta hana fullveldi sínu.

Þar voru að verki réttnefndir ógnarkraftar mannlegrar heimsku og vitfirringar.

Dettur einhverjum hér í hug að sú þjóðarógæfa geti ekki endurtekið sig?

Nú hafa verið stigin hér markviss skref að hagnaðarvæðingu ellinnar með því að fela einkafyrirtækjum byggingu og rekstur hjúkrunarheimila.

Þessi umskipti hafa verið knúin fram með sífellt verri þjónustu, fjársvelti og biðlistum.

Búin hefur verið til þörf sem einkaframtakinu er síðan falið að leysa.

Þessi breyting á grunni velferðarþjónustunnar er ákveðin án nokkurs lýðræðislegs samráðs við almenning.

Það sama er uppi á teningnum í heilbrigðismálum þjóðarinnar almennt.

Nú er svo komið að stór hluti íbúa á landsbyggðinni getur ekki sótt slíka þjónustu heima í héraði.

Á þjóðinni dynur endalaus áróður um nauðsyn einkavæðingar á sviði orkumála.

Raunar hafa þegar verið stigin mikil ógæfuspor með markaðsvæðingu raforkunnar þar sem fjármagnsöflin eygja ónýtta gróðavon.

Vatnið, bæði það heita og kalda, vindurinn, landið sjálft – allt er þetta undir í þeirri gæslu um almannahagsmuni sem við stöndum frammi fyrir.

Almenningur telur samfélagið á rangri leið

Og talandi um almannahagsmuni – hvað skoðun skyldi fólkið í landinu hafa á þróun samfélagsins?

Ég get upplýst að í þjóðmálakönnun sem ASÍ fékk Gallup til að vinna nú í septembermánuði kváðust 68% telja íslenskt samfélag vera á rangri leið með tilliti til almannahagsmuna.

Já, ég endurtek, 68% – aðeins 14% þátttakenda töldu samfélagið á réttri leið.

Þetta er sláandi niðurstaða.

Hún er ekki síður afgerandi þegar spurt er hvort stjórnvöld hafi staðið sig vel eða illa í að tryggja viðunandi heilbrigðisþjónustu. Þar telja 72% stjórnvöld hafa brugðist samfélaginu.  

Og þegar spurt er hvort nýting auðlinda til orkuframleiðslu eigi að vera í höndum ríkisfyrirtækja eða einkafyrirtækja telja 85% þjóðarinnar að þau eigi að vera alfarið eða að miklu leyti í höndum ríkisfyrirtækja.

Hvernig má það vera að framganga kjörinna fulltrúa almennings sé svo gjörsamlega á skjön við þjóðarviljann?

Hlýtur sú spurning ekki að vakna hagsmuna hverra verið er að gæta?

Við getum síðan velt fyrir okkur tekjuöflun ríkisins. Einungis 25% telja réttláta hlutdeild almennings í þeim arði sem verður til við nýtingu auðlinda.

Á sama tíma birtist okkur forgangsröðun stjórnvalda í fyrirliggjandi frumvarpi til fjárlaga.

Þar verður afkomumarkmiðum náð með því að færa auknar byrðar á viðkvæma hópa fremur en að ráðast í skynsamlegar aðgerðir í tekjuöflun.

Afkomubætandi aðgerðir ríkissjóðs felast m.a. í því að skerða framlag til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða og skerða fjárframlög til VIRK starfsendurhæfingarsjóðs.

Hvernig má það vera að stjórnvöld ákveði einhliða að skerða stórlega lífeyrisréttindi þess fólks sem vinnur erfiðustu störfin og ber minnst úr býtum?  

Reyndar hefur frést að okkur hafi tekist að hrinda áætlun um skerðingu á jöfnunarframlagi ríkisins vegna örorkukostnaðar lífeyrissjóða. Þetta gildir hins vegar aðeins um þetta ár og þessi fjárlög. Okkar bíður síðan það verkefni að semja við næstu ríkisstjórn um framtíðarskipan þessara mála.

