Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Ný skýrsla ASÍ um íslenskan vinnumarkað

Í nýrri skýrslu Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um íslenskan vinnumarkað er að finna ítarlega greiningu á áhrifum COVID-veirufaraldursins á atvinnulíf og afkomu launafólks.

Þrátt fyrir að efnahagslegur samdráttur reyndist minni en óttast var í fyrstu skilur Covid kreppan eftir sig djúp sár á vinnumarkaði. Hagstofan áætlar 6,6% samdrátt á síðasta ári en ekki er langt síðan spáaðilar töldu líklegt að samdrátturinn yrði nær 8%. Þar skipti sköpum sterk fjárhagsstaða heimila í aðdraganda kreppunnar en heimilin gátu viðhaldið útgjöldum m.a. í gegnum aukna skuldsetningu, úttekt séreignarsparnaðar og úrræði á borð við frestun lánagreiðslna.

Þótt efnahagsleg áhrif reyndust mildari en óttast var í fyrstu endurspeglar það ekki að fullu þær hamfarir sem riðu yfir vinnumarkaðinn. Fyrir liggur að þau störf sem töpuðust voru að stærstum hluta láglaunastörf. Þannig voru þeir sem misstu störf í kjölfar Covid-19 að jafnaði með um 26% lægri laun en aðrir fullvinnandi einstaklingar. Það er ólíkt því sem gerðist í fjármálahruninu 2008 þegar launasamdráttur var mestur í tekjuhærri atvinnugreinum. Tekjufall atvinnuleitenda var verulegt, eða að jafnaði um 37% á fyrstu mánuðum atvinnuleysis. Byrðar samdráttarins dreifðust þannig á smærri og viðkvæmari hópa en í öðrum íslenskum kreppum.

Fjallað er um þróun atvinnuþátttöku, breytingu á samsetningu atvinnulausra og rætt um hættuna á auknu kerfislægu atvinnuleysi eftir að heimsfaraldri lýkur. Dregið hefur lítillega úr atvinnuþátttöku síðastliðna áratugi og breyting orðið á samsetningu þar sem atvinnuþátttaka eldri aldurshópa hefur minnkað á meðan atvinnuþátttaka ungmenna hefur aukist. Þar hefur þróunin verið mest utan höfuðborgar þar sem samsetning starfa hefur tekið umtalsverðum breytingum.

Í skýrslunni er komið inn á hlutverk íslenska atvinnuleysistryggingakerfins í virkni og eflingu atvinnuleitenda. Þar er að finna tillögur m.a. um umbætur atvinnuleysistrygginga auk þess sem stjórnvöld eru hvött til að huga að bættri stefnumótun í atvinnu- og vinnumarkaðsmálum. Lögð er sérstök áhersla á aðgerðir til að bregðast við vanda óvirkra ungmenna og lagt til að tekin verði upp sérstök ungmennatrygging, úrræði sem tryggir óvirkum ungmennum ráðgjöf, störf, úrræði, nám eða starfsþjálfun án tafar.

Ritið unnu sérfræðingar á sviði stefnumótunar og greiningar hjá ASÍ og er þar lýst aðstæðum á vinnumarkaði rúmu ári eftir að gripið var til víðtækra sóttvarnaraðgerða um heim allan til að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar.

Íslenskur vinnumarkaður 2021

Tengdar fréttir