Melabúðin hefur hafnað þátttöku í verðlagseftirliti Alþýðusambandsins. Áður en sú afstaða varð ljós hafði verðtaka verið framkvæmd, síðast í janúar síðastliðnum, en samkvæmt þeirri athugun var Melabúðin 43% dýrari en Bónus að meðaltali þegar tæplega 700 vörur voru skoðaðar.
Að mati verðlagseftirlitsins er það réttur almennings að vita hve dýr verslun er áður en lagt er af stað til innkaupa og eru því birtar hér niðurstöður á þessum síðasta verðsamanburði sem framkvæmdur var í versluninni. Öll verð til skoðunar hér eru meðalverð frá janúarmánuði 2025. Verðlagseftirlitið hvetur almenning til að nýta sér Nappið, smáforrit verðlagseftirlitsins, til að senda inn verð þar sem verðlagseftirlitið hefur ekki tök á að framkvæma kannanir.
Til að glöggva sig á verðmuninum sem getur verið til staðar er hér listi af vörum sem mestu munar á þegar verð eru borin saman við lágvöruverðsverslanir. Hér er aftur um að ræða verð frá janúarmánuði.
Margar vörur eru á mun lægra verðbili og er meðalverðbil eftir flokkum afar misjafnt. Af þeim sökum er gott að nota Nappið og skanna strikamerki á vörum eða fletta þeim upp til að vita hvað þær kosta í öðrum verslunum. Þannig er hægt að glöggva sig á verði í búðum þótt þær séu ekki með í verðkönnunum.
Í Hagkaup, verslun sem liggur nær Melabúðinni í verðlagi, var til dæmis örlítið hærra meðalverð á salti og kryddi en í Melabúðinni. Melabúðin var hins vegar með nokkru dýrari snyrtivörur, sykur og fisk.