Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Pistill forseta ASÍ – Play er enginn leikur fyrir launafólk

Þegar ég byrjaði að vinna fyrir verkalýðshreyfinguna þá trúði ég því varla að á íslenskum vinnumarkaði væru hópar sem væri búið að svipta rödd sinni, þyrðu ekki að koma fram og greina frá aðstæðum sínum og væru kúgaðir til að vinna fyrir laun undir lágmarkslaunum. Síðan er ég reynslunni ríkari og hef ítrekað hitt fólk sem hefur ekki rödd og eina vonin er að stéttarfélögin leggi lið og ljái rödd og styrk, sem þau gera daglega. 

Það tekur hins vegar steininn úr þegar heilt flugfélag er byggt á grunni kjara undir lágmarkslaunum og býður ódýr fargjöld á grunni þess að hafa „ódýrara starfsfólk“. Þessi saga Play hefur verið rakin áður og miðstjórn ASÍ og formannafundur ályktað og hvatt til sniðgöngu á félaginu þar til það gerir réttmætan kjarasamning. Hið svokallaða stéttarfélag sem samið var við er ekki raunverulegt stéttarfélag, fólkið sem vinna átti eftir samningunum tók ekki þátt í gerð þeirra og félagið, ÍFF, er ekki sjálfstætt frá atvinnurekandanum. Tilraunir hafa verið gerðar til að ná alvöru kjarasamningum við Play og þeim gefinn kostur á að ganga til samninga við félag sem raunverulega er skilgreint sem félag flugfreyja, hefur reynslu af kjarasamningum og hefur sýnt það að það standi við bakið á sínum félagsmönnum þegar í harðbakkann slær. Play hefur því miður ekki gripið slíkt tækifæri. 

Nú ber svo við að síðustu vikur og mánuði hef ég ítrekað fengið óskir um liðsinni frá starfsfólki Play og ábendingar um slæman aðbúnað þeirra. Mér hafa einnig borist nafnlaus bréf frá fólki sem óttast afleiðingar af því að koma fram undir nafni. Starfsfólkið er í erfiðri stöðu, það vill vinna við flug og hefur metnað fyrir því að nýtt flugfélag geti starfað á íslenskum markaði. En það vill líka sanngjörn kjör og að stéttarfélagið starfi að hagsmunum starfsfólksins, ekki atvinnurekendanna. Framganga Play er þeim til skammar og á meðan ekki er tekið á henni grefur það undan öllum vinnumarkaðnum og er ógn við réttindi launafólks almennt. Þessu máli er fjarri lokið og verkalýðshreyfingin heldur áfram baráttunni gegn aðferðum Play og fyrir réttindum launafólks.

Góða helgi,

Drífa

Author

Tengdar fréttir