Ný ríkisstjórn fordæmi glæpaverk Ísraela

Höfundur

Ritstjórn

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hefur samþykkt eftirfarandi ályktun:

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) hvetur ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur til að fordæma, á hverjum þeim vettvangi sem við verður komið, framferði Ísraela gagnvart Palestínumönnum. Mikilvægt er að hin nýja ríkisstjórn Íslands sýni í verki þá andstyggð og óhugnað sem skipulagt þjóðarmorð á Palestínumönnum á Gaza-svæðinu vekur.

Miðstjórn hefur ítrekað ályktað um málefni Palestínu á undan liðnum misserum enda getur siðað fólk ekki með nokkru móti réttlætt þá algjöru fyrirlitningu á alþjóðalögum sem mótar framgöngu ísraelskra stjórnvalda og lýsir sér í óhæfuverkum gagnvart óbreyttum borgurum, gjöreyðingu innviða og skipulögðum „þjóðernishreinsunum“.

Markmið þeirrar aðskilnaðarstefnu (e. apartheid) sem ísraelsk stjórnvöld fylgja er að eyða byggðum Palestínumanna á hinum svonefndu hernumdu svæðum og hrekja þá íbúa sem ekki tekst að myrða í flóttamannabúðir utan landamæra Ísraels.

Miðstjórn vekur athygli á að Ísraelar hafa á ný hafið landvinninga í kjölfar falls einræðisstjórnar Bashar al-Assads í Sýrlandi. Ísraelar hafa þegar innlimað Gólan-hæðir þvert á alþjóðalög og samþykktir Sameinuðu þjóðanna og hernumið stóran hluta Sýrlands sunnan höfuðborgarinnar, Damaskus. Á Vesturbakkanum sem Ísraelar hyggjast innlima líkt og Gaza eru hafnar þjóðernishreinsanir gagnvart Palestínumönnum.

Miðstjórn ASÍ ítrekar áskoranir um að íslensk stjórnvöld beiti Ísrael hnitmiðuðum viðskiptaþvingunum og taki til alvarlegrar umræðu að slíta stjórnmálasambandi við glæpastjórn Netanyahus forsætisráðherra.

Tengdar fréttir

  • Siðlausri skerðingu lífeyrisréttinda mótmælt

    Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hefur samþykkt eftirfarandi ályktun: Miðstjórn Alþýðusambands Íslands…

    Ritstjórn

    19. sep 2024

  • Ótrúverðug peningastefna gegn þjóðarhag

    Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hefur samþykkt eftirfarandi ályktun vegna þeirrar ákvörðunar…

    Ritstjórn

    22. ágú 2024

  • ASÍ og SA álykta um stöðu efnahagsmála

    Forsvarsfólk aðildarfélaga ASÍ og Samtaka atvinnulífsins hittust á fundi á…

    Ritstjórn

    21. ágú 2024