Í fjölmiðlum að undanförnu hefur því verið haldið fram að Icelandair geti og ætli sér að ganga framhjá Flugfreyjufélagi Íslands í yfirstandandi kjaradeilu.
Nefnt er að ráða megi ófélagsbundið starfsfólk eða ganga til kjarasamninga við annað stéttarfélag. Reyndar hafa stjórnendur Icelandair borið þetta að nokkru til baka en í umræðunni er engu að síður haldið áfram á þeim villigötum sem hún var.
Í gildi er kjarasamningur milli Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) og Icelandair. Þetta er kjarasamningur sem aðrir eiga ekki aðild að og hann er skuldbindandi skv. lögum nr. 80/1938 og 55/1980 sem lágmarkskjarasamningur um kjör flugfreyja og flugþjóna hjá Icelandair. Það þýðir að hann tekur jöfnum höndum til félagsmanna FFÍ og ófélagsbundinna í sömu störfum. Ráðning ófélagsbundinna starfsmanna er því ekki til þess fallin að ná fram lækkun launa niður úr lágmarkskjörum gildandi kjarasamnings.
Einnig hefur verið nefnt að óánægðir félagsmenn FFÍ geti stofnað eða gengið í annað stéttarfélag sem síðan geti gert kjarasamning við Icelandair á þeim nótum sem Icelandair hefur krafist þ.e. með þeim launalækkunum sem gerð er krafa um. Þetta á sér ekki stoð í raunveruleikanum. Samkvæmt félagslögum FFÍ geta félagsmenn ekki sagt sig úr félaginu eftir að kjaradeilu hefur verið vísað til ríkissáttasemjara. Þar er kjaradeilan stödd nú. Meðan svo er getur annað stéttarfélag ekki tekið upp kjarasamningsviðræður fyrir þeirra hönd.
Loks hefur verið nefnt að fyrirtækið WAB air (Play) hafi gert kjarasamning um störf flugfreyja og flugþjóna hjá fyrirtækinu við Íslenska flugstéttafélagið (ÍFF). Reyndar er það svo að WAB air hefur hingað til ekki verið með starfandi flugfreyjur eða flugþjóna enda ennþá ekki hafið neinn flugrekstur. FFÍ hefur innan sinna raða alla þá starfsmenn sem FFÍ semur fyrir hjá Icelandair og þeir geta ekki losað sig eins og áður segir. Þannig að jafnvel þó Icelandair myndi gerast aðili að fyrirtækjasamningi WAB air þá ryður það ekki út gildandi kjarasamningi við FFÍ eða losar fyrirtækið undan því að ná samningum við FFÍ.
Allar þessar vangaveltur um hvernig koma megi Icelandair undan því að semja við FFÍ eiga sér því litla stoð í raunveruleikanum. Þær eru líklega fremur til þess ætlaðar að vekja ótta meðal félagsmanna FFÍ. Sem betur fer hafa stjórnendur Icelandair borið þetta af sér enda væru þeir brotlegir við lög nr. 80/1938 ef satt væri. Fyrirtækinu er einnig fyllilega ljóst að aðgerðir í anda þeirra vangaveltna sem settar hafa verið fram myndu leiða til þess að kjaradeila aðila myndi herðast til muna og leiða til vinnustöðvunar innan skamms. Við þær aðstæður er öllum aðildarfélögum ASÍ heimilt að efna til löglegra samúðarvinnustöðvana til stuðnings vinnustöðvun FFÍ. Er þá skemmst að minnast þess mikla stuðnings sem FFÍ fékk í kjaradeilu sinni við Primera Air frá ASÍ, verkalýðsfélögunum á suðurnesjum og VR. Hefði það flugfélag ekki farið á hausinn áður en til vinnustöðvunar FFÍ kom hefði engin flugvél þess flogið til eða frá Íslandi fyrr en samið hefði verið við FFÍ.
Mikil umræða hefur einnig verði um að vinnuframlag flugfreyja og flugþjóna sé lítið og að þau fái hin sæmilegustu laun fyri 65 stunda vinnu á mánuði. Þar er umræðan á miklum villigötum. Þar er ekki um vinnustundir að ræða heldur flugstundir. Þá tölu má margfalda með 2,5 til þess að fá vinnustundafjöldann. Sjá nánar skýringarmyndir sem birtar eru hér fyrir neðan en þar er einnig gerð grein fyrir þeirri rýrnum kaupmáttar sem félagsmenn FFÍ hafa mátt þola með því að vera samningslausar í 18 mánuði.
Yfirstandandi kjaradeila FFÍ og Icelandair er engum neitt gamanmál. FFÍ hefur verið með opinn kjarasamning og engar launahækkanir í 18 mánuði. Kjör félagsmanna hafa því rýrnað. Því til viðbótar er þess krafist að laun þeirra lækki varanlega um a.m.k. fimmtung. Á sama tíma kemur FFÍ til viðræðna við Icelandair af fullri ábyrgð í ljósi þeirra erfiðleika sem að fyrirtækinu stafa og hefur verið tilbúið til þess að taka fullan þátt í endurreisn þess af sömu ábyrgð og aðrir flugliðar hafa gert.
Nokkrar staðreyndir um kjör og vinnutíma flugfreyja