Alþýðusamband Íslands hefur skilað umsögn um frumvarp til laga um kílómetragjald sem nú liggur fyrir Alþingi1 en sambandið skilaði einnig inn umsögn um málið á fyrri stigum23. Verði breytingarnar að veruleika munu eigendur ökutækja byrja að greiða sérstakt kílómetragjald, að lágmarki 6,7 krónur fyrir bíla sem eru léttari en 3,5 tonn.
ASÍ leggst gegn áformunum í núverandi mynd. Ekki er réttlætanlegt að öll ökutæki undir 3,5 tonnum greiði sama kílómetragjald. Sú útfærsla felur jafnframt í sér ranga hvata, þar sem akstur smærri og sparneytnari ökutækja verður dýrari á meðan akstur eyðslumeiri ökutækja verður ódýrari.
ASÍ gagnrýnir einnig þau áform að bílaleigur njóti afsláttar af kílómetragjaldi í formi daggjalds.
Sama kílómetragjald á Yaris og Hummer
Áform um kílómetragjald byggja á því sjónarmiði að þeir eigi að borga sem noti vegina. ASÍ gagnrýnir að útfærsla kílómetragjalds sé ekki í samræmi við þau markmið. Þannig munu allir bílar undir 3,5 tonnum greiða sama kílómetragjald þrátt að verulegur munur sé á yfirborðssliti af akstri léttra fólksbíla og þyngri jeppa. Þar að auki er mikill munur á svifryksmengun eftir þyngd bíla undir 3,5 tonnum.
Endanleg áhrif frumvarpsins á neytendur ráðast af samspili fjölda ekinna kílómetra og eldsneytisnotkunar bílsins. Eyðslumeiri bílar njóta þannig góðs af lækkun bensíngjalda þrátt fyrir hækkun kolefnisgjalds.
Í dæmunum hér að neðan má sjá að nái breytingarnar fram að ganga mun kostnaður eiganda Toyota Yaris bíls, árgerð 2022 sem eyðir 3,3 lítrum á hundraðið, hækka um 46% eftir breytingarnar eða sem nemur 52.046 kr. á ári (m.v. 12.000 km keyrslu). Þá mun kostnaður eiganda Toyota Yaris, árgerð 2006, sem eyðir 6 lítrum á hundraðið, hækka um 14% á meðan eigandi Hummer H2, árgerð 2022, mun greiða 12% eða 74.256 kr. minna eftir breytingarnar.
Frumvarpið stuðlar ekki að réttlátum umskiptum
Í greinargerð með frumvarpinu segir að breytingarnar séu í samræmi við markmið stjórnvalda um réttlát umskipti (e. just transition) sem felur í sér að allar aðgerðir stjórnvalda gegn loftslagsvánni tryggi um leið jöfnuð og réttlæti.
Alþýðusamband Íslands bendir á að réttlát umskipti fela í sér að tekist sé á við loftslagsbreytingar með aðgerðum sem styðja jafnframt við jöfnuð og réttlæti. Frumvarp þetta er ekki til þess fallið að hvetja til notkunar á litlum, sparneytnum bifreiðum og styður því ekki við markmið stjórnvalda í loftslagsmálum. Frumvarpið styður heldur ekki við réttlæti né jöfnuð þar sem þyngstu byrðarnar eru lagðar á ódýrustu og minnstu bílana.
Mun afnám bensíngjalda skila sér til neytenda?
Samhliða upptöku kílómetragjalds verða bensíngjöld felld niður og kolefnisgjald tvöfaldað. Að óbreyttu ætti bensínverð lækka um 95 krónur og verð á díselolíu um 76 krónur. Stjórnvöld hafa engin áform um að fylgja eftir þeim breytingum og tryggja að þær skili sér til neytenda. Ef olíufélögin nýta lækkunina til að auka álagningu er ljóst að kostnaður heimila vegna breytinganna verður mun hærri en áætlað er.