Ræddu græn og réttlát umskipti

Höfundur

Ritstjórn

Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti Alþýðusambands Íslands, tók í dag, þriðjudaginn 28. febrúar, þátt í pallborðsumræðu á fundi leiðtoga Samráðsnefndar jafnaðarflokka og alþýðusambanda á Norðurlöndum (SAMAK) í Helsinki í Finnlandi.  

Í pallborðsumræðunni tóku þátt forsetar Alþýðusambanda á Norðurlöndum, auk Kristjáns Þórðar þau Lizette Risgaard, frá Danmörku, Jarkko Eloranta frá Finnlandi, Peggy Hessen Følsvik, frá Noregi og Susanne Gideonsson frá Svíþjóð. Í umræðunni bar hæst græn og réttlát umskipti og þær áskoranir sem launafólk á Norðurlöndum stendur nú frammi fyrir sökum mikillar verðbólgu og verðhækkana á nauðsynjum. Kristján Þórður svaraði spurningum um stöðu mála á Íslandi og gat þess m.a. í umræðu um græna skatta að íslensk heimili bæru skattbyrðar langt umfram þá losun sem þau væru ábyrg fyrir.  

Samfylkingin og Alþýðusamband Íslands eiga aðild að SAMAK. Fulltrúi Samfylkingarinnar á fundinum var Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður.  

Hvatt til stækkunar NATO 

Utanríkis- og öryggismál voru efst á blaði á fundinum. Sérstakur gestur var Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, og fyrrum forsætisráðherra og leiðtogi jafnaðarmanna í Noregi. Í ályktun fundarins segir að hraða beri inngöngu Finna og Svía í NATO svo sem frekast megi. Hvatt er til þess að norrænt varnarsamstarf verði aukið.  

Þá lýsa norrænir jafnaðarmenn yfir stuðningi við Úkraínu þar til innrásarher Rússa hafi verið sigraður og heita aðstoð við uppbyggingu eftir að ófriðnum lýkur. Ennfremur hvetur samráðsnefndin til þess að Úkraína fái aðild að ESB. 

Auk Stoltenbergs, framkvæmdastjóra NATO, sóttu þau Sanna Marin forsætisráðherra Finnlands, Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur, Jonas Gahr Støre forsætisráðherra Noregs og Magdalena Andersson, fv. forsætisráðherra Svíþjóðar, leiðtogafund SAMAK. 

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, ávarpaði fundinn með rafrænni kveðju frá Íslandi.  

Á meðfylgjandi mynd má sjá Kristján Þórð fyrir miðju í pallborðsumræðunni. 

Réttlát umskipti (e. just transition) fela í sér að þeim tækifærum og byrðum sem felast í loftslags- og tæknibreytingum og aðgerðum þeim tengdum sé dreift með réttlátum og sanngjörnum hætti. Árið 2021 var gefin út skýrsla sem unnin var af ASÍ, BSRB OG BHM um réttlát umskipti og kröfur verkalýðshreyfingarinnar í vegferð að kolefnishlutlausu samfélagi. Skýrsluna má nálgast hér.

 

Tengdar fréttir

  • NÁMSKEIÐIÐ UNGIR LEIÐTOGAR HALDIÐ Í ÞRIÐJA SINN

    Ungir leiðtogar er námskeið ætlað ungu fólki innan verkalýðshreyfingarinnar. Áhersla…

    Ritstjórn

    20. jan 2025

    Ungir leiðtogar
  • Kvennaráðstefna ASÍ 2024 

    Ryðjum hindrunum úr vegi – kvenfrelsi og stéttabarátta. Kvennaráðstefna ASÍ…

    Ritstjórn

    14. nóv 2024

  • Ekki er allt gull sem glóir

    Göran Dahlgren og Lisa Pelling skrifa: Það var okkur ánægja…

    Ritstjórn

    14. okt 2024