Efnahagslífið hægir nú á sér eftir 8 ára samfellt hagvaxtarskeið. Samkvæmt nýrri hagspá ASÍ dregst landsframleiðsla saman um 0,3% á þessu ári sem skýrist bæði af verulegum samdrætti í útflutningi og minni þjóðarútgjöldum. Framundan er því skammvinnt samdráttarskeið. Raungerist spá ASÍ má búast við hægum vexti á næsta ári, 0,6%, en að umsvif í hagkerfinu fari vaxandi á árinu 2021 og þá verði hagvöxtur 2,3%.
Aðlögun hagkerfisins var viðbúin en gjaldþrot WOW air í mars markaði skarpari skil í efnahagsþróunina þótt afleiðingarnar hafi góðu heilli verið minni en óttast var í fyrstu. Geta heimila og fyrirtækja til að takast á við stöðuna nú er hins vegar almennt betri en í síðustu niðursveiflu. Sama má segja um getu stjórnvalda og Seðlabankans til að bregðast við.
Horfur á vinnumarkaði hafa versnað eftir því sem liðið hefur á árið 2019 og útlit fyrir að svo verði áfram. Um sjö þúsund manns eru nú án atvinnu samkvæmt skráningu Vinnumálastofnunar og hefur þeim fjölgað um ríflega 2.500 frá sama tíma í fyrra.
Staðreyndin er sú að þeir hópar sem skildir voru eftir í uppsveiflu síðustu ára, m.a. vegna mismununar á húsnæðismarkaði, eru þeir sömu og eiga í mestri hættu á að missa atvinnuna í niðursveiflu og verða illa fyrir barðinu á umbreytingum á vinnumarkaði. Aðgerðir til að tryggja að umskiptin gerist á forsendum launafólks með jöfnuði og réttlæti að leiðarljósi eru þess vegna ekki viðfangsefni framtíðarinnar heldur meðal mikilvægustu verkefna dagsins í dag.
Hér má sjá hagspá ASÍ í heild sinni