Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Nýtt mánaðaryfirlit – Launadreifing ójafnari hér á landi en á hinum Norðurlöndunum

Dreifing launa hér á landi er jöfn í alþjóðlegum samanburði en ójafnari en á Norðurlöndunum, þetta er meðal þess sem er að finna í nýju mánaðaryfirliti stefnumótunar og greiningar. Þar er einnig fjallað um nýja skýrslu IMF um opinber fjármál þar sem sjóðurinn bendir á að lægri vextir hafi gert það að verkum að þjóðir beri hærra skuldahlutfall og að skuldaviðmið sem stuðst var við fyrir heimsfaraldur kunni að vera of takmarkandi. Í yfirlitinu er einnig að finna umfjöllun um þróun verðbólgu, aukna verðbólgu í Evrópu og hækkanir á hrávöruverði. Hér má nálgast yfirlitið í heild sinni.

Eru launajöfnuður of mikill?
Reglulega heyrist að jöfnuður hér á landi sé of mikill og tekjudreifing sé mjög þétt. Ókostir þess eru gjarnan taldir að ekki sé til staðar hvati til að afla sér menntunar og í kjölfarið dragi úr hvötum til framtaks og nýsköpunar. Of mikill jöfnuður geti þannig haft neikvæð áhrif á lífskjör.

Rétt er að ójöfnuður á mælikvarða ráðstöfunartekna er lágur hér á landi í alþjóðlegum samanburði. Mikilvægt er að hafa í huga að atvinnuþátttaka og aldurssamsetning geta haft töluverð áhrif á mældan ójöfnuð þegar skoðaðar eru ráðstöfunartekjur. Hér á landi er atvinnuþátttaka mikil og hlutfall fólks á vinnufærum aldri hærra en í nágrannalöndum okkar. Í þessu samhengi er nær að líta til launadreifingar hjá einstaklingum sem eru þátttakendur á vinnumarkaði.

Launadreifingin jöfnust á Norðurlöndunum
Í þessu samhengi er gagnlegt að skoða hlutfall efstu og neðstu tíundar. Það eru launin þar sem 10% einstaklinga eru með laun fyrir ofan í hlutfalli við launin þar sem 10% tekjulægstu eru undir. Iðulega er miðað við mánaðarlaun fullvinnandi einstaklinga. Í Evrópu er þetta hlutfall á bilinu 2 til 5. Það þýðir að hátekjufólk er með tvöfalt til fimmfalt hærri laun en lágtekjufólk í Evrópu. Á hinum Norðurlöndunum er þessi munur minnstur, þar er umrætt hlutfall á bilinu 2,1-2,7. Ísland er rétt fyrir ofan hin Norðurlöndin, þar sem hlutfallið er 2,8. Það þýðir að á Íslandi er launadreifingin jöfn í alþjóðlegum samanburði en aðeins ójafnari en á hinum Norðurlöndunum.

Aðrir algengir mælikvarðar eru hlutfall efstu tíundar á móti miðgildislaunum og hlutfall miðgildis og neðstu tíundar. Á þá tvo mælikvarða raðast Ísland einnig á mjög svipaðan stað, þ.e. rétt fyrir ofan hin Norðurlöndin. Að lokum birtum við einnig hlutfall launafólks með lág laun, hlutfall launafólks með innan við 67% af miðgildislaunum. Á Íslandi er um 11% með lág laun en á hinum Norðurlöndunum á það við um 4-9%.

Ólíkt því sem oft er haldið fram er launadreifingin hér á landi ekki þjappaðri en í nágrannaríkjum heldur sambærileg við Norðurlöndin. Lönd þar sem kjarasamningar eru sterkir búa við þjappaðri launadreifingu en að meðaltali í Evrópu og meiri jöfnuð. Ísland er í þeim hópi.

Author

Tengdar fréttir