Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Ræða Kristjáns Þórðar Snæbjarnarsonar á 1. maí

Hér fer á eftir ávarp Kristjáns Þórðar Snæbjarnarsonar, 3. varaforseta ASÍ, á, útifundi á Ingólfstorgi 1. maí.

Kæru félagar, 

Til hamingju með daginn! Baráttudagur verkalýðsins er dagur launafólks. Það er frábært að upplifa hversu mörg við erum saman komin hér í dag og finna þann mikla kraft sem í ykkur býr!  

Okkur hefur verið tíðrætt um samstöðu á undanförnum mánuðum og árum. Við vitum svo sannarlega að slagorð okkar sem hljóðar á þennan veg; sameinuð stöndum vér, sundruð föllum vér, eru tilkomin vegna þess að með samstöðunni verðum við alltaf sterkari. Það að tilheyra verkalýðsfélögum og taka virkan þátt í að móta samfélagið með áherslur launafólks að leiðarljósi mun alltaf styrkja stöðu okkar allra. Við sjáum jafnframt að með samstöðu margra verkalýðsfélaga í viðræðum við atvinnurekendur og stjórnvöld er afl okkar meira og við náum fram stærri sigrum í bættri uppbyggingu samfélagsins.  

Undanfarnir mánuðir hafa jafnframt sýnt okkur að það er svo sannarlega ekki vanþörf á því að við stöndum saman því á hverjum degi er sótt að réttindum launafólks. Það er iðulega talað um smávægilegar breytingar sem nauðsynlegt sé að gera en slíkar smávægilegar breytingar eru oftar en ekki gerðar til þess að höggva í samstöðuna, höggva í réttindin. Við megum ekki láta það gerast á okkar vakt að við látum höggva í samningsrétt okkar. Við munum aldrei og eigum ekki að sætta okkur við að færa ríkinu aukið vald við gerð kjarasamninga. 

Kæru félagar,  

Við búum við efnahagslegan óstöðugleika. Mikil verðbólga bitnar verst á þeim tekjulægstu, þar sem ekkert svigrúm er fyrir aukin útgjöld.  

Á meðan stjórnvöld í nágrannaríkjum hafa gripið til ráðstafana í því skyni að milda áhrif afkomukreppunnar hefur ríkisstjórn Íslands gert hið gagnstæða – já, beinlínis dýpkað hana með skatta- og gjaldahækkunum. Hálaunafólkið í pólitíkinni – sem nýtur sérkjara í mörgum efnum – finnur hins vegar ekkert fyrir þessum auknu álögum. Hefur eitthvað verið sótt í vasa þeirra ríku? Nei, þunginn leggst á launafólk og bitnar verst á þeim sem við minnstu efnin búa.  

Bein inngrip t.a.m. í formi skattalækkana á eldsneyti og matvöru hefur ekki mátt ræða. Þess í stað býður ríkisstjórnin fólkinu í landinu upp á  “fjármálaáætlun” sem svo er kölluð en er svo rýr og óútfærð að mikla furðu vekur.  

Ekkert er þar að finna sem bætt getur hag heimila landsins á næstu mánuðum; engar beinar aðgerðir til að minnka verðbólgu, engin viðbrögð við verðhækkunum, ekkert til að bæta úr fjársvelti tilfærslukerfa, engin áform um að bregðast við miklum vaxtamun og okri banka, ekkert um skattlagningu ofurlauna og fjármagnstekna og auðvitað ekkert um að þjóðin eigi að fá notið afraksturs auðlinda sinna. Sú vaxtahækkunarhrina sem gengur nú yfir er auk þess eingöngu til þess fallin að auka ójöfnuð í samfélaginu, skuldsett heimili greiða hærri vexti á meðan fjármagnseigendur fá greidda hærri vexti. Þurfa þeir virkilega á hærri vöxtum að halda? 

Eins og fram hefur komið eru hundrað ár síðan fyrsta kröfugangan var farin hér á Íslandi. Við mættum mótlæti úr röðum yfirstéttarinnar á þeim tíma enda ekki henni til geðs að við sýndum samstöðu með þessum hætti. Á þessum tíma var íslenskt samfélag stéttaskipt, það var eignafólkið sem naut góðs af vinnuframlagi okkar, naut góðs af þeim auðlindum sem landið hafði upp á að bjóða. Misskipting var mikil. 

Hvað hefur breyst?.  

Jú vissulega hafa lífskjör almennings batnað og þá einkum fyrir baráttu verkalýðshreyfingarinnar. En við búum áfram í stéttskiptu samfélagi þó svo einhverjir eigi erfitt með að viðurkenna það. Það er með öllu óásættanlegt að fólk þurfi að búa við fátækt á Íslandi árið 2023. Metnaður okkar – almennings – hlýtur að vera meiri en svo þótt stjórnmálamenn láti gaspur um raunverulega fátækt og erfiða afkomu nægja. Við verðum að knýja stjórnvöld og atvinnulífið til að ganga til liðs við okkur um að stórbæta afkomu þeirra sem lægst hafa launin. 

Á sama tíma býr 1% þjóðarinnar við allsnægtir og á gríðarlegar eignir. Á sama tíma heldur lítill hópur um auðlindirnar okkar! Á sama tíma stýrir fjármagnið samfélaginu leynt og ljóst. Nei, kæru félagar, ég er ekki að tala um auðræðið í Rússlandi.  

Hreyfing okkar er stærsta og mikilvægasta afl framfara og uppbyggingar á Íslandi. Áhrif hennar á mótun samfélagsins hafa verið ómæld og án baráttu launafólks væri hér ekkert til sem kallast “velferðarsamfélag”.  

Höfum þetta í huga, góðir félagar, og miðlum þessari sögu og vissu til hinna yngri og óreyndari.  

En stöndum jafnframt klár á einu – án samstöðu náum við engum árangri og skorti eininguna í okkar röðum bregðumst við samfélaginu því sagan sýnir að hér verða engar framfarir án baráttu launafólks. 

Kæru félagar,  

Nýliðinn vetur hefur einkennst af gerð kjarasamninga og stutt er í næstu samningalotu. Við okkur blasa margvíslegar áskoranir á vinnumarkaði og ég nefni hér sérstaklega í tengslum við loftslagsmál. Verkefni okkar er og verður að tryggja græn, réttlát umskipti og góð, fjölbreytt og vel launuð störf. 

Við berjumst fyrir jöfnuði. Við krefjumst þess að allt launafólk fái sömu laun fyrir sömu eða sambærileg störf. Kynbundinn launamunur á ekki að þekkjast í nútímalegu lýðræðissamfélagi og því er endurmat á virði kvennastarfa löngu tímabært og sjálfsagt verkefni. Við fögnum fjölbreytileika og höfum einsett okkur að berjast fyrir réttindum aðflutts verkafólks af sama þrótti og við gerum fyrir þau sem hér eru fædd og  uppalin. 

Við krefjumst þess að fólk sem hefur lokið störfum á vinnumarkaði vegna aldurs njóti sanngjarnra eftirlauna. Það er til skammar að eldra fólk neyðist til að flytja úr landi vegna þess að eftirlaunin dugi ekki til framfærslu. Þegar svo er komið er augljóslega eitthvað í stórkostlegu ólagi. 

Við viljum búa í norrænu velferðarsamfélagi þar sem þjónusta er veitt öllum, óháð efnahag og stöðu og þar sem við kaupum okkur ekki pláss framar í röðinni. Sjálfbær nýting auðlinda og réttlát skattlagning er ein meginforsenda þess að hér getum við áfram rekið velferðarsamfélag sem stendur undir nafni. Í mínum huga er ljóst að skattkerfið allt þarfnast róttækrar endurskoðunar meðal annars til að hér verði haldið uppi viðunandi velferðarstigi. 

Ágætu félagar,  

Það er ekki að ástæðulausu að einkunnarorð 1. maí þetta árið eru réttlæti, jöfnuður, velferð.  Án réttlætis er jöfnuður aðeins hugarburður og án jöfnuðar verður velferðin aldrei almenn. Í þessum þremur orðum er að finna verkefni okkar og markmið.  

Ég hef öðlast vissu fyrir því að við stöndum á krossgötum í baráttunni og að okkar bíði miklar áskoranir og risavaxin verkefni. Ég hef skynjað það sterkt síðustu daga að fólkið í landinu hefur fengið nóg af því fálæti og sinnuleysi um kjör almennings sem einkennir afstöðu svo margra í stjórnmálunum og ríkisstjórnarinnar sérstaklega.  

Nýkjörinn forseti Alþýðusambands Íslands sagði á föstudag að haustið yrði erfitt og horfði þá til komandi kjaraviðræðna. Ég er sammála því mati hans. En um leið horfi ég bjartsýnn fram á veg ekki síst sökum þess að verkefnin eru skýr og baráttuvilji okkar eindreginn og mikill. Um leið og við minnumst þeirra með virðingu og þakklæti sem á undan okkur fóru i baráttunni skulum við strengja þess heit enn á ný að standa saman samfélagi okkar og framtíðinni til heilla – standa saman um réttlæti, jöfnuð og velferð. 

Til hamingju með daginn! 

Þakka ykkur fyrir. 

Author

Tengdar fréttir