Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Laun í sóttkví – aðgerð til að hægja á útbreiðslu COVID-19

Í samræmi við þríhliða yfirlýsingu Alþýðusambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins og ríkisstjórnarinnar frá 5.3 2020 um nauðsyn þess að hægja á útbreiðslu COVID-19 hefur á undanförnum dögum verið unnið að lagafrumvarpi sem tryggja á launarétt launafólks sem þarf að sæta sóttkví skv. fyrirmælum yfirvalda. Frumvarpið hefur nú verið lagt fram á Alþingi og er þar til meðferðar.

Meginreglan verður sú að atvinnurekendur haldi áfram að greiða laun en ríkið endurgreiði þeim allt nema launatengdu gjöldin. Kanna ber möguleika á að starfsmenn fari í fjarvinnu og skerðast þá endurgreiðslur sem því nemur. Greiði atvinnurekandi ekki laun meðan á sóttkví stendur geta einstaklingar sótt sjálfir um greiðslur. Ef fjarvinna er möguleg skerðast greiðslur sem því nemur. Gert er ráð fyrir að greiðslur verði aldrei hærri en 633.000 kr. miðað við heilan almanaksmánuð og hámarkgreiðsla fyrir hvern almanaksdag því 21.100 kr. Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að sjálfstætt starfandi einstaklingar í sóttkví geti átt sambærilegan rétt og launafólk.

Eftir að vinna hófst við gerð frumvarpsins var sett á tímabundið samkomubann. Af þeim ástæðum hefur orðið alvarleg röskun á skólastarfi þannig að nemendum er gert að sækja ekki skóla tiltekna daga eða tilteknar stundir dagsins. Af þeim ástæðum munu margir foreldrar ekki geta komið við gæslu barna sinna. Jafnframt hafa heilbrigðisyfirvöld hvatt til þess að samgangur barna og eldri kynslóða, afa og ömmu, verði takmörkuð til verndar þeim síðarnefndu. Samkomubann yfirvalda getur þannig haft sömu beinu áhrifin á launafólk eins og sóttkví þess sjálfs. Af þessum ástæðum hefur ASÍ að höfðu samráði við SA gert tillögur um að frumvarpinu verði breytt til þess að ná utan um þennan hóp launafólks.

Heilbrigðisyfirvöld leggja mikla áherslu á að smit nái ekki til viðkvæmra hópa. Sá hópur sætir ekki sóttkví skv. fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda en ASÍ telur brýnt að haga málum þannig að úrræði frumvarpsins nái einnig til þeirra enda fari það í sóttkví að læknisráði. Breytingar hafa verið lagðar til í þessu efni.

Author

Tengdar fréttir