Konur í nýju landi – OKKAR konur

Höfundur

Ritstjórn

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum, í samstarfi við Norðurþing og Alþýðusamband Íslands stóðu fyrir opinni málstofu og pallborðsumræðum á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna, laugardaginn 8. mars. Samkoman fór fram í Golfskálanum á Húsavík og var fjölsótt. Sjónum var beint að framlagi kvenna af erlendum uppruna til íslensks samfélags og stöðu þeirra hér á landi. Yfirskrift málstofunnar var „Konur í nýju landi – okkar konur“. Meðal þeirra sem voru með erindi voru Guðrún Margrét Guðmundsdóttir jafnréttisfulltrúi hjá Alþýðusambandi Íslands, Agnieszka Szczodrowska starfsmaður Stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum, Aneta Potrykus formaður Verkalýðsfélags Þórshafnar og Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar sem jafnframt fór fyrir skipulagningu málstofunnar fh. Framsýnar stéttarfélags. Þá tóku Nele Marie Beitelstein fjölmenningafulltrúi Norðurþings, Aleksandra Leonardsdóttir sérfræðingur ASÍ í fræðslu og inngildingu, Fanný Cloé, íslenskukennari fyrir innflytjendur, Christin Irma Schröder verkefnastjóri hjá PCC og Sylwia Gręda, lögfræðingur og aðstoðarmaður daglegs reksturs hjá Norðursiglingu þátt í pallborðsumræðum. Huld Aðalbjarnardóttir lífsþjálfi hélt utan um málstofuna sem var öllum til mikils sóma.

Ræða Guðrúnar Margrétar Guðmundsdóttur á alþjóðlegum baráttudegi kvenna:

Konur í nýju landi – Okkar konur  

Opnunarræða 8. mars 2025 í Golfskálanum á Katlavelli, Húsavík  

Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, jafnréttisfulltrúi Alþýðusambands Íslands, ASÍ 

Það er mér sannur heiður að fá að flytja opnunarávarp á þessari mikilvægu málstofu hér í dag á alþjóðlegum baráttudegi kvenna og það á sjálfu kvennaárinu 2025.  

Húsavík fer fram með góðu fordæmi 

Blásið er til þessa viðburðar af stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslunum, Norðurþingi og okkur hjá ASÍ, þar sem sjónum er beint að framlagi kvenna af erlendum uppruna til nærsamfélagsins, íslensks samfélags almennt og stöðu þeirra hér á landi.  

Smá forsaga 

Mig langar að gefa ykkur smá forsögu til að þið skiljið hversu brýnt ég tel að þetta málefni sé tekið fyrir hér í dag og vil að auki taka hattinn ofan af fyrir ykkur Ósk, Aðalsteinn Árni, Agnieszka frá Framsýn og Nele frá Norðurþingi sem skipulögðuð þennan viðburð og skiljið mikilvægi hans í þaula.  

Þrátt fyrir fjölgun fólks af erlendum uppruna hér á landi sem knýr áfram hjól atvinnulífsins af miklum móð er það oft og tíðum ósýnilegt og við látum það okkur litlu varða. Það vinnur langan vinnudag, oft fyrir lægstu launin og lendir því miður mun oftar í misneytingu og kjarasamningsbrotum en innfæddir. Það vitum við manna best sem vinnum hjá ASÍ og stéttarfélögunum. Við sjáum þess glöggt merki í okkar daglegu störfum, því miður.  

Við Ósk Helgadóttir, varaformaður Framsýnar, kynntumst fyrst þegar við unnum saman að undirbúningi Kvennaverkfalls 24. október 2023. Ég var á kafi í vinnu með risastórum framkvæmdahópi verkfallsins og Ósk var á fullu að skipuleggja viðburðinn hér á Húsavík. Það var mikið stuð og atgangur, mörg símtöl hringd, fjölmargir tölvupóstar sendir og allt gekk svo glimrandi vel. Metaðsókn og algjört major success! 

