Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum 17. september 2025:
Miðstjórn ASÍ harmar nýlegar uppsagnir í sjávarútvegi og telur ótækt að útgerðin beiti starfsfólki sínu fyrir
sig í pólitískum slag um veiðigjöld.
Auðlindir hafsins í kringum Ísland eru ekki séreign útgerðarinnar. Útgerðin hefur hins vegar um langt skeið
fengið aðgang að þeim án eðlilegs endurgjalds til eigenda hennar, þjóðarinnar. Íslenskur sjávarútvegur hefur verið vel rekinn undanfarinn áratug, skilað afkomu og byggt upp eigið fé sem hleypur á hundruðum
milljarða.
Miðstjórn ASÍ telur óboðlegt að útgerðin beiti uppsögnum starfsfólks sem vopni í pólitískum slag um
veiðigjöld. Nýting sameiginlegrar auðlindar snýst ekki einungis um hag eigenda útgerðafyrirtækja heldur
um samfélagslega ábyrgð, hag nærsamfélags og starfsfólks.