Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar veitir fjóra styrki

Andrea Hjálmsdóttir og Valgerður S. Bjarnadóttir fá styrk að fjárhæð kr. 1.000.000 vegna rannsóknarinnar „Lífið á tímum kórónuveirunnar: Breytingar á fjölskyldulífi, atvinnu og ábyrgð“.
Um er að ræða rannsókn á fordæmalausu tímum Covid-19 þegar líf allra hefur tekið breytingum dag frá degi. Skerðingar á leik- og grunnskólastarfi, lokanir framhaldsskóla, háskóla og vinnustaða, auk hvers kyns skerðingar á þjónustu, hafa víðtæk áhrif á líf fólks og á það á ekki síst við um tilveru fjölskyldufólks. Miklar breytingar hafa orðið á heimilis- og atvinnulífi, sem mikilvægt er að öðlast skilning á. 
Markmið rannsóknarinnar eru annarsvegar að öðlast yfirsýn með því að kortleggja með dagbókarfærslum áhrif COVID-19 á daglegt líf barnafjölskyldna meðan faraldurinn stendur yfir og hins vegar að öðlast með viðtalsrannsókn dýpri skilning á upplifun og reynslu foreldra af áhrifum hans á samræmingu fjölskyldu og atvinnu.
 
Einar Kári Jóhannsson og Styrmir Dýrfjörð fá styrk að fjárhæð kr. 500.000 vegna rannsóknar á lífi og störfum Hallgríms Hallgrímssonar og ritun ævisögu hans.
Hallgrímur var meðal annars einn stofnenda Kommúnistaflokks Íslands, sótti sér menntun í leynilega skóla Komintern í Moskvu, ritstýrði verkalýðsblöðum, var varaformaður Dagsbrúnar og ötull baráttumaður fyrir verkalýðsmál. Þá varð hann þjóðþekktur fyrir þátttöku sína í spænska borgarastríðinu, en einnig eftir að hann hlaut landráðsdóm í hinu svokallaða „dreifibréfsmáli“. Í kjölfarið sat hann inni á Litla-Hrauni í 11 mánuði fyrir að rita bækling á ensku sem var dreift á meðal breskra hermanna. Í bréfinu voru hermenn hvattir til að styðja verkfallsboð Dagsbrúnar. Ljóst er að Hallgrímur var mikil persóna sem ætti eflaust vísan sess í sögubækurnar ef hann hefði ekki fallið frá aðeins 32 ára gamall árið 1942. 
 
Hrafnkell Lárusson fær styrk að fjárhæð kr. 500.000 vegna rannsókna „Lýðræði í mótun: viðhorf, iðkun og þátttaka almennings“.
Meginmarkmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á hlut almennings í lýðræðisþróun íslensks samfélags á umbrotatímum þegar Ísland var að nútímavæðast. Tímabilið sem um ræðir eru árin 1874-1915, en þá var Ísland að færast frá því að vera næsta einsleitt sveitasamfélag yfir í að vera blandað samfélag dreifbýlis og vaxandi þéttbýlis. 
Áhersla verkefnisins er á þátttöku almennings í lýðræðisþróun, en rannsóknin er allt í senn á sviði stjórnmála-, félags- og menningarsögu. Í verkefninu er fjallað um árekstra sem urðu milli gamla samfélagsins og hins nýja, sem birtust m.a. í því að vaxandi stétt launafólks tók að virkja samtakamátt sinn og taka sér stöðu sem áhrifamikið afl í íslensku samfélagi. Verkefnið mun varpa nýju ljósi á hlut íslenskra verkalýðsfélaga í almennri lýðræðisþróun fyrir stofnun ASÍ árið 1916. Hagsmunir launafólks og  starfsemi verkalýðsfélaga eru áhrifamiklir þættir í skýringum á samfélagsþróun tímabilsins sem og aukinni lýðræðislegri þátttöku almennings, sem ekki aðeins barðist fyrir bættum kjörum heldur einnig fyrir félagslegum og pólitískum réttindum.
 
Sigurður Gylfi Magnússon fær styrk að fjárhæð kr. 500.000 vegna bóka í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar.
Nú þegar hafa komið út 25. bækur í ritröðinni sem allar eiga það sameiginlegt að fjalla um lífskjör alþýðufólks á liðnum öldum. Frá og með bók númer 15 (Dagbók Elku) hefur áherslan færst á fyrirbærið fátækt og reynt hefur verið að grafast fyrir um tilurð og umfang „fátæktarmenningarinnar“ í landinu. 
Tilfellið var að fátækt hafði afgerandi áhrif á alþýðu landsins en í þessum bókum er leitað svara við því hver voru hin samfélagslegu úrræði og hver voru bjargráð fólks sem bjó við kröpp kjör. Lífsbaráttan var upp á líf og dauða hjá ótrúlega stórum hópi fólks á 19. og fram á 20. öldina en ætlað er að leiða þessa staðreynd í ljós með áframhaldandi útgáfu ritraðarinnar. 

Author

Tengdar fréttir