Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Ný könnun – Ákall um samfélagsbanka og almenn andstaða við sölu Íslandsbanka

Innan við fjórðungur landsmanna er hlynntur sölu Íslandsbanka og er stuðningur langsamlega mestur meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins. Tæplega 56% eru andvíg sölunni. Meira en sex af hverjum tíu eru hins vegar hlynnt því að ríkið stofni samfélagsbanka og aðeins lítill hluti er því andvígur.

Þetta kemur fram í niðurstöðum skoðanakönnunar sem Gallup vann að beiðni Alþýðusambands Íslands.
Samkvæmt niðurstöðunum eru karlar líklegri en konur til að hafa afdráttarlausa skoðun á mögulegri sölu bankans. 27% karla eru hlynntir sölunni en 59% andvígir. Tvær af hverjum tíu konum eru hlynntar sölu en tæplega 60% andvígar.

Stuðningur við sölu Íslandsbanka er minnstur í millitekjuhópum en mestur í hæsta launaþrepinu. Meirihluti kjósenda Sjálfstæðisflokks er hlynntur sölunni eða 56% en þar á eftir er stuðningur mestur meðal kjósenda Miðflokksins eða 32%. Minnstur er stuðningur meðal mögulegra kjósenda Sósíalistaflokksins þar sem nærri allir andvígir sölu Íslandsbanka. Að öðru leyti er andstaðan mest í röðum kjósenda Samfylkingarinnar (73%), þar næst Pírata (68%), VG (65%) og Framsóknarflokksins (53%). Þá vekur athygli að kjósendur Viðreisnar eru ólíklegri til að vera hlynntir sölu Íslandsbanka (13%) en kjósendur VG (23%).

Í könnuninni var einnig spurt um afstöðu til þess að ríkið stofni samfélagsbanka og voru meira en sex af hverjum tíu hlynnt því en einungis 15% andsnúin. Aftur skera kjósendur Sjálfstæðisflokksins sig úr en þeir eru líklegastir til að vera andsnúnir samfélagsbanka. Kjósendur Viðreisnar og Miðflokks eru líklegri en aðrir til að hafa efasemdir um samfélagsbanka en kjósendur annarra flokka líklegri til að styðja slík áform.

Drífa Snædal, forseti ASÍ:
„Ný könnun ASÍ sýnir svart á hvítu að sú vegferð stjórnvalda að selja Íslandsbanka nýtur ekki stuðnings meðal almennings. Salan er keyrð áfram með hraði vegna þess að fjármagnseigendur með fulltingi fulltrúa sinna á þingi vilja ljúka henni fyrir kosningar en í þeim kosningum gæti þau öfl misst umboðið til að ráðstafa eignum almennings. Könnunin sýnir einnig fram á skýran vilja almennings um að ríkið stofni samfélagsbanka. Stjórnmálin þurfa að hlusta á þetta ákall.“

Skoðanakönnunin var netkönnun, gerð dagana 14.-22. janúar 2021.
Úrtakið var 1588 manns af öllu landinu, 18 ára og eldri. Svarhlutfallið var 52,5%.

Author

Tengdar fréttir