Eftir á trúðum við hvor annarri fyrir því að okkur leið báðum undarlega innanbrjósts þar sem okkur fannst við hafa vanrækt kynsystur okkar af erlendum uppruna í öllum hamaganginum, ekki af ásetningi auðvitað en það gerðist þó. Við sinntum því einfaldlega ekki nægilega vel að fá þær með í skipulagið, hlusta eftir sjónarmiðum þeirra og reyna að fá þær með sem þátttakendur eða leggja á okkur þá extra vinnu sem hefði þurft. Við ákváðum að í næsta stóra verkefni sem lyti að samstöðu kvenna myndi það ekki endurtaka sig og hér erum við í dag.  

Á Kvennaráðstefnu ASÍ sl. haust var ákveðið að sambandið legði þunga áherslu á að konur af erlendum uppruna yrðu í sérstökum fókus, við vildum þær með í hreyfinguna, í trúnaðarstörf og í valdastöður. Þannig yrðu réttindi þeirra best tryggð, sem jafningjar og félagar. Konur voru sammála um að sjónarmið þeirra og þátttaka væru ómetanleg og jafnframt eðlileg.  

Til viðbótar má ég til með að segja ykkur að nýverið hefur verið skipaður framkvæmdahópur með konunum okkar af erlendum uppruna innan raða ASÍ og til stendur að halda stórt málþing í haust þar sem þær ráða ferðinni, velja viðfangsefnið og þær segja okkur frá reynslu sinni og áskorunum af íslenskum vinnumarkaði og við hlustum! Bara svo að þið vitið að ég hyggst líka bæta ráð mitt, en ekki bara hún Ósk. 

Málþing markar tímamót 

Þið fyrirgefið mér vonandi fyrir að halda áfram á  agnarögn dramatískum nótum en ég leyfi mér að dreyma um að málstofan hér í dag, á þessum merkisdegi, marki tímamót. Stundina þegar íslensk kvennabarátta með öllum sínum fjölmörgu sigrum í landi sem af mörgum er kallað jafnréttis-Paradís opnist upp á gátt til að skapa pláss fyrir systur okkar af erlendum uppruna, OKKAR konur. Því ég ætla að fullyrða að án þeirra, þeirra baráttumála og þátttöku, er íslensk kvennabarátta bara sneið af sjálfri sér, á bara við vissan hóp kvenna en ekki aðra. Við verðum einnig að víkka út kvennasamstöðuna, sem Ísland er svo þekkt fyrir, svo að hún umfaðmi allar konur, og hana nú!  

Breyttur veruleiki á vinnumarkaði  

Eins og við vitum hefur samsetning íslensks samfélags og vinnumarkaðurinn gjörbreyst á fáeinum áratugum. Nú er fólk af erlendum uppruna nær fjórðungur launafólks og þar af eru konur tæpur helmingur. Konur af erlendum uppruna eru 22% starfandi kvenna á Íslandi og NB samkvæmt rannsóknum Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins er atvinnuþátttaka þeirra meiri en innfæddra og þær eru einnig frekar í fullu starfi. Talandi um hin blessuðu hjól atvinnulífsins!  

Verri staða kvenna af erlendum uppruna á öllum mælikvörðum 

Nýleg rannsókn frá Háskólanum á Akureyri sýnir jafnframt að konur af erlendum uppruna búa við meira óöryggi og krefjandi aðstæður á vinnu- og húsnæðismarkaði samanborið við innfæddar konur, fjárhagsstaða þeirra er verri og þær eru ólíklegri til að fá menntun sína metna að verðleikum. Félagsleg tengsl þeirra eru takmarkaðri og andleg líðan verri. Þær búa sem  sagt við fjölþættari samfélagslegar hindranir sem koma í veg fyrir að þær upplifi sig sem fullgilda þegna og njóti jafnra tækifæra1.  

Nú vík ég mér að sögunni. Hvaða dagur er þessi 8. mars eiginlega og af hverju tölum við um kvennaár?  

