Ríki og stjórnmálamenn bera ábyrgð á sjóðaklúðri

Höfundur

Ritstjórn

Með því að slíta ÍL-sjóði er tap samfélagsins alls af misráðnum fjármálagjörningum ríkisvaldsins fyrir tveimur áratugum fært af samfélaginu öllu yfir á sjóðfélaga lífeyrissjóða að megninu til. Eðlilegt er að ríkið beri ábyrgð á klúðri stjórnmálamanna en ekki tilteknir samfélagshópar.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í umsögn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um áformaða lagasetningu vegna slita og uppgjörs ÍL-sjóðs. Þar segir enn fremur að vandi ÍL-sjóðs og áður Íbúðalánasjóðs hafi lengi legið fyrir og raunar megi segja að svo hafi verið allt frá útgáfu skuldabréfanna.

Lífeyrissjóðir eiga 80-90% skuldabréfa ÍL-sjóðs og munu þeir því bera stærstan hluta þess tjóns sem slit og uppgjör munu valda. Í umsögninni segir að ábyrgð ríkisins sé skýr. „Ríkið ber ábyrgð á stofnunum sínum, rekstri og fjármögnun ríkissjóðs. Það er vart heppilegt fordæmi að klúður stjórnmálamanna og ríkisins sé fært annað en þangað sem ábyrgðin liggur, hjá ríkinu sjálfu.“

Rakið er í umsögninni hvernig tjón ríkis og skattgreiðenda vegna ÍL-sjóðs hafi enn verið aukið með ýmsum ákvörðunum stjórnvalda.

Opinberir sjóðir ríkistryggðir

Í umsögninni er vakin athygli á að opinberir lífeyrissjóðir njóti bakábyrgðar ríkisins þannig að félagar í þeim sjóðum verði ekki fyrir skerðingum á réttindum verði sjóðnum slitið með þeim hætti sem fjármálaráðherra nú boðar. Sjóðir á almennum markaði njóti ekki þeirrar bakábyrgðar og því muni tjónið ekki koma niður á lífeyrissjóðum í heild heldur aðeins hluta þeirra. Hluti lífeyrisþega verði þannig fyrir skerðingum réttinda vegna misráðinna ákvarðana stjórnmálamanna.

ASÍ hvetur til þess, að horfið verði frá boðuðum áformum um slit og uppgjör ÍL-sjóðs og að ríkisvaldið standi við skuldbindingar sínar.

Umsögn ASÍ má nálgast hér.

Tengdar fréttir

  • ASÍ styrkir Samhjálp um páska

    ASÍ styrkir Samhjálp um 400 þúsund krónur nú í aðdraganda…

    Arnaldur Grétarsson

    15. apr 2025

    Kaffistofa Samhjálpar og merki Samhjálpar
  • Opið fyrir umsóknir í Minningarsjóð Eðvarðs Sigurðssonar 2025

    Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar auglýsir eftir umsóknum. Sjóðurinn veitir styrki til…

    Arnaldur Grétarsson

    8. apr 2025

    Eðvarð Sigurðsson
  • Engar tryggingar í frumvarpi um verð á raforku til almennings

    Stjórnvöld taki ekki tillit til sérstöðu raforkumála á Íslandi Alþýðusamband…

    Ritstjórn

    26. mar 2025