Pistill forseta – Lof og last og jól

Höfundur

Drífa Snædal

Á þessum síðustu dögum Alþingis eru teknar ákvarðanir sem geta haft veruleg áhrif á daglegt líf launafólks og alls almennings. Ég vil byrja á því að fagna lengingu fæðingarorlofsins í 12 mánuði sem virðist vera í hendi. Reglan verður þá jöfn skipting á milli foreldra með möguleika á framsali nokkurra vikna. Lenging orlofsins skiptir verulegu máli og verður vonandi til að auka samvistir barna við báða foreldra og ekki síður auka á jafnrétti innan sem utan heimila. Þá skiptir líka máli að tekjutenging atvinnuleysisbóta hafi verið lengd í 6 mánuði og fangar nú stærri hóp en áður. Hækkun grunnbóta er einnig áfangasigur. En betur má ef duga skal. Við búum við kerfi sem á að grípa fólk og í þessum makalausu aðstæðum er eins gott að þétta öryggisnetið þannig að það þjóni sínum tilgangi. Nú berast okkur örvæntingafull skilaboð frá fólki sem hefur klárað rétt sinn í bótakerfinu og er afar þröngur stakkur sniðinn, getur ekki gefið börnunum í skóinn og kvíðir jólunum. Algert forgangsatriði er að lengja rétt til atvinnuleysisbóta þangað til landið fer að rísa því á mörgum sviðum og svæðum er einfaldlega enga vinnu að fá.

Það eru mikil vonbrigði að mörg mál sem hafa legið lengi á borði stjórnvalda og myndu bæta hag almennings hafa ekki klárast á þessu ári þrátt fyrir mikinn þrýsting. Ný starfskjaralög (þar með talið févíti fyrir launaþjófnað) eru þar efst á blaði en einnig má nefna ný húsaleigulög, skref til að afnema verðtryggingu, aðgerðaáætlun gegn mansali og lagabreytingar í lífeyrismálum svo eitthvað sé nefnt.

Næg verkefni bíða næsta árs en verkalýðshreyfingin mun leggja allan sinn kraft í að auka afkomuöryggi fólks og missa ekki sjónar af því markmiði að við komumst út úr kófinu með jafnara og sanngjarnara samfélag. Ekkert smá verkefni en með samstilltu átaki öflugrar hreyfingar munum við ná árangri.

Ég óska ykkur gleðilegra jóla og baráttuglaðs nýs árs!
Drífa

Tengdar fréttir

  • Vel heppnað þing ASÍ-UNG

    ASÍ-UNG hélt sitt 11. þing föstudaginn 17. október og var…

    Ritstjórn

    20. okt 2025

  • Skýrsla forseta ASÍ 2025 komin út

    Skýrsla forseta fyrir árið 2025 er að venju efnismikil og…

    Arnaldur Grétarsson

    17. okt 2025

  • ASÍ gagnrýnir niðurskurð og óttast aukna verðbólgu

    Alþýðusamband Íslands gerir athugasemdir við áform ríkisstjórnarinnar um niðurskurð eins…

    Ritstjórn

    17. okt 2025