Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Pistill forseta – Að vera atvinnurekandi á aðventunni

Á aðventunni er gott að setja sig í spor annarra og reyna að skilja samferðafólkið betur, hátíð kærleika og friðar og allt það. Þess vegna set ég mig í spor atvinnurekanda sem hefur metnað fyrir að reka öflugt og gott fyrirtæki til langs tíma.

Segjum sem svo að ég væri að reka framleiðslufyrirtæki sem þyrfti umtalsverðan fjölda starfsfólks. Velgengni fyrirtækisins væri háð því að starfsfólkið mætti hresst og heilbrigt til vinnu og gæti einbeitt sér að framleiðslunni. Samkvæmt kapítalismanum á fólk að einbeita sér að því sem það er gott í að framleiða og kaupa annað. Ég hef því sem atvinnurekandi engan metnað, kunnáttu eða þörf fyrir að redda starfsfólki húsnæði. Ég vil að starfsfólkið hafi aðgang að öruggu húsnæði á viðráðanlegum kjörum svo ég þurfi ekki að hafa áhyggjur af því. Það er framleiðslunni líka í hag að starfsfólkið geti treyst á góða heilbrigðiþjónustu og öldrunarþjónustu, leikskóla, frístundaheimil og tómstundir fyrir börn sín. Þá get ég treyst því að fólk þurfi ekki að standa í reddingum í ólaunuðum umönnunarstörfum á vinnutíma og sé ekki undir óþarflegri streitu þegar vinnu lýkur.

Sem atvinnurekandi er það mikilvægt fyrir mig að starfsfólkið sé heilbrigt, geti farið í skimanir fyrir alvarlegum sjúkdómum og stundað heilsuforvarnir. Ég vil líka að kerfið grípi fólk þegar í harðbakkann slær en til að koma í veg fyrir langvinna sjúkdóma, streitu og álag þá er það mest um vert að starfsfólkið sé ekki þjakað af afkomuótta og öryggisleysi. Þegar breytingar verða í fyrirtækinu vil ég líka hafa möguleika á að leita eftir fræðslu fyrir starfsfólk, bæði til að efla það og fyrirtækið sjálft. Og ef ég þarf að gera breytingar og jafnvel segja upp fólki, þá vil ég vita að ég sé ekki að henda því út á guð og gaddinn, heldur sé öryggisnet sem grípur það.

Þegar ég set mig í spor atvinnurekenda sem hafa metnað og vilja til að reka fyrirtæki vel þá kemst ég yfirleitt að sömu niðurstöðu, að það er atvinnurekendum í hag að fólk búi við húsnæðisöryggi, hafi aðgang að öflugri heilbrigðisþjónustu og að hér sé sterkt velferðarkerfi sem virkar fyrir okkur öll. Það er því óskiljanlegt að samtök atvinnurekenda leggist ekki af þunga á árarnar með samtökum vinnandi fólks til að vinna að þessum sjálfsögðu réttindum. Húsnæðisöryggi er þar efst á blaði og ég býð atvinnurekendum að vinna með okkur að því á nýju ári að þrýsta á um stórátak í húsnæðismálum. Það er ekki bara mannlegt og réttlátt heldur hlýtur það að vera þeim í hag sem vilja góða umgjörð utan um rekstur fyrirtækja.

Góða helgi,
Drífa

Author

Tengdar fréttir