Norska Alþýðusambandið (LO) hefur tekið við því starfi að styðja við verkalýðshreyfinguna í Úkraínu og Palestínu til að þar megi halda uppi vörnum fyrir hagsmuni launafólks. Fram til þessa hafa bandarísk stjórnvöld og verkalýðsfélög haldið uppi þessari aðstoð sem nú hefur verið skorin niður í samræmi við ákvarðanir stjórnar Donalds Trumps forseta.
Norska Nansen-áætlunin og norska utanríkisráðuneytið munu fjármagna þetta starf. Áætlað er að árlega verði varið 20 milljónum norskra króna (rúmum 240 milljónum ÍSK) í Úkraínu og um 5 milljónum (um 60 milljónum ÍSK) í Palestínu. LO mun einnig hrinda í framkvæmd nýrri áætlun til að efla verkalýðshreyfinguna í Úkraínu.
Aðstoð stuðlar að stöðugleika
„Við lifum í óstöðugri og ófyrirsjáanlegri veröld. Aðstoðin stuðlar að stöðugleika, sem við þörfnumst nú meira en nokkru sinni fyrr. Aðstoðin þjónar einnig okkar hagsmunum. Við getum ekki bætt upp allt það sem tapast vegna niðurskurðarstefnu bandarískra stjórnvalda en við tökum nú við fjármögnun á bandarískum áætlunum til að styðja réttindi launafólks og verkalýðshreyfinguna í Úkraínu og Palestínu,“ segir Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs.
„Á slíkum ólgutímum er sérstaklega mikilvægt að til staðar sé skipulag sem verndar hagsmuni launafólks og tryggir að þeir sem halda samfélaginu gangandi nú og í framtíðinni – heilbrigðiskerfi, innviðum og iðnaði – hafi sterka röddu og öruggt starfsumhverfi. Sterkt samfélag frjálsra borgara og óháð verkalýðshreyfing eru mikilvægir þættir til að standa vörð um lýðræðið þegar það sætir þrýstingi,“ segir Tonje Brenna, atvinnu- og félagsmálaráðherra.
Öflug verkalýðshreyfing forsenda framfara
„Niðurskurðurinn í Bandaríkjunum hefur haft alvarlegar afleiðingar. Þó við getum ekki bætt upp allt sem tapast hefur, verðum við að leggja okkar af mörkum þar sem við getum. Úkraína og Palestína þurfa alla þá aðstoð sem þeim stendur til boða. Öflug, lýðræðisleg og skipulögð verkalýðshreyfing er ein mikilvægasta forsenda réttlátrar skiptingar gæðanna, friðsællar endurreisnar og baráttu gegn ójöfnuði. Við erum stolt af því að hafa við völd í Noregi ríkisstjórn sem gerir sér þetta ljóst og styður alþjóðlega samstöðu,“ segir Peggy Hessen Følsvik, forseti LO,
Í Úkraínu verður stutt við tvö landssambönd launafólks. LO mun tryggja lögfræðilega aðstoð við fulltrúa launafólks og verkalýðshreyfinguna í vinnurétti í gegnum miðstöð er nefnist „Labour Initiatives“. Margir Úkraínumenn vinna við ótryggar aðstæður og laun þeirra eru lág.
Áætlunin nær einnig yfir endurmenntun fyrir fyrrum hermenn, mannúðaraðstoð við félaga og uppbyggingu á getu við gerð heildarkjarasamninga, auk heilsu-, umhverfis- og öryggismála (HMS). Þekking á evrópskum HMS- og kjarasamningakerfum verður lykilatriði þegar að því kemur að Úkraína sækir um aðild að ESB.
Mannúðaraðstoð við brottrekna
Í Palestínu verður launafólki sem hefur ekki fengið laun greidd veitt lögfræðileg aðstoð auk þess sem atvinnulausum verður veitt mannúðaraðstoð sem og þeim Palestínumönnum sem neyddir hafa verið til að yfigefa heimili sín. Jafnframt verður unnið að uppbyggingu lýðræðislegrar verkalýðshreyfingar og styrkingu samfélags Palestínumanna.
„Mikilvægt er að styrkja palestínsku verkalýðshreyfinguna þegar horft er til þeirra erfiðu áskorana sem palestínska þjóðin stendur frammi fyrir. Samfélag Palestínumanna var forðum ágætlega vel skipulagt en það hefur orðið fyrir miklum áföllum og veikst mikið. Það verður að endurreisa þannig að Palestínumenn geti barist fyrir réttindum sínum,“ segir Følsvik.