Vandinn er að viðkvæðið er jafnan það sama – við eigum að borga. Sífelld tilfærsla á peningum er reglan en krafan er sú að auknir fjármunir verði lagðir í málaflokkinn.

Já, nú sem fyrr koma kerfisbreytingar ekki til greina.

Til dæmis að útgerðin greiði eðlilegt gjald af auðlindarentu eða auðugt fólk borgi hærri skatta af fjármagnstekjum og hætti tekjutilflutningi.

Er þessi framganga stjórnmálanna siðleg og þjóðinni bjóðandi?

Er að undra að sífellt fleiri tali um feyskna innviði, ónýta vegi, neyðarástand í húsnæðismálum og hnignun grunnkerfa í heilbrigðri þjóðarinnar og menntun?

Meira að segja réttarvörslukerfið er á fallanda fæti – biðlistarnir í fangelsin eru slíkir að tugir óskilorðsbundinna dóma hafa fyrnst hér á undanförnum árum.

Stöldrum við þetta; ríkisvaldið ræður ekki við fullnustu refsinga.

Hvert erum við komin þegar dæmdir brotamenn komast hjá því að taka afleiðingum gjörða sinna?

Hvaða skilaboð er þarna að finna til fólksins í landinu?

Samt höfum við aldrei verið fleiri og tekjur ríkis og sveitarfélaga hafa aldrei verið jafn miklar.

Og þrátt fyrir þessar miklu tekjur eru grunnkerfin fjársvelt og ráðist er gegn láglaunafólki sem gert er að bera þyngstu byrðarnar.

Á sama tíma og skattkerfið ívilnar fjármagninu og ýtir undir skattasniðgöngu.

Ofsagróði banka er sóttur í vasa almennings.

Meira að segja í loftslagsmálunum tekst að koma fjárhagslegu byrðunum af fyrirtækjunum yfir á almenning sem ber minnsta ábyrgð á vandanum.

Þetta er verk íslensku valdastéttarinnar sem segir launafólk – almenning í landinu – bera ábyrgð á verðbólgu með frekju sinni og ábyrgðarleysi.

Nú síðast eru gjaldfrjálsu máltíðirnar í skólunum sagðar þensluhvetjandi því vegna þeirra muni heimilin hafa örlítið meira á milli handanna.

Þannig talar valdafólkið, sem nýtur sérkjara í öllum efnum, til almennings í landinu.

Þessi málflutningur er fyrir neðan allar hellur.

Launafólk ber ekki ábyrgð á verðbólgunni, húsnæðisvandanum, einokuninni, vaxtaokrinu, verðsamráðinu, þjónustuskortinum og stöðugum hækkunum á nauðsynjavörum.

Almenningi verður ekki kennt um ömurlega stjórn ríkisfjármála.

Þaðan af síður er fólkið í landinu ábyrgt fyrir þeirri skefjalausu misskiptingu auðsins sem við horfum upp á og lýsir sér í allsnægtum útvaldra og eignaleysi hinna mörgu.

Fjársvelti gegn almannahagsmunum

Stjórnvöld beita fjársvelti til að vinna gegn almannahagsmunum.

Samkeppniseftirlitið er ágætt dæmi um það.

Því var þröngvað upp á Íslendinga með EES-sáttmálanum fyrir 30 árum en stjórnmálamenn hafa séð til þess að það geti ekki uppfyllt hlutverk sitt.

Þetta sér og veit almenningur, því til sannindamerkis hef ég fyrrnefnda þjóðmálakönnun ASÍ.

Í henni segja 79% að eftirlit með samkeppni á íslenskum neytendamarkaði sé of lítið.

Einungis 6% telja það of mikið.

Og 60% landsmanna telja núverandi reglur um samkeppni á íslenskum neytendamarkaði gagnast illa til að skapa jákvætt samkeppnisumhverfi.

Já, það er sama hvar niður er borið – almennt og yfirleitt telur fólkið í landinu samfélagið á rangri leið og að sérhagsmunir trompi jafnan almannahagsmuni.

Veiking velferðarkerfa, markaðsvæðing auðlinda

Ágætu þingfulltrúar og gestir.

Það er með vísun til þess sem ég hef nefnt hér að framan sem ég treysti mér til að fullyrða að samfélag okkar standi á krossgötum.

Verði fjármagninu hleypt í hinar auðlindirnar, orkuna, landið, vindinn og vatnið – til viðbótar við fiskinn –  og takist ekki að brjóta á bak aftur sérhagsmunavörslu stjórnmálafólks fyrir auðinn er ekki von á góðu.

Verði einkavæðingu komið á í velferðarþjónustunni munum við sjá afleitar afleiðingar rétt eins og gerst hefur í Bretlandi og Svíþjóð.

Á endanum er hættan sú að veiking velferðarkerfa og markaðsvæðing auðlinda ýti undir samfélagsrof – jafnvel ekki ólíkt því sem við sáum í aðdraganda hrunsins sem ég nefndi hér í upphafi.

Eiginhagsmunir verði ráðandi viðhorf vegna þess að leikreglunum hafi verið kastað fyrir róða með þeim afleiðingum að límið í samfélaginu hverfi.

Þetta sáum við í hruninu og því fer víðs fjarri að samfélagið hafi náð sér eftir það áfall sem spillingin og græðgin olli og aldrei hefur verið gert upp.

Þetta greinum við m.a. í litlu trausti almennings til margra helstu stofnana samfélagsins.

Í kalda stríðinu klofnuðu samfélögin í fylkingar til vinstri og hægri.

Í nútímanum lýsir samfélagsrofið sér í klofningi upp og niður; til verður fámenn og ráðandi eigna- og yfirstétt sem segir sig úr lögum við almenning og kærir sig kollótta um samfélagslega velferð og jöfnuð.

Sífellt stærri hluti samfélagsins er dæmdur til fátæktar og skynjar stöðu sína á þann veg að hann eigi enga möguleika.

Við sjáum vísi að þessu í húsnæðiskreppunni sem framkallar áður óþekktan ójöfnuð í samfélagi okkar og stjórnvöld – ekki síst sveitarfélögin –  hafa reynst ófær um að leysa.

Færist afgangurinn af þjóðarauðnum á hendur fjármálaaflanna verður niðurstaðan upprisa lénskerfisins.

Hagsmunapólitík í þágu almennings

Kæru félagar.

Þetta er saga okkar, hlutverk okkar og ábyrgð.

Verkefnin eru skýr.

Iðulega gerist það þegar verkalýðshreyfingin tjáir sig um þjóðfélagsmál að fullyrt er að hún sé þátttakandi í hinni pólitísku baráttu.

Það er alveg rétt. Hreyfing okkar stundar pólitík en það er ekki pólitík sem bundin er við stjórnmálaflokka eða – leiðtoga.

Okkar pólitíska aðkoma mótast af hagsmunavörslu fyrir fólkið í landinu.

Hún snýst um almenning sem stendur undir öllum kerfunum og á réttmæta kröfu um að stjórnmálin snúist um samfélagið, framtíð þess og velferð borgaranna.

Okkar pólitíska aðkoma beinist gegn sérhagsmunum og skipulagðri viðleitni til að grafa undan þeim samfélagsgildum sem við höfum sameinast um.

Við erum og eigum að vera stolt af þeirri hagsmunabaráttu og ástandið í samfélagi okkar kallar á að við herðum hana hvar sem því verður við komið.

Í þeirri hagsmunabaráttu skulum við jafnan hafa í huga:

Sérhagsmunaöflin og valdastéttin munu alltaf kjósa að eiga við sundraða hópa fólks fremur en sameinað afl.

Samstaða er forsenda fyrir baráttu okkar og án hennar getum við ekki vænst árangurs.

Með sameinaðri hreyfingu vinnum við að öflugu samfélagi.

Ég óska okkur, ágætu þingfulltrúar, góðs gengis í okkar mikilvægu málefna- og stefnumótunarvinnu sem hér fer fram næstu daga.

Vinna ykkar er framlag til lýðræðisins.

Ég segi 46. þing Alþýðusambands Íslands sett.

Þakka ykkur fyrir.

Author

Tengdar fréttir