Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Launahlutfall í hagkerfinu lækkaði á síðasta ári

Í nýju mánaðaryfirliti er að finna umfjöllun um þróun launa og framleiðni í hagkerfinu. Gögnin byggja á nýlegu framleiðsluuppgjöri Hagstofunnar. Um er að ræða fyrstu tölur fyrir síðasta ár sem gjarnan taka breytingum við síðari endurskoðun. Samkvæmt gögnunum dróst framleiðni saman um 2,1% á síðasta ári og laun á vinnustund um 4,9%. Framleiðni og laun eru skilgreind sem framleiðsla og laun auk launatengdra gjalda á hverja unna vinnustund. Á síðasta ári lækkaði hlutfall launa einnig í hagkerfinu. Hin hlið launahlutfalls er hlutur fjármagns í hagkerfinu, þ.e. rekstrarafgangur sem hlutfall af verðmætasköpun. Sá hlutur hefur aukist undanfarin tvö ár. Rekstrarafgangur fyrirtækja var sögulega hár á síðasta ári og jókst umfram verðlagsþróun.

Framleiðni dróst saman á síðasta ári

Í einkageiranum jukust vergar þáttatekjur um 7,2% að raunvirði á síðasta ári en líta má á vöxt þáttatekna sem mælikvarða á verðmætasköpun og auknum umsvifum í hagkerfinu. Verðbólga hefur töluverð áhrif á framleiðsluuppgjörið, en alls jukust þáttatekjur um 20,5% að nafnvirði.

Aukin umsvif í hagkerfinu sjást einnig í mikilli fjölgun á heildarvinnustundum í hagkerfinu. Alls fjölgaði vinnustundum um 6,9% í hagkerfinu, þar af 9,5% í einkageira. Framleiðsla á vinnustund dróst því saman milli ára, m.ö.o. framleiðni dróst saman um 2,1% milli ára í einkageira. Frá árinu 2016 hefur framleiðni í einkageira að jafnaði aukust um 2,1% á ári.

Laun dragast saman ef horft er til vinnustunda

Launasumman í hagkerfinu nemur tæplega tvö þúsund milljörðum. Þar af eru tæplega fjórtán hundruð milljarðar í einkageira. Alls jukust laun um 17% milli ára að nafnvirði í einkageira en einungis um 4,1% að raunvirði. Sé tekið tillit til fjölgunar vinnustunda drógust raunlaun á vinnustund saman um 4,9% milli ára.

Sögulega mikill rekstrarafgangur fyrirtækja

Launahlutfall er hefðbundinn mælikvarði á skiptingu verðmætasköpunar milli launafólks og fjármagnseigenda. Það mælir hversu hátt hlutfall verðmætasköpunar fer til launafólks. Launahlutfallið lækkaði milli ára, mælist nú 64% í einkageiranum og 71% í hagkerfinu í heild.

Hin hlið launahlutfalls mætti túlka sem hlut fjármagns í verðmætasköpun, þ.e. hlutfall rekstrarafgangs af verðmætasköpun. Rekstrarafgangur er hagnaður fyrirtækja fyrir vaxtagreiðslur. Alls jókst rekstrarafgangur fyrirtækja um 26% í einkageiranum á síðasta ári og um 33% árið 2021. Árið 2020 dróst rekstrarafgangur saman um 13,2% vegna áhrifa heimsfaraldurs. Raunaukning rekstrarafgangs nam þannig 12% milli ára.

Skoðað niður á atvinnugreinar má sjá mikinn vöxt í afkomu fyrirtækja á síðasta ári. Hlutfallslega mælist mestur vöxtur í afkomu gisti- og veitingastaða en þó frá lágum grunni. Þar er greinilegur viðsnúningur í rekstri í kjölfar afnáms ferðatakmarkana. Í öðrum lykilatvinnugreinum mælist á bilinu 18-80% aukning í hagnaði að nafnvirði. Afkoma jókst um 81% í framleiðslu málma, 49% í fiskvinnslu og 40% í mannvirkjagerð. Í heild- og smásöluverslun jókst afkoma um 20%.

Aukinn rekstrarafgangur verður til þess að hlutfall fjármagns hækkar um 2 prósentustig milli ára. Alls hefur hlutur fjármagns hækkað úr 30% í 36% frá árinu 2020. Hlutfallið er á svipuðum stað og árið 2015 og yfir langtímameðaltali í hagkerfinu.

Ráðstöfunartekjur drógust saman á síðasta ári

Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum Hagstofunnar fyrir árið 2022 dróst kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna á mann saman um 1,7%. Alls jukust ráðstöfunartekjur heimilanna um 9,2% árið 2022, eða um 6,5% á mann.

Áhrif mikillar verðbólgu á tímabilinu leiða til þess að auknar ráðstöfunartekjur halda ekki í við verðlagsþróun á tímabilinu og kaupmáttur dregst því saman. Kaupmáttur hefur ekki mælst neikvæður á ársgrundvelli í áratug en síðast dró úr kaupmætti árið 2012, þá um 0,3%.

Kaupmáttur dróst saman þriðja ársfjórðunginn í röð, eða um það sem nemur 3,4% á fjórða ársfjórðungi.

Heildartekjur heimilanna jukust um 9,9% meðan heildargjöld hækkuðu um 10,7% árið 2022. Aukning í launatekjum heimilanna vegur þyngst í aukningu í heildartekjum heimilanna á síðasta ári, en launatekjur hækka um 15% milli ára. Aukning í launatekjum skýrist bæði af launahækkunum en einnig af minnkandi atvinnuleysi frá fyrra ári en tekjur heimilanna sem koma frá lífeyri og félagslegum bótum dragast lítillega saman milli ára. Lífeyrir og félagslegar bætur námu tæplega 17% af heildartekjum heimilanna árið 2021 en nema nú 15% af heildartekjum.

Vaxtagjöld heimilanna hækka um 35,5% milli áranna 2021 og 2022 en þetta skýrist af auknum útlánum til heimilanna ásamt hratt hækkandi vaxtastigi í landinu. Vaxtatekjur heimilanna aukast um 53% á sama tímabili.

Author

Tengdar fréttir