Pistill forseta – Veiran og tekjuvarnir

Höfundur

Drífa Snædal

Mörgum féll allur ketill í eld þegar kynntar voru hertar sóttvarnaraðgerðir í vikunni. Grunnskólar loka fyrr en áætlað var vegna páska og foreldrar þurfa í stærri stíl að vera heima að gæta barna. Það var einkennandi á blaðamannafundinum þegar ráðstafanirnar voru kynntar að fjármálaráðherra fjallaði um stuðning við fyrirtækin en splæsti varla setningu á stöðu heimilanna.

Við fáum hins vegar fregnir af því að fólk er sent heim launalaust eða látið taka út frí sem ýmsir hafa nú þegar þurft að ganga hressilega á. Jafnvel heyrist að einhver sveitarfélög skerði laun fólks sem getur ekki annað en verið heima vegna barna. Þá hafa einnig borist fréttir af því að fólk er fært á milli starfa innan sveitarfélaga eða stofnana án samráðs eða samtals. Slíkt er einungis heimilt í almannavarnaskyni en ekki sem almenn aðgerð!

Það er ljóst í mínum huga að lög um greiðslur í sóttkví verður að útvíkka þannig að hægt sé að grípa fólk sem situr uppi tekjulaust vegna nýjustu sóttvarnaraðgerðanna. Fjölmörg heimili hafa þegar gengið í gegnum miklar tekjuskerðingar undanfarið ár og fjöldi barnafólks var í þeirri stöðu síðastliðið sumar að hafa notað alla sína orlofsdaga til að vera heima með börnum sínum vegna skerts skóla- og leikskólahalds. Afkomu fólks verður að tryggja og ef það þarf að fara heim til að gæta barna vegna sóttvarnaraðgerða þá þarf að brúa það bil, með nákvæmlega sama hætti og komið er til móts við fyrirtæki. Við gerum þá skýlausu kröfu að sveitarfélög og opinberar stofnanir veiti fólki launað leyfi til að sinna börnum sínum. Aðrir atvinnurekendur eiga að gera slíkt hið sama og þar sem þess er þörf eiga stjórnvöld að styðja við fólk og fyrirtæki til að tryggja að svo sé.

Að góðu fréttum vikunnar þá tókst að afstýra því að starfsfólki hjúkrunarheimila í Fjarðabyggð og Vestmannaeyjum yrði sagt upp og jafnvel lækkað í launum við yfirfærslu frá sveitarfélögunum til ríkisins. Sú óvissa sem starfsfólkið hefur þurft að búa við undanfarnar vikur er óviðunandi, sérstaklega á krepputímum. Verkalýðshreyfingin hefur þurft að fara mikinn til að benda á þá sjálfsögðu lausn sem nú hefur orðið ofan á. Ríki og sveitarfélög eiga að geta haft samskiptin sín í milli í betra horfi en þetta.

Góða helgi,
Drífa

Tengdar fréttir

  • ASÍ styrkir Samhjálp um páska

    ASÍ styrkir Samhjálp um 400 þúsund krónur nú í aðdraganda…

    Arnaldur Grétarsson

    15. apr 2025

    Kaffistofa Samhjálpar og merki Samhjálpar
  • Opið fyrir umsóknir í Minningarsjóð Eðvarðs Sigurðssonar 2025

    Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar auglýsir eftir umsóknum. Sjóðurinn veitir styrki til…

    Arnaldur Grétarsson

    8. apr 2025

    Eðvarð Sigurðsson
  • Engar tryggingar í frumvarpi um verð á raforku til almennings

    Stjórnvöld taki ekki tillit til sérstöðu raforkumála á Íslandi Alþýðusamband…

    Ritstjórn

    26. mar 2025