Borgarráð Reykjavíkur hefur kynnt tillögur að gagngerum breytingum á gjaldskrá leikskóla í borginni. Breytingunum er ætlað að mynda hvata til að stytta dvalartíma barna en þær leiða jafnframt til verulegra hækkana á leikskólagjöldum hjá flestum foreldrum sem treysta á heilsdagsvistun fyrir börn sín. Með þessu færist Reykjavík í hóp þeirra sveitarfélaga sem innheimta hæst leikskólagjöld á landinu. Samkvæmt gögnum frá 2023 er meirihluti barna í leikskólum Reykjavíkurborgar í 8 tíma vistun á dag. Rúmlega helmingur dvelur í 8 klst. á dag, 7% eru í styttri vistun og 36% í 8,5 tíma eða lengur.
Breytingarnar fela í sér að gjaldskráin hækkar fyrir vistun umfram 38 klst. á viku auk þess sem tekið er upp tekjutengt afsláttarkerfi. Einstæðir foreldra með heildartekjur yfir 792.000 kr. á mánuði (um 570.000 kr. í tekjur eftir skatta) og sambúðarfólk með heimilistekjur yfir 1.000.000 kr. á mánuði (um 700.000 kr. í tekjur eftir skatta) greiða fullt gjald sem verður tæplega 51.000 krónur á mánuði fyrir 8 tíma vistun með fæði. Í dag greiða einstæðir foreldrar tæpleg 23.000 kr. og sambúðarfólk 34.500 kr. fyrir sömu þjónustu.
Þá verði innleiddir skráningardagar í dymbilviku, milli jóla og nýárs og í vetrarleyfum grunnskóla sem foreldrar greiða fyrir sérstaklega, að jafnaði 10–11 dagar á ári. Hver dagur kostar 4.000 krónur.
Áhrif mest á einstæða foreldra
Einstæðir foreldrar sem þurfa að nýta alla skráningardaga, sem eru almennir vinnudagar, verða fyrir verulegum hækkunum, óháð tekjum. Í öllum útreikningum hér eru skráningardagar teknir með, þar sem þeir voru áður innifaldir í gjöldum en eru nú rukkaðir sérstaklega.
Samkvæmt tillögunum þarf einstætt foreldri með tekjur yfir 792 þúsund kr. á mánuði að greiða að jafnaði 50.774 kr. á mánuði fyrir eitt barn í 8 tíma vistun með nýtingu skráningardaga. Fyrir breytingar greiddi sami hópur 22.974 kr., sem jafngildir 121% hækkun. Fyrir einstætt foreldri með tekjur á þessu tekjustigi hækkar hlutfallsleg byrði leikskólagjalda úr 4% af ráðstöfunartekjum í 9%.
Mynd 1 Breytingar á gjöldum einstæðra foreldra fyrir 8 tíma vistun á dag, með skráningardögum

Þurfi foreldrið á 8,5 tíma vistun að halda, eins og rúmlega þriðjungur foreldra í Reykjavík hefur verið að nýta, geta leikskólagjöldin samkvæmt tillögunum numið 70.771 kr. á mánuði, sem er 185% hækkun frá núverandi gjöldum.
Mynd 2 Breytingar á gjöldum einstæðra foreldra fyrir 8,5 tíma vistun á dag, með skráningardögum

Hækkanir fyrir sambúðarfólk minni en þó verulegar
Foreldrar í sambúð með heildartekjur yfir eina milljón króna á mánuði (um 700.000 kr. í tekjur eftir skatta) greiða samkvæmt tillögunum einnig 50.774 kr. á mánuði fyrir eitt barn í 8 tíma vistun með skráningardögum. Það jafngildir 7% af ráðstöfunartekjum heimilisins. Fyrir breytingar greiddu þau 34.542 kr., sem er 47% hækkun.
Mynd 3 Breytingar á gjöldum sambúðarfólks fyrir 8 tíma vistun á dag, með skráningardögum

Greiðslur lækka lítillega, um tæpar 3.000 kr., hjá heimilum þar sem heildartekjur fyrir skatt eru undir 791.667 kr. á mánuði. Fyrir aðra hópa hækka gjöldin hins vegar.
Ef sambúðarfólk þarf á 8,5 tíma vistun að halda hækka gjöld allra hópa, og hjá heimilum með heildartekjur yfir milljón króna á mánuði nær hækkunin 81%, og gjöldin nálgast tvöföldun.
Mynd 4 Breytingar á gjöldum sambúðarfólks fyrir 8,5 tíma vistun á dag, með skráningardögum

Reykjavík meðal dýrustu sveitarfélaga
ASÍ ber saman gjaldskrár leikskóla í 20 stærstu sveitarfélögum landsins. Sé horft til fullra ársgjalda fyrir eitt barn, að meðtöldum skráningardögum í þeim sveitarfélögum sem hafa tekið slíkt upp, færa breytingarnar í Reykjavík borgina úr 18. sæti upp í fjórða dýrasta sveitarfélagið.
Sé hálftíminn frá kl. 16:00 til 16:30 skoðaður, má sjá að með breytingum verður hann dýrastur allra sveitarfélaga í Reykjavík og kostar 20 þúsund krónur aukalega á mánuði. Heildarkostnaður við 8,5 tíma vistun í Reykjavík verður þá 66.774 krónur á mánuði (70.774 með skráningardögum) sem gerir borgina næst dýrasta sveitarfélagið fyrir slíka þjónustu, á eftir Kópavogi.
Mynd 5 Samanburður á mánaðargjöldum, fyrir 8 tíma vistun m. skráningardögum, milli 20 stærstu sveitarfélaga

Höfundur er hagfræðingur á skrifstofu ASÍ.