Félög í Starfsgreinasambandi Íslands, Samiðn og Efling stéttarfélag undirrituðu kjarasamninga við Samtök Atvinnulífsins í húsakynnum Ríkissáttasemjara, kl. 17 í dag.
Samningarnir eru til langs tíma og koma til með að gilda næstu 4 árin að uppfylltum innbyggðum forsendum. Markmið samningana er að stuðla að minnkun verðbólgu og lækkun vaxta og þar með vinna að stöðugleika og fyrirsjáanleika í íslensku atvinnulífi á komandi misserum. Samningarnir ná til meirihluta launafólks innan Alþýðusambands Íslands og á almennum vinnumarkaði.
Launastefna samninganna byggir á hlutfallslegum launabreytingum með lágmarkskrónutölu og munu laun hækka um 3,25% eða 23.750 kr. frá 1. febrúar.
„Samninganefnd Eflingar er ánægð með að samningar hafi náðst. Samstaðan sem hefur náðst með SGS félögunum og hluta iðnaðarmanna er ánægjuleg og hefur skilað okkur samningum sem við erum sátt við,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir um samningana.