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna 

Alþjóðlegan baráttudag kvenna má rekja aftur til upphafsára 20. aldar. Merking dagsins hefur þróast í tímans rás, samfara pólitísku landslagi hverju sinni. Lengi vel snerust baráttumálin um kosningarétt kvenna og samstöðu verkakvenna en þróuðust svo í baráttu kvenna fyrir friði og gegn fasisma á tímum seinni heimstyrjaldarinnar í Evrópu. Á eftirstríðsárunum minnkaði vægi dagsins en hann gekk hressilega í endurnýjun lífdaga með tilkomu nýrrar og öflugrar kvennahreyfingar um 1970.  

Sameinuðu þjóðirnar lýstu árið 1975 alþjóðlegt kvennaár og í kjölfarið var ákveðið að 8. mars skyldi vera alþjóðlegur kvennadagur Sameinuðu þjóðanna.  

Kvennaárið 1975 og Kvennafríið 24. október 2025 

En snúum okkur að Íslandi. Á kvennaárinu fyrir hálfri öld var mikið fjör og handagangur í öskjunni í íslenskri kvennabaráttu, þar sameinuðust kvennasamtök, kvenfélög og stéttarfélög, auk þess sem unnið var á þverpólitískum grunni. Ýmsir viðburðir voru skipulagðir, aðgerðir framkvæmdar og samdar voru sameiginlegar kröfugerðir en óumdeilanlega var hátindinum náð 24. október með heimsfrægu kvennafríi sem vakti athygli alþjóðapressunnar. Markmið frísins var að vekja athygli á mismunun á vinnumarkaði og framlagi kvenna til þjóðarbúsins. Viðburðurinn gekk vonum framar. 90% kvenna lögðu niður störf, atvinnulífið lamaðist og seinnipartinn fylltist Arnarhóll af konum. Fjöldi útifunda fór fram um allt land.  

Karlar neyddust til að ganga í störf kvenna og taka að sér börn og bú þennan dag. Í kvöldfréttum mátti sjá gúmmíhanska-klædda karla vaska upp á kaffistofum landsins og viðtöl tekin við mæðulega menn sem margir neyddust til að hafa börnin hjá sér í vinnunni. Fullyrt var að pylsur hefðu selst upp á landinu þennan dag.  

Í ræðu Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur, verkakonu, á Arnarhóli fyrir 50 árum ávarpaði hún baráttusystur sínar á meðan hún horfði yfir kven-mergðina, mannhafið af sviðinu og velti fyrir sér áhuganum á þessum degi. Hún taldi þá að áhugann mætti rekja til þess óréttlætis sem konur eru beittar á vinnumarkaði og vanmats á störfum þeirra yfirleitt. Aðalheiður talaði fyrir þeim sem hafa lægstu kjörin, minnsta baklandið og versta aðbúnaðinn. 

—— 

Kvennafríið var endurtekið áratugi síðar 1985, svo og 2005, 2010, 2016, 2018 og 2023 eða alls sjö sinnum.  

Kvennaverkfall 24. október 2023 

Við munum flestar eftir hinu magnaða og fyrrnefnda Kvennaverkfalli 24. október 2023 býst ég við, þegar við Ósk kynntumst, munið þið. Þá var ákveðið að halda heils dags kvennaverkfall í anda Kvennafrísins 1975 fyrrnefnda, 48 árum síðar. Rúmlega þrjátíu félagasamtök, samtök kvenréttindakvenna, kvenfélaga, hinsegin og kynsegin fólks, fatlaðra kvenna o.fl. stóðu að deginum og óhætt er að segja að hann hafi heppnast fram úr björtustu vonum.  

100 þúsund konur mættu á kröfufundinn á Arnarhóli, einn stærsta útifund Íslandssögunnar og voru 19 aðrir viðburðir haldnir víða um land, þ.á m. hér á Húsavík, líkt og fram hefur komið. Alls staðar var troðið út að dyrum. Kröfur kvennaverkfalls voru skýrar: leiðrétta þurfi vanmat á kvennastörfum, ofbeldi í garð kvenna eigi ekki að viðgangast, hvað þá líðast og bent á óhóflega fjölskylduábyrgð kvenna.  

Eftir margra vikna sigurvímu og kvennasamstöðurúss kom framkvæmdastjórn kvennaverkfalls saman á ný og var þá ákveðið að á hálfs aldar afmæli kvennafrísins dygði ekkert minna að allt árið lægi undir, nú skyldi endurtaka títtnefnt kvennaár á árinu 2025. Þá höfum við það. 

Kvennaár 2025 

Þann 24. október sl. tilkynnti framkvæmdarstjórn vel heppnaðs kvennaverkfalls samfélaginu formlega að árið 2025 yrði Kvennaár. Formönnum stjórnmálaflokka voru afhentar kröfur kvennaárs. Formönnunum var gefið árið til að uppfylla kröfurnar. Að kvennaári standa nú um 50 félagasamtök og þið getið fylgst með dagskránni á kvennaar.is þar sem þið getið líka kynnt ykkur kröfurnar.  

Hvað getum við lært af sögunni? 

Ég legg til að við nýtum kvennaárið út í hið ýtrasta til að útvíkka kvennabaráttuna og -samstöðuna svo að hún rúmi allar konur á Íslandi, og einkum og sér í lagi þær sem hafa ákveðið að setjast hér að og þurfa á systralagi að halda í risaskammti.  

Kvennabaráttan er óneitanlega gríðarsterkt hreyfiafl sem getur fært fjöll. Það höfum við svo sannarlega séð á okkar líftíma. Hvern hefði órað fyrir að það kæmi sá dagur að konur skipuðu nær öll æðstu embætti íslenska ríkisins; forseta, forsætisráðherra, dómsmálaráðherra, biskups, borgarstjóra og landlæknis. Samfélagið er gjörbreytt og konur eru sannarlega sýnilegar í efstu lögunum. Á sama tíma er grimmd kapítalismans að aukast, víða ríkir neyðarástand á á húsnæðismarkaði og óróleiki í heimspólitíkinni svo vægt sé til orða tekið. 

Kvennabaráttan þarf að svara þörfum samtímans eins og áður hefur verið gert með innbyggðri aðlögunarhæfni eins og saga hennar gefur til kynna. Það er ekki nóg að kraftaverk gerist í efstu lögum samfélagsins. Nú þarf kvennabaráttan að hverfast um verkakonur og konur í hefðbundnum vanmetnum kvennastörfum, sem eru að svo stórum hluta konur af erlendum uppruna. Konur verða að bindast böndum eins og þær hafa áður gert í sögunni, því saman eru þær nautsterkar og við hinar þurfum versgú að styðja þær alla leið. Stéttarfélagið Efling hefur sannarlega sýnt fram á að það sé hægt og þeirra kraftur þarf að dreifast með vindinum um allt samfélagið. Kvennabaráttan þarf að svara kalli samtímans.  

Nú þarf að virkja samtakamáttinn sem birtist á útifundunum 1975 og aftur 2023. Ímyndum okkur mannhafið, eða kven-hafið öllu heldur sem blasti við Aðalheiði, okkar konu uppi á sviði á Arnarhóli fyrir hálfri öld síðar. Virkja þarf kraftinn svo að hann nái líka til aðfluttra systra okkar. 

Væri ekki geggjað ef það myndi hefjast fyrir alvöru hér í dag, hér á Húsavík! 

Lokaorð 

Auðvitað er töluverð óskhyggja fólgin í þessum orðum mínum. Eitt lítið málþing getur varla breytt veruleikanum. Hvað þá eitt málþing í haust sem konur af erlendum uppruna skipuleggja og ég montaði mig af hér áðan. Eða hvað? 

Ég trúi því að það sé mikill lærdómur fólginn í því sem kom fyrir okkur Ósk hér um árið, ef áhugi er fyrir hendi að nýta sér hann og læra af mistökum.  Við verðum að ætlast til meira af okkur sjálfum en að sýna nýju samferðafólki okkar sinnuleysi. Lykillinn er að ákveða að vanda sig og breyta rétt framvegis og sjá konur sem eina heild.  

Ég trúi því jafnframt einlæglega að samfélag eins og ykkar geti tekið meðvitaða forystu í málefnum fólks sem kýs að flytja hingað til lands og setjast hér að og skapa samstillt og gott samfélag. Þið hafið margra ára reynslu og það er brýn þörf á að samfélag þar sem sambúðin gengur vel láti í sér heyra. Fjölgun innflytjenda hefur verið ör á skömmum tíma með tilheyrandi vaxtaverkjum, leyfi ég mér að ætla. Ég heyrði í gær að félagsmenn Framsýnar væru frá 36 þjóðernum og að hér í sýslunum búi fólk af 45 þjóðernum, þið eruð eins og sjálfar Sameinuðu þjóðirnar.  

Ég hvet ykkur hér í dag til að hugsa málið. Þið hafið allt að bera.  Góð stéttarfélög sem sýna félagsmönnum samkennd og hluttekningu og sveitarfélag sem er á tánum og vill gera betur. Þar að auki eigið þið heilt Alþýðusamband að baki ef því er að skipta. 

Lykilatriðið er að ríghalda í konurnar hér í dag sem eru af erlendum uppruna og sannfæra þær að sameinast kvennabaráttunni. Hlusta á þær segja frá sínum hugðarefnum, greina frá áhyggjum og áskorunum og fá þær til að vinna með ykkur. Fá þær svo til að gera sig gildandi, á sviði stéttarfélaganna nú eða sveitarfélagsins sem dæmi. Nú er málið að skipuleggja viðburði, ýmsar aðgerðir og kröfur í anda fortíðar.   

Ég tel í það minnsta ljóst fyrir hverja Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir myndi tala ef hún héldi ræðuna sína í dag. Hún væri að tala fyrir konum í láglaunastörfum af erlendum uppruna og auðvitað íslenskum líka. Barátta þessara kvenna er samofin.  

Það er nefnilega engin eiginleg íslensk kvennabarátta án kvennanna í nýju landi, OKKAR kvenna.  

Dagskráin í dag 

Næst flytur margumrædd Ósk Helgadóttir, varaformaður Framsýnar, erindi sem hún kallar Samfélagið okkar – í allra þágu 

Þar næst flytur Agnieszka Szczodrowska, túlkur og starfsmaður Stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum, erindið: Einmana á Raufarhöfn    

Svo talar Aneta Potrykus, formaður Verkalýðsfélags Þórshafnar, og erindið hennar kallast: Íslenska er lykill – líka með hreim 

Að því loknu fáum við okkur súpu og brauð og tökum hálftíma hlé.  

Og síðasti dagskráliður er pallborð góðra kvenna eða þeirra:  

Nele Marie Beitelstein, fjölmenningafulltrúa Norðurþings, Aleksöndru Leonardsdóttur, sérfræðings í fræðslu og inngildingu hjá ASÍ, Fanný Cloé, íslenskukennara fyrir innflytjendur, Christin Irma Schröder verkefnastjóra hjá PCC og Sylwia Gręda, lögfræðings og aðstoðarmaður daglegs reksturs hjá North Sailing.  

Það verður Huld Aðalbjarnardóttir sem mun halda um stjórnartaumana og leiða okkur áfram í gegnum þingið. 

Ég þakka fyrir gott hljóð og áhlustun. Góða skemmtun í dag.  

Velkomnar í kvennabaráttuna stelpur, við höldum með ykkur og okkur! Áfram gakk!  

Tengdar fréttir

  • Dagurinn sem Ísland stöðvaðist

    Má bjóða þér í bíó!? í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna…

    Ritstjórn

    6. mar 2025

  • Konur styðja konur

    Boð í leikhús Félagskonum er boðið í leikhús laugardaginn 8.…

    Ritstjórn

    6. mar 2025

  • Konur í nýju landi – okkar konur

    Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum, í samstarfi við Norðurþing og Alþýðusamband Íslands…

    Ritstjórn

    28. feb 2025