Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,47% milli mánaða og mælist ársverðbólga í september 4,4% samanborið við 3,5% í sama mánuði í fyrra. Mest áhrif til hækkunar á vísitölunni hefur 1,7% hækkun á reiknaðri húsaleigu (kostnaður við eigin húsnæði) (áhrif 1,72%). Sé horft framhjá áhrifum húsnæðis nálgast verðbólga markmið Seðlabankans og mælist 2,8%.
Ef breytingar á vísitölunni milli mánaða eru skoðaðar eftir eðli og uppruna má sjá að húsnæði hefur mest áhrif til hækkunar á vísitölunni og þar á eftir kemur hækkun á innfluttri vöru (áhrif 0,13%) sem má að mestu rekja til hækkana á fötum og skóm vegna útsöluloka. Hækkun á innfluttri mat- og drykkjarvöru má að mestu rekja til hækkana á berjum, grænmeti og kartöflu og þá hækkar bensín og olía nokkuð milli mánaða.
Húsnæðisverð heldur uppi verðbólgu
Eins og sjá má er húsnæðisverð helsti drifkraftur verðbólgunnar. Hagstofan metur svokallaða reiknaða húsaleigu sem byggir á kostnaði við eigið húsnæði. Reiknuð húsaleiga tekur þannig bæði mið af húsnæðisverði og vaxtabreytingum.
Samkvæmt íbúðarvísitölu þjóðskrár hækkaði húsnæðisverð um 2,2% milli mánaða í ágúst og ekkert lát virðist á þenslu á húsnæðismarkaði. Árshækkun húsnæðisverðs mældist 16,4% milli ára í ágúst og þar af hefur hækkun sérbýlis numið 20,4%. Húsnæðisverð hefur hækkað hratt síðustu misseri og skýrist þróunin fyrst og fremst af hröðum vaxtalækkunum inn í umhverfi tregbreytanlegs framboðs.
Ólíkt húsnæðisverði hefur leiguverð haldist tiltölulega stöðugt í heimsfaraldrinum. Þar spila inn í áhrif af fækkun ferðamanna og tímabundin tilfærsla af húsnæði úr skammtímaleigu í langtímaleigu. Leiguverð lækkaði því í heimsfaraldri, en óverulega, og er tekið að hækka á ný. Í febrúar hafði vísitala leiguverðs lækkað um 3,4%, að nafnvirði, frá því hún stóð hæst í janúar 2020. Í ágúst mældist 3,5% hækkun á leiguverði milli ára og er vísitala leiguverðs nú hærri en í upphafi faraldurs.