Fyrstu verðhækkanir ársins birtast nú á verðmiðum landsins. Vörur frá Ölgerðinni og Kjörís hækka mest, Ölgerðin um rúmlega 4% og Kjörís um tæplega 3%. Af vörum Kjörís er það tveggja lítra vanillumjúkís í Prís sem hækkar mest. Þrátt fyrir hækkunina er hann enn ódýrastur í Prís, samkvæmt nýjustu tölum, en hann hafði verið þó nokkru ódýrari en í Bónus fyrir áramót.
Verð á appelsíni og malti frá Ölgerð Egils Skallagrímssonar var mun lægra í Bónus og Krónunni í desember en mánuðina á undan. Nú hefur það hækkað í það verð sem var í boði í september-október. Appelsínið eitt skýrir um fimmtung hækkunar á meðalverði Ölgerðarinnar milli mánaða.
Þó ber ekki aðeins á verðhækkunum, heldur einnig lækkunum. Til dæmis veldur eftirjóla-útsalan á Lindu hátíðarbuffi því að meðalverð á Góu-Lindu-vörum lækkar lítillega milli desember og janúar.
Dagvöruvísitala verðlagseftirlitsins hækkar um 0,3% milli desember og janúar það sem af er mánuði en sú hækkun gefur vísbendingar um verðhækkun dagvöru í vísitölu neysluverðs. Þrátt fyrir þónokkuð umfang verðhækkana í byrjun árs er ekki að sjá merki um aukinn verðbólguþrýsting. Til samanburðar hækkaði matvöruverð á sama tímabili í fyrra um 0,5% samkvæmt Hagstofu Íslands, og yfir allan janúar um 0,6% í mælingum verðlagseftirlitsins.Verðhækkanir skýrast ekki af alþjóðlegri þróun
Verð á hrávöru hækkaði mikið í kjölfar heimsfaraldurs og innrásar Rússa í Úkraínu snemma árs 2022. Þessar hækkanir voru meðal þess sem ýtt hefur undir mikla verðbólgu hér á landi og víðar. Verulega hefur dró úr hækkunum á hrávöru á síðasta ári og eru dæmi um að miklar hækkanir árana 2022-2023 hafi gengið til baka. Þó enn séu einstakar hrávörur sem hafi hækkað í verði, hefur hrávöruverð matvöru að jafnaði lækkað milli ára, um 2% á síðasta ári. Ýmsar hrávörur sem notaðar eru til framleiðslu hér á landi, t.d. olía og áburður lækkuðu einnig á síðasta ári.
Þessar lækkanir endurspeglast að einhverju leyti í lækkun á vöruverði frá t.d. Gestus og Grön Balance. Verð á vörum Gestus hefur lækkað um 2,5% frá undirritun kjarasamninga í mars í fyrra. Verð á vörum Grön balance lækkaði milli mánaða um tæplega 2,5%.