Lífsgæði og afkoma – hin stóru verkefni ársins!

Höfundur

Drífa Snædal

Um áramótin urðu breytingar til góðs á kjörum launafólks. Tekjuskattar lækkuðu og skilar lækkunin sér mest til þeirra sem minnst hafa. Fæðingarorlof lengdist í tólf mánuði samanlagt sem er löngu tímabært. Laun hækkuðu og stytting vinnutímans tók gildi hjá hjá opinberum starfsmönnum í dagvinnu. Þetta eru vissulega áfangar á leiðinni að heilbrigðu og góðu samfélagi en betur má ef duga skal. Fyrir utan hin risavöxnu verkefni sem eru aðkallandi nú þegar; atvinnuleysi og framfærsluóöryggi, þá mun árið 2021 snúast um hugmyndafræði og stóru myndina. Við megum ekki missa sjónar af því þó að einstaka mál geti orðið  fyrirferðamikil í umræðunni, við verðum að sjá skóginn fyrir trjánum.

Mantra ársins 2021 verður að vera; lífsgæði, réttlæti og afkomuöryggi. Undir það fellur að styrkja möguleika fólks til framfærslu, í gegnum atvinnusköpun og að kerfin okkar geri það sem þeim er ætlað, að grípa fólk. Húsnæðismálin eru líka stór þáttur í lífsgæðum og afkomuöryggi en fólk sem er á ótryggum leigumarkaði, jafnvel í óviðunandi húsnæði býr við afar skert lífsgæði. Það er sérstaklega tilefni til að hafa áhyggjur af fólki af erlendum uppruna og ungu fólki á húsnæðismarkaðnum.

Þegar við hugsum um stóru myndina komumst við aldrei hjá því að ákveða greiðslur í sameiginlega sjóði og hvernig við nýtum skatta og tilfærslukerfi til að dreifa lífsgæðunum. Þar má enginn vera undanskilinn og tími til kominn að fjármagnseigendur verði einnig gerðir ábyrgir fyrir lífsgæðunum sem þeir sannarlega njóta sjálfir.

Það hefur sjaldan verið jafn mikilvægt og nú, á krepputímum að fjöldahreyfingar sem bera almannahag fyrir brjósti eflist og reisi skýra kröfu um réttlæti, afkomuöryggi og lífsgæði fyrir okkur öll. Það er hið stóra verkefni ársins. Saman náum við árangri!

Góða helgi,
Drífa

Tengdar fréttir

  • ASÍ styrkir Samhjálp um páska

    ASÍ styrkir Samhjálp um 400 þúsund krónur nú í aðdraganda…

    Arnaldur Grétarsson

    15. apr 2025

    Kaffistofa Samhjálpar og merki Samhjálpar
  • Opið fyrir umsóknir í Minningarsjóð Eðvarðs Sigurðssonar 2025

    Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar auglýsir eftir umsóknum. Sjóðurinn veitir styrki til…

    Arnaldur Grétarsson

    8. apr 2025

    Eðvarð Sigurðsson
  • Engar tryggingar í frumvarpi um verð á raforku til almennings

    Stjórnvöld taki ekki tillit til sérstöðu raforkumála á Íslandi Alþýðusamband…

    Ritstjórn

    26. mar 2025