Pistill forseta ASÍ – Fyrir fólk, ekki fjármagn

Höfundur

Ritstjórn

Leiðarstef í kröfum ASÍ gagnvart stjórnvöldum er að allar ákvarðanir um aðgerðir vegna efnahagskreppunnar verði teknar með hagsmuni almennings að leiðarljósi en ekki sérhagsmuni. Nú heyrast háværar raddir um að slaka á reglum, leyfa fyrirtækjum að hafa sinn háttinn á og jafnvel víkja frá kjarasamningum, með vísan til „sérstakra aðstæðna“. Fyrir mánuði síðan voru ýmsar hugmyndir uppi á borðum en þá var almennt talið að við stæðum frammi fyrir fárra mánaða samdrætti og að markmiðið væri að ná góðri viðspyrnu strax í kjölfarið. Nú þegar er staðan orðin margfalt alvarlegri og óvissan meiri. Þær ákvarðanir sem eru teknar núna munu hafa áhrif næstu mánuði og jafnvel ár. Tilslakanir sem snúa að kjörum fólks geta því þýtt tilslakanir til framtíðar, sem aftur getur reynst okkur sem samfélagi hættulegt. Það er lágmarkskrafa að þau fyrirtæki sem njóta fyrirgreiðslu úr okkar sameiginlegu sjóðum með brúarlánum eða öðrum meðulum virði lög og kjarasamninga og ástundi ekki félagsleg undirboð.

Það skynsamlegasta sem hægt er að gera við þessar aðstæður er að tryggja framfærslu fólks, hvort sem það er launafólk eða atvinnulaust fólk, öryrkjar eða aldraðir. Tryggja það að almenningur geti haldið áfram að versla við fyrirtæki, sækja þjónustu, sinna viðhaldi eigna, greiða af lánum og nýta sér það sem atvinnulífið hefur uppá að bjóða. Það er öruggasta leiðin til að tryggja áframhaldandi rekstur fyrirtækja, atvinnu og lífsgæði. Við verðum að komast í gegnum þessa erfiðleika sem samfélag. Samhliða þarf að tryggja að viðbrögð við efnahagslægðinni verði til að renna stoðum undir það framtíðarsamfélags sem við viljum byggja, ekki síst með tilliti til loftslagsbreytinga og tæknibreytinga. Nú er tími breytinga, hann þarf að nýta vel.

Góða helgi,
Drífa

Tengdar fréttir

  • ASÍ styrkir Samhjálp um páska

    ASÍ styrkir Samhjálp um 400 þúsund krónur nú í aðdraganda…

    Arnaldur Grétarsson

    15. apr 2025

    Kaffistofa Samhjálpar og merki Samhjálpar
  • Opið fyrir umsóknir í Minningarsjóð Eðvarðs Sigurðssonar 2025

    Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar auglýsir eftir umsóknum. Sjóðurinn veitir styrki til…

    Arnaldur Grétarsson

    8. apr 2025

    Eðvarð Sigurðsson
  • Engar tryggingar í frumvarpi um verð á raforku til almennings

    Stjórnvöld taki ekki tillit til sérstöðu raforkumála á Íslandi Alþýðusamband…

    Ritstjórn

    26. mar 2025