Airpods Pro 3 kosta 28-65% meira á Íslandi en í átta samanburðarlöndum. Borið saman við önnur lönd mælist mun meiri verðmunur á Airpods heyrnartólum heldur en nýjum iPhone símum. Þetta kemur fram í úttekt Verðlagseftirlitsins á nýútkomnum vörum frá tæknifyrirtækinu Apple.
Vörurnar voru kynntar í byrjun september og hófst sala á þeim í liðinni viku. Skoðað var verð á nýju iPhone línunni, tveimur hulstrum framleiddum af Apple og nýjum Airpods Pro heyrnartólum. Verðmunur milli íslenskra söluaðila og erlendra var minnstur á símunum en mestur á Airpods Pro, en hulstrin féllu þar á milli.
Verð var tekið í stórum keðjum og hjá Apple verslunum í hinum ýmsu löndum. Af þeim aðilum sem skoðaðir voru var verð í Elgiganten í Svíþjóð næst íslensku verðlagi, eða um 7% ódýrara að meðaltali. Þar eru verð á iPhone símum sambærileg við verð á Íslandi. Hins vegar kosta ný Airpods Pro 3 heyrnartól 28% meira á Íslandi en í sænska systurfyrirtæki ELKO.
Verðmunur á Airpods heyrnartólunum eykst þegar íslensk verð eru borin saman við Apple-búðina í Danmörku þar sem hann mælist 32% og er orðinn 40% þegar borið er saman við Þýskaland. Verðmunur milli annarra Evrópulanda mælist mun minni en gagnvart Íslandi.
Verð á Apple vörum í Bandaríkin skera sig úr þegar skoðuð eru bæði verð á símum og Airpods heyrnartólum. Þar kosta Airpods Pro 3 ígildi rétt rúmra 30 þúsund króna. Taka þarf fram að bandarísk verð eru gefin upp án söluskatts, sem er í sumum fylkjum enginn, en getur verið yfir 10%.
Alls voru 17 vörur bornar saman og 206 verðathuganir framkvæmdar. Miðað var við verð og gengi sunnudaginn 21. september.