Haustskýrsla Kjaratölfræðinefndar 2025

Haustskýrsla kjaratölfræðinefndar 2025

Höfundur

Ritstjórn

Kjarasamningar hafa verið undirritaðir fyrir allflest launafólk á íslenskum vinnumarkaði í yfirstandandi kjarasamningslotu sem hófst í febrúar 2024. Í heildina má áætla að gerðir hafi verið nærri 260 kjarasamningar á vettvangi þeirra aðila sem aðild eiga að kjaratölfræðinefnd í núverandi samningalotu og var félagsfólk á kjörskrá stéttarfélaga í þessum samningum um 190.000. Áætla má að í þessari samningalotu sé einungis ólokið rúmlega 20 kjarasamningum á vinnumarkaði fyrir um 3.000 manns, sem er um 1-2% launafólks.

Sundurliðuð gögn kjaratölfræðinefndar um launaþróun eftir mörkuðum liggja fyrir frá upphafi núverandi lotu fram til júní 2025 og er nokkur munur á hækkunum grunntímakaups milli markaða.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu kjaratölfræðinefndar þar sem fjallað er um þróun efnahagsmála og launa, vinnumarkaðsmál og kjarasamninga.

Grunntímakaup á almennum markaði hækkaði um 11,9% á tímabilinu frá febrúar 2024 til júní 2025, hjá ríki um 12,2%, hjá Reykjavíkurborg um 12,9% og hjá sveitarfélögum utan Reykjavíkur um 14,3%. Í þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið í samningalotunni var almennt farin blönduð leið krónutöluhækkana og prósentuhækkana og eru samningsbundnar launahækkanir því hlutfallslega mestar á lægri laun. Samningar KÍ við ríki og sveitarfélög voru þó frábrugðnir öðrum samningum og hækkuðu laun þess hóps meira.

Að teknu tilliti til verðlagsþróunar á tímabilinu jókst kaupmáttur grunntímakaups í júní 2025 um 5,1% frá upphafi samningalotunnar. Á almennum vinnumarkaði var kaupmáttaraukningin á þessu tímabili, þ.e. frá janúar 2024 til júní 2025, 4,9%, hjá ríki um 5,2%, hjá Reykjavíkurborg jókst kaupmáttur um 5,9% og hjá sveitarfélögum utan Reykjavíkur um 7,2%.

Í skýrslu kjaratölfræðinefndar er einnig fjallað um efnahags- og vinnumarkaðsmál. Þar er meðal annars umfjöllun um þróun verðlags, vaxta, opinberra fjármála og framleiðni auk umfjöllunar um þróun vinnumarkaðar.

Árið 2024 hægði á efnahagsumsvifum hér á landi. Landsframleiðsla dróst saman um 1,0% í kjölfar mikils vaxtar árin á undan þegar hagkerfið var að jafna sig eftir áhrif heimsfaraldursins. Í nýrri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands er gert ráð fyrir 1,7% hagvexti í ár en Seðlabanki Íslands spáir 0,9% hagvexti.

Verðbólga hefur verið nokkuð óbreytt frá febrúar og mældist hún 4,3% í október. Húsnæðisliður vísitölunnar, sem tekur nú tillit til reiknaðrar leigu auk greiddrar leigu, hefur hækkað umfram verðbólgu að undanförnu, en minna en áður. Gengi krónunnar hefur styrkst á síðustu misserum en verulegur hluti þeirrar styrkingar þó gengið til baka síðustu vikur.

Dregið hefur úr spennu á vinnumarkaði eftir því sem hægt hefur á efnahagsumsvifum. Starfandi fólki fjölgar nú hægar en áður, dregið hefur lítillega úr fjölda starfandi í ferðaþjónustu og færra fólk með erlendan bakgrunn kemur til landsins. Atvinnuleysi er áfram lágt og atvinnuþátttaka mikil. Lausum störfum hefur fækkað lítilsháttar á þessu ári og færri stjórnendur telja vera skort á starfsfólki. Núna er sambærilegur fjöldi stjórnenda sem sér fram á að fjölga starfsmönnum og þeir sem hyggjast fækka, eða tæp 20%.

Innflytjendum á vinnumarkaði hefur fjölgað hratt undanfarinn áratug. Almennt flyst fólk búferlum til landsins vegna atvinnu og þeir sem hingað koma eru langflestir á vinnualdri. Fjöldi erlendra ríkisborgara sem flytur til landsins sveiflast töluvert eftir efnahags- og atvinnuástandinu hverju sinni og hefur þeim nú fækkað í takt við minni vöxt í efnahagslífinu. Haustskýrslu KTN og fylgigögn má finna á vef kjaratölfræðinefndar, ktn.is

Tengdar fréttir

  • Útgáfufundur Kjaratölfræðinefndar 27. nóv

    Nýjasta skýrsla Kjaratölfræðinefndar verður kynnt í húsakynnum ríkissáttasemjara fimmtudaginn 27. nóvember…

    Ritstjórn

    27. nóv 2025

  • Niðurstaða launa- og forsendunefndar kjarasamninga

    Í samræmi við ákvæði kjarasamninga kom sameiginleg launa- og forsendunefnd…

    Arnaldur Grétarsson

    1. okt 2025

  • Launatöfluauki virkjaður gagnvart BHM og BSRB

    Meirihluti nefndar um launatöfluauka, sem skipuð er fulltrúum heildarsamtaka launafólks…

    Ritstjórn

    26. ágú